Þjóðhagsstofnun o.fl.

Fimmtudaginn 18. apríl 2002, kl. 14:35:24 (7790)

2002-04-18 14:35:24# 127. lþ. 122.1 fundur 709. mál: #A Þjóðhagsstofnun o.fl.# frv. 51/2002, Frsm. minni hluta JóhS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 122. fundur, 127. lþ.

[14:35]

Frsm. minni hluta efh.- og viðskn. (Jóhanna Sigurðardóttir) (andsvar):

Herra forseti. Ég heyri að hv. þm. er að lesa skýringar af skjali sem ég kallaði eftir frá fjmrn. þar sem óljóst var í frv. --- enda unnið í miklum flýti --- hvernig þessi verkaskipting væri. Jafnvel þótt það skjal hafi verið lagt fram er verkaskiptingin enn mjög óljós að því er ýmsa þætti varðar. Enda ber nál. það með sér, sem meiri hlutinn og hv. þm. skrifar undir. Hér er sagt:

,,Jafnframt er gert ráð fyrir að aðrir aðilar á borð við Seðlabanka Íslands, aðila vinnumarkaðarins og einkaaðila geti tekið að sér og sinnt einhverjum verkefnum.``

Ég krefst þess, herra forseti, að skýrt verði hvað átt er við í nál. þegar talað er um að aðilar vinnumarkaðarins geti tekið að sér að sinna ,,einhverjum verkefnum``. Í fyrsta lagi spyr ég hverjir eigi að taka að sér einhver verkefni sem Þjóðhagsstofnun hefur haft. Eða er átt við að að styrkja eigi hagdeildir, t.d. Samtaka atvinnulífsins, fjárhagslega? Það skiptir meginmáli hvort um er að ræða að aðrir taki að sér verkefni og taki þá að sér þjónustu fyrir þá sem þurfa að leita eftir ýmsu sem Þjóðhagsstofnun hefur haft á sinni könnu eða hvort styrkja eigi hagdeildir Samtaka atvinnulífsins að þeir geti sjálfir sinnt eigin útreikningum á því sem þeir þurfa á að halda. Ég óska eftir að þessu verði svarað.

Það er ekki hægt að komast hjá því, þegar aðilar vinnumarkaðarins eru nefndir, að svara hvort bara sé átt við ASÍ, eins og haldið hefur verið fram. Það hefur komið fram hjá hæstv. ráðherrum vegna þess að aðrir aðilar vinnumarkaðarins sem komu á fund nefndarinnar töluðu mikið um að nauðsynlegt væri, raunverulega skylda stjórnvalda, að gæta jafnræðis milli aðila vinnumarkaðarins að því er varðar fjárhagslegan stuðning t.d. til hagfræðilegra útreikninga. Þetta þarf því að skýra miklu betur, herra forseti. Ég óska eftir svari frá hv. frsm. meiri hlutans hvað þetta varðar.