Þjóðhagsstofnun o.fl.

Fimmtudaginn 18. apríl 2002, kl. 16:05:18 (7796)

2002-04-18 16:05:18# 127. lþ. 122.1 fundur 709. mál: #A Þjóðhagsstofnun o.fl.# frv. 51/2002, ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 122. fundur, 127. lþ.

[16:05]

Ögmundur Jónasson:

Herra forseti. Ég vildi að ég gæti fagnað því að við værum að ræða málefni Þjóðhagsstofnunar og framtíð þeirrar stofnunar. Það er löngu tímabært að sú umræða fari fram. En ástæðan fyrir því að þessi umræða er mér ekki fagnaðarefni er að sjálfsögðu sú að áður en umræðan hófst var niðurstaðan gefin.

Við í minni hluta efh.- og viðskn. högum engu að síður málflutningi okkar á þann veg að hugsanlega megi hnika sjónarmiðum einhverra sem enn eiga eftir að gera upp hug sinn. Hér á að taka ákvörðun sem skiptir mjög miklu máli. Þetta er að mörgu leyti mjög örlagarík ákvörðun. Ég ætla að gera grein fyrir því hvers vegna ég tel svo vera.

Í fyrsta lagi langar mig til að minna á að þetta er ekki í fyrsta sinn sem málefnum Þjóðhagsstofnunar er hreyft á þann veg að menn vilji gera grundvallarbreytingar. Fyrir fáeinum árum, á löggjafarþinginu sem 1997--1998, lögðu fjórir þingmenn, með hv. þm. Kristin H. Gunnarsson í broddi fylkingar, fram frv. til laga sem gerði ráð fyrir að Þjóðhagsstofnun yrði færð undir Alþingi.

Í 1. gr. frv. segir m.a., með leyfi forseta:

,,Forsætisnefnd Alþingis ræður forstjóra hennar til fimm ára í senn. Hann ræður aðra starfsmenn stofnunarinnar. Forstjóri Þjóðhagsstofnunar er starfsmaður Alþingis og ber ábyrgð gagnvart þinginu.`` --- Síðan eru fleiri atriði tíunduð í 1. gr. frv. til laga sem lagt var fram á löggjafarþinginu 1997--1998.

Þetta náði ekki fram að ganga. Síðan gerist það að enn er lagt fram þingmál um endurskoðun á starfsemi Þjóðhagsstofnunar en flutningsmenn þess voru hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon og sá er hér stendur. Sú þáltill. var fyrst lögð fram á árinu 2000 og síðan endurflutt á löggjafarþinginu 2001--2002. Í þessari þáltill. er lagt til að gerð verði úttekt á starfsemi Þjóðhagsstofnunar, að sett verði sérstök þingskipuð nefnd til að annast það starf og í henni eigi sæti fulltrúar allar þingflokka, einn fulltrúi tilnefndur af starfsmönnum Þjóðhagsstofnunar og einn fulltrúi forsrn. sem jafnframt skuli vera formaður þeirrar nefndar.

Verkefni nefndarinnar er samkvæmt tillögu okkar, auk almennrar úttektar, að skoða verkaskiptingu milli Þjóðhagsstofnunar og annarra aðila sem vinna að einhverju leyti að svipuðum verkefnum og meta kosti þess að Þjóðhagsstofnun verði færð undir Alþingi. Síðan var nefndinni, samkvæmt þessari tillögu, gert að skila skýrslu til Alþingis.

Það er ástæða til að vísa í þetta vegna þess að þetta þingmál var til umfjöllunar í efh.- og viðskn. jafnhliða umfjöllun um frv. ríkisstjórnarinnar og má geta þess að í umræðu sem fram fór í nefndinni var einnig hreyft mörgum öðrum athyglisverðum tillögum en þeirri sem hér er vísað til, þ.e. að flytja Þjóðhagsstofnun undir Alþingi. Meðal annars var sú hugmynd reifuð að sameina Hagstofu og Þjóðhagsstofnun og efla sérstaka greiningardeild á vegum slíkrar stofnunar. Ég nefni þetta til að sýna fram á að menn hafa velt ýmsum valkostum fyrir sér. En sú umræða hefur aldrei fengið að fara fram og það er mjög miður vegna þess að sú nefnd sem starfaði á vegum ríkisstjórnarinnar var með fyrir fram gefin markmið.

Það var hálfömurlegt að hlýða á talsmenn meiri hluta nefndarinnar halda því aftur og ítrekað fram að öll sjónarmið hefðu átt að fá að blómsta í þessari umræðu þegar jafnframt var sagt af hálfu sömu aðila að niðurstaða væri gefin. Það átti að leggja niður Þjóðhagsstofnun. Þetta gerir náttúrlega alla umræðu máttlitla vegna þess að það dregur máttinn úr fólki þegar það finnur að rökin sem það reiðir fram eru að engu höfð.

Það sem ég hef haft mestar áhyggjur af er framtíð starfsmanna. Því hefur verið haldið fram að rangt sé að skilja starfsmenn eftir í lausu lofti, í óvissu um framtíðina. Þetta höfum við fengið að heyra þegar við höfum stungið upp á að málinu verði skotið á frest fram á haustið og við tækjum ekki ákvörðun fyrr en að afloknu sumarhléi þar sem okkur gæfist ráðrúm til að rýna í málið.

Það er alveg rétt. Það kom fram af hálfu starfsmanna að ef niðurstaðan yrði áfram gefin, sú ákvörðun stæði óhögguð að leggja Þjóðhagsstofnun niður, væri best að fá niðurstöðu í málið hið allra fyrsta. Það sjónarmið kom fram. Hins vegar lögðu starfsmenn mjög ríka áherslu á, og þar hvíldi meginþunginn, að ef menn væru reiðubúnir að skoða alla valkosti og endurmeta stöðuna frá grunni þá væri það leiðin sem starfsmenn kysu að fara.

Í grg. með þáltill. okkar hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar er vísað í þetta fyrra þingmál sem flutt var af Kristni H. Gunnarssyni og fleirum á 122. löggjafarþingi. Þar var jafnframt sagt eftirfarandi, með leyfi forseta:

,,Breyting á stjórnsýslulegri stöðu Þjóðhagsstofnunar af því tagi sem gert er ráð fyrir að verði skoðuð samkvæmt tillögunni mundi styrkja stofnunina sem óháða fagstofnun, sjálfstæða gagnvart framkvæmdarvaldinu. Mikilvægt er að stofnun, sem hefur það með höndum að meta stöðu og horfur í þjóðarbúskapnum, hafi svigrúm til að miðla hlutlægum upplýsingum í hvívetna og njóti sem slík almenns trausts í þjóðfélaginu. Ljóst er að slík stofnun gæti jafnframt orðið Alþingi til styrktar við að rækja eftirlitshlutverk sitt og komið að gagni við gerð fjárlaga.

[16:15]

Eitt meginhlutverk Þjóðhagsstofnunar er að fylgjast með framvindu efnahagsmála, meta árangurinn af efnahagsstjórn ríkisstjórnar á hverjum tíma og líklegar afleiðingar ráðstafana í efnahagsmálum. Því getur tæpast talist heppilegt að stofnunin heyri beint undir forsætisráðuneytið sem fer með yfirstjórn efnahagsmála og hefur þar á ofan nýlega tekið við forsvari fyrir Seðlabankann. Benda má á að breytingar á stöðu Ríkisendurskoðunar, sem var færð undir yfirstjórn Alþingis frá framkvæmdarvaldinu, urðu til þess að styrkja þá stofnun mjög sem sjálfstæðan, óháðan og faglegan eftirlitsaðila. Sömu sögu er að segja af starfsemi umboðsmanns Alþingis, þó að ekki sé um efnislega sambærilega hluti að ræða, að vistun starfseminnar í skjóli Alþingis hefur reynst haldgóð trygging fyrir því að stofnunin njóti óskoraðs trausts og virðingar og að fagleg og hlutlæg vinnubrögð séu ekki dregin í efa, einmitt vegna þess hver staða hennar er í stjórnsýslunni.

Í tilefni af breytingum sem líklega eru í aðsigi, m.a. á stöðu Seðlabankans, á gjaldeyris- og peningamarkaði og fleiri sviðum, er eðlilegt að farið sé yfir stöðu og hlutverk stofnana og embætta sem hlutverki gegna á þessu sviði. Tillagan hefur sem grundvallarforsendu að allar breytingar sem gerðar kunna að verða á starfsemi og stöðu stofnana á þessu sviði séu yfirvegaðar og vandlega undirbúnar, í góðu samstarfi við starfsmenn og samtök þeirra.``

Hér vitnaði ég í grg. till. til þál. sem borin var fram af okkur hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni í annað skipti á þessu þingi og var til umræðu hér í síðustu viku og jafnhliða frv. ríkisstjórnarinnar í efh.- og viðskn. þingsins. Tillagan fékkst því miður ekki afgreidd út úr nefndinni. Ég gerði tillögu um að hún yrði afgreidd og Alþingi gæfist kostur á að greiða um hana atkvæði á sama hátt og við munum væntanlega greiða atkvæði um frv. ríkisstjórnarinnar verði það ekki dregið til baka í ljósi þess sem fram kemur við þessa umræðu.

Hver eru síðan helstu gagnrýniefnin? Í hverju felst gagnrýni okkar? Jú, við höfum lagt áherslu á ýmsa þætti, og einn vildi ég nefna í upphafi. Hann snýst um framtíð starfsmanna stofnunarinnar. Ef svo fer að þetta verði samþykkt er mjög mikilvægt að tryggja framtíð þeirra. Í frv. ríkisstjórnarinnar er vísað til þess að þeim verði boðin störf við þær stofnanir sem verkefnum Þjóðhagsstofnunar verður skákað til en þar er ekki vísað til sambærilegra starfa eins og fyrirheit munu hafa verið gefin um þótt í grg. meiri hluta efh.- og viðskn. komi fram að vilji sé til þess að finna starfsfólkinu störf svipaðs eða sambærilegs eðlis þeim sem það áður gegndi. Það er inntakið í meirihlutaálitinu.

Við fengum það staðfest í efh.- og viðskn. að í reynd skipti orðalagið þarna ekki öllu máli, menn yrðu að taka það trúanlegt að reynt yrði eftir bestu getu að finna fólki sambærileg störf. Við viljum að þá verði einmitt stigið það skref í sjálfum lagatextanum og gerum tillögu um að lagatextinn verði orðaður þannig að fólki verði tryggð sambærileg störf verði þetta frv. að lögum. Við í minni hlutanum höfum lagt fram tillögu þar að lútandi.

Við leggjum einnig fram aðra tillögu --- ef svo fer að frv. nái fram að ganga --- sem lýtur að styrkingu þeirrar þjónustu --- vegna þess að á Alþingis er ekki til neitt sem heitir hagsvið --- sem alþingismenn ættu kost á á því sviði sem Þjóðhagsstofnun hefur starfað.

Þetta var það sem ég vildi nefna í upphafi, staða starfsmanna og framtíð þeirra. Það er mjög mikilvægt að þessi grein frv. verði endurskoðuð, og ef ekki höfum við lagt fram brtt. Mér fyndist æskilegt að ríkisstjórnin og hæstv. forsrh. beittu sér fyrir því að lagagreininni yrði breytt að frumkvæði stjórnarmeirihlutans.

Hvað er það sem við höfum helst gagnrýnt í frv.? Það er margt eins og ég nefndi áðan. Í fyrsta lagi er margt mjög óljóst um þá verkaskiptingu sem verður milli þeirra aðila sem koma til með að fá verkefni Þjóðhagsstofnunar í hendur. Hverjir eru þessir aðilar? Það er Seðlabanki Íslands, það er Hagstofan og það er fjmrn. Þetta eru þeir aðilar í opinberri stjórnsýslu sem fá þessi verkefni í hendur en að auki er vísað til þess að aðilar á markaði, stofnanir og samtök, yfirtaki verkefni sem áður hafi verið hjá stjórnsýslunni en einnig verði stuðlað að því að hagdeildir verkalýðssamtaka verði efldar. Þar er sérstaklega vísað til hagdeildar Alþýðusambands Íslands en því hefur aldrei verið neitað að hið sama gildi um aðra aðila, og er vel að ríkisstjórnin vilji stuðla að því að samtök launafólks geti sinnt umræðu um efnahagsmál og haft til þess fjárhagslega burði. Það er sem sagt margt óljóst um hvað verður um verkefnin og þessa verkaskiptingu.

Hvers vegna leggjum við svona mikla áherslu á þetta mál? Ég skal alveg gera þá játningu að ég hef ekki alltaf verið sáttur við Þjóðhagsstofnun og enn síður við forstjóra Þjóðhagsstofnunar, sérstaklega þegar hann hefur verið á álskónum sínum, um tíma ráðuneytisstjóri í iðnrn. og stjórnarformaður í stóriðjunefnd ríkisstjórnarinnar. Ég hef ekki alltaf verið sáttur við hann en ég geri enga kröfu til þess að vera alltaf sammála honum eða sáttur við hann.

Þetta snýst nefnilega ekki um einstaklinga sem stýra stofnunum. Ég vil taka það fram að um margt hef ég verið mjög ánægður með störf hans og er ekki að gera lítið úr þeim nema síður sé. Það sem málið snýst um er sú þjónusta sem Þjóðhagsstofnun veitir. Þar vil ég gera aðra játningu. Hún er sú að alltaf þegar ég hef leitað til Þjóðhagsstofnunar, og ég þekki til þess að það sama á við um aðra þingmenn og það á einnig við um samtök launafólks þar sem ég einnig þekki til, hefur þjónustan verið mjög góð. Hún hefur verið afbragðsgóð. Hún hefur verið fagleg og vel af hendi innt. Það er mjög mikilvægt að þetta komi fram.

Þingmenn ætla að gera úttekt á stöðu í skuldamálum heimila, fyrirtækja, hins opinbera, ríkis, sveitarfélaga. Hvert snúa þeir sér? Þeir hafa snúið sér til Þjóðhagsstofnunar og að bragði eru þessi gögn komin í okkar hendur í aðgengilegu formi. Það er síðan okkar að vinna frekar úr þeim. Það er þetta sem menn hafa áhyggjur af að verði ekki eins traust og verið hefur.

Við 1. umr. málsins vakti ég athygli á þáttum sem einkenna samtíð okkar. Í fyrsta lagi vísaði ég til þess að í þjóðfélaginu eru mjög örar breytingar, ekki bara okkar heldur um heiminn allan, og þessar breytingar eiga sér stað í mjög flóknu efnahagsumhverfi. Til að geta stýrt þessum breytingum þurfum við að þekkja forsendur þeirra, þar á meðal efnahagslegar forsendur þeirra. Þess vegna er mjög mikilvægt að til þess bærir aðilar, og færir, varpi ljósi á þá þætti.

Í annan stað vakti ég athygli á því að við búum við mjög sterkt framkvæmdarvald, og að sama skapi veikt löggjafarvald. Oft hefur verið talað um nauðsyn þess að efla þingið gagnvart framkvæmdarvaldinu en það hefur ekki tekist sem skyldi að mínum dómi og hefur það verið einkennandi, ekki síst síðustu árin, hvert ægivald framkvæmdarvaldið hefur, ekki síst sá sem þar trónir efst, hæstv. forsrh., yfir stjórnarmeirihlutanum og þar með þinginu. Einnig í ljósi þessa er mikilvægt að efla alla gagnrýna umræðu vegna þess að framvindan og ákvarðanir ráðast sem betur fer ekki bara af meirihlutavaldinu og vöðvastyrknum í þingsölum heldur væntanlega einnig þeim rökum sem teflt er fram. Það eru þau vopn sem minni hluti á þingi hefur, þ.e. að tefla fram upplýsingum og rökum. Þá þarf að búa þessi vopn í hendur okkar, upplýsingar og aðgengi að þeim. Þess vegna höfum við af því áhyggjur þegar Þjóðhagsstofnun er lögð niður, og þau verkefni sem hún hefur sinnt gagnvart okkur eru færð til stofnana sem heyra beint undir pólitískt framkvæmdarvald. Það á svo sannarlega við þegar um fjmrn. er að ræða. Um það deilir enginn. Það er augljóst að þar er þessi beintenging eins náin og hugsast getur. Það á ekki við í eins ríkum mæli gagnvart Seðlabankanum. Í 1. gr. seðlabankalaga segir að hann eigi að vera sjálfstæð stofnun, stofnun í eigu ríkisins. En í 3. gr. seðlabankalaganna segir, með leyfi forseta:

,,Seðlabankinn skal stuðla að framgangi stefnu ríkisstjórnarinnar í efnahagsmálum, enda telji hann það ekki ganga gegn meginmarkmiði sínu skv. 1. mgr.``

Þar er aftur vísað reyndar í sjálfstæði stofnunarinnar en hann hefur þetta hlutverk, að framfylgja stefnu stjórnvalda.

Mér fannst umsögn Seðlabankans um þetta frv. athyglisverð, og koma þar mjög vel í ljós hvernig hann túlkar sjálfstæði sitt. Ég vona að hæstv. forsrh. heyri þetta. Í umsögn sinni um frv. segir Seðlabankinn m.a., með leyfi forseta:

,,Í samstarfshópnum hafði bankinn hlutlausa afstöðu til þess hvort leggja bæri Þjóðhagsstofnun niður en var engu að síður reiðubúinn að axla einhver viðfangsefni sem honum kynnu að verða falin, enda samrýmdist það ákvæðum laga um bankann.``

Seðlabankinn hefur hlutlausa afstöðu. Hvað þýðir þetta í raun? Þýðir þetta að maður segir ekki meiningu sína? Þýðir þetta að það er ekki sagt sem bankinn telur vera vitlegt og skynsamlegt í þessum efnum? Ætli raunin sé sú að hann lúti svo valdi framkvæmdarvaldsins, ríkisstjórnarinnar, að hann láti af allri eigin sannfæringu, sitji þarna á áhorfendabekknum meðan ríkisstjórnin fer sínu fram? Seðlabankinn þorir ekki einu sinni að segja okkur hvað honum finnst um þetta efni, hvort honum finnst það skynsamlegt, rétt eða rangt. Fulltrúi bankans er settur í nefnd og þorir síðan ekki að hafa skoðun.

En auðvitað er þetta afstaða. Þetta felur það í sér að tekin er afstaða með þeim ásetningi ríkisstjórnarinnar að leggja Þjóðhagsstofnun niður. Það er mergurinn málsins. Þetta er afstaða í sjálfu sér, þetta er ekki hlutleysi. Þetta er jákvæð afstaða með ríkisstjórninni, þetta er pólitísk afstaða. Og þetta er einn aðilinn sem verið er að færa verkefnin undir.

Þá erum við komin með tvo. Við erum komin með fjmrn. og Seðlabankann sem á þó samkvæmt laganna hljóm að reyna að halda sjálfstæði sínu.

[16:30]

Þá erum við komin að Hagstofunni. Hagstofan er fyrst og fremst aðili sem safnar saman gögnum. Hagstofan er ekki greiningarstöð, hún hefur ekki haft með höndum að greina þjóðhagsstærðir, hlutverk hennar hefur verið allt annað og mér finnst sjálfsagt að efla Hagstofuna í þjónustuhlutverki sínu. Ég minni aftur á þá hugmynd sem fram var sett og ég vísaði til í umræðu í efh.- og viðskn. hvort til álita kæmi að sameina Þjóðhagsstofnun og Hagstofu og koma á fót greiningarstofnun eða greiningardeild innan slíkrar nýrrar stofnunar. Mér finnst koma fyllilega til athugunar að fara þá leið.

Þar erum við aftur komin að þeirri niðurstöðu sem við höfum komist að, að eðlilegast væri að viðhalda Þjóðhagsstofnun sem öflugri þjónustustofnun við þingmenn, við þingið, þingnefndir, við samtök launafólks og aðila á vinnumarkaði, við LÍÚ, sem lýsir áhyggjum yfir því að verkefni sem hafi verið unnin á vegum Þjóðhagsstofnunar séu færð undir ráðuneytið, beint undir framkvæmdarvaldið. Þar erum við aftur komin að sams konar gagnrýni og ég vísaði áður til.

Það er alveg rétt sem bent hefur verið á og hæstv. forsrh. hefur meðal annarra bent á og aðrir þeir sem hafa tjáð sig um þetta málefni, að á síðari árum hefur þeim aðilum fjölgað sem sýsla með efnahagsstærðirnar, bæði í bönkunum og í fjármálastofnunum eru til komnar greiningarmiðstöðvar, greiningardeildir. Verkalýðshreyfingin hefur í nokkuð langan tíma haft hagdeildir, það eru fleiri samtök en ASÍ sem hafa haft slíkt starf með höndum, atvinnurekendasamtök hafa haft það líka. Enn má nefna Háskóla Íslands og reyndar er einhvers staðar í þessum gögnum vísað í að Hagfræðistofnun Háskóla Íslands geti tekið að sér verkefni, þjónustuhlutverk sem áður var hjá Þjóðhagsstofnun. En hvað þýðir það? Það þýðir að þeir sem sækja þá þjónustu verða að greiða fyrir hana. Aðgangur að upplýsingum er þannig orðinn söluvara. Það kostar að fá aðgang að upplýsingum, það kostar að fá að taka þátt í efnahagsumræðu á viti borinn upplýstan hátt. Vilja menn fara út á slíka braut? Finnst mönnum þetta vera eðlilegt? Mér finnst það ekki.

Það sem við eigum að gera og það er nútíminn og það er framtíðin, það er að vera með óháða, öfluga, kröftuga stofnun sem safnar efnahagsupplýsingum saman, býr þær þannig út að þær verða auðvelt úrvinnsluefni fyrir samtök þess vegna á markaði og, ef því er að skipta, kemur fram með eigin greiningu.

Ég held t.d. að það hafi verið til góðs og gert umræðuna hér um fjárlögin frjórri að til sögunnar komu upplýsingar frá Þjóðhagsstofnun, ég held að það hafi verið til góðs. Hv. þm. Jón Bjarnason vísaði til þess í ræðu sinni við 1. umr. málsins að þegar fjárlögin fyrir þetta ár voru til umfjöllunar í fjárln. þingsins hafi komið greining á þjóðhagsstærðum og spádómar um framtíðina frá Þjóðhagsstofnun sem voru talsvert frábrugðnir því sem kom frá fjmrn. Ég er hér með blað sem sýnir þennan mismun sem er talsverður, bæði varðandi spádóma um innflutning á vöru og þjónustu o.s.frv. Hver reyndist hafa rétt fyrir sér? Ég veit það ekki. (Gripið fram í.) Já, það er ekki aðalmálið. Aðalmálið er að það séu fleiri en einn aðili sem sýsli með slíkar stærðir. Sá sem hefur rétt fyrir sér í dag kann að hafa rangt fyrir sér á morgun. Þannig er lífið, vegna þess að við erum að tala um líkindareikning. Þótt vissulega felist í því vissar hættur að færa stofnanir og greiningarstöðvar og spádómsdeildir, beintengja þær pólitísku framkvæmdarvaldi, það felast vissulega í því ákveðnar hættur að menn samsami sig ákveðinni hugsun sem þar er þótt ekkert óheiðarlegt sé þar að baki. Ég er ekki að halda því fram að starfsmenn fjmrn. eða þeirra stofnana séu óheiðarlegir í störfum sínum, ég er ekki að halda því fram. Ég er að segja að mjög mikilvægt er að vera með margbreytilega flóru á sviði upplýsingaöflunar, gagnasöfnunar og efnahagsspádóma. Það er gott fyrir lýðræðið. Og ég held að það sé líka gott fyrir lýðræðið og sérstaklega gott fyrir Alþingi að hafa greiðan aðgang að slíkri þjónustu sem við höfum einmitt fengið hjá Þjóðhagsstofnun. Þetta er þungamiðjan í því sem ég er að halda fram.

Þess vegna fagna ég því, mér finnst það gott að rætt sé um að örva hagdeildir verkalýðssamtakanna. Vísað er í Alþýðusamband Íslands, en ég hef oft hreyft þeirri hugmynd að æskilegt væri að samtök launafólks sameinuðust um starfsemi af þessu tagi, hugsanlega í sjálfstæðri efnahagsstofnun sem teflt væri fram gegn þjónustustofnunum atvinnurekenda, ríkisvalds og öðrum aðilum. Það mundi ekki breyta því að slík þjónustustofnun þyrfti að hafa aðgang að upplýsingabönkum á borð við þá sem Þjóðhagsstofnun hefur búið yfir.

Í álitsgerðunum sem fylgja nál. okkar kemur fram andstaða. Þegar á heildina er litið kemur fram andstaða við frv. Greinilegt var að þeir sem var falið það verkefni af hálfu ríkisstjórnarinnar að finna leiðir til að leggja niður Þjóðhagsstofnun, þ.e. að finna verkefnunum annan samastað, voru vissir í sinni sök enda höfðu þeir starfað í anda þessara fyrirmæla. En flestir aðrir sem komu að þessu máli voru annaðhvort með efasemdir eða hlutleysi í besta falli, eins og Seðlabankinn sem á sinn djarfa og hugprúða hátt sagðist hafa sýnt hlutleysi í málinu, sem er náttúrlega ekkert hlutleysi, sem er sennilega bara máti þeirrar stofnunar að segja að hann hafi haft efasemdir. Þó skal ég ekkert um það fullyrða, mér finnst þetta undarleg framsetning, en þeir sem ekki komu fram fyrir hönd stofnanakerfis ríkisins voru með harða gagnrýni á slíkar breytingar. Einna hörðust var gagnrýni sem kom frá Sambandi íslenskra bankamanna. Í umsögn sinni eru þeir reyndar mjög harðorðir í garð Alþýðusambandsins og segja, með leyfi forseta:

,,Starfsmenn Þjóðhagsstofnunar eru félagsmenn í Sambandi íslenskra bankamanna (SÍB) og taka kjör sín samkvæmt kjarasamningum SÍB. SÍB er ekki aðili að ASÍ og á ekkert formlegt samstarf við þau samtök. Það eru forkastanleg vinnubrögð að ráðherra og forusta ASÍ skuli vinna að því í sameiningu að leggja niður Þjóðhagsstofnun og taka núverandi störf frá starfsmönnum þar. Þetta er fyrst nefnt hér þar sem utanríkisráðherra (starfandi forsætisráðherra) telur það skrautfjöður og máli ríkisstjórnar til framdráttar að hafa gert einhvern samning við ASÍ. Eitthvað hljóta þá önnur samtök á vinnumarkaði að fá í sinn hlut!``

Þetta segir m.a. í umsögn um frv. frá Sambandi íslenskra bankamanna.

Þess skal getið að í umræðum á fundum efh.- og viðskn. kom fram hjá fulltrúum Alþýðusambandsins að þeir hefðu ekki verið áfram um þessar breytingar og viðbrögð þeirra hefðu verið í nauðvörn. Þar sem þeir hefðu tekið það sem gefna niðurstöðu að sú yrði raunin að stofnunin yrði lögð niður vildu þeir tryggja að þeir hefðu burði til þess að sinna þjónustustarfsemi við félagsmenn sína og samfélagið allt með hagfræðirannsóknum og vildu þess vegna umræður um það efni.

Samband íslenskra bankamanna leggur áherslu á að það hafi átt að heita svo að hagræðing ætti að nást af þessum breytingum og er vísað í athugasemdum samtakanna til frv. eða grg. frv. þar sem þessi ásetningur ríkisstjórnarinnar er tíundaður.

Síðan segir Friðbert Traustason, formaður SÍB, sem skrifar umsögnina fyrir hönd félagsmanna sinna, að þótt haft hafi verið á orði að samstarf hafi verið haft við starfsmenn Þjóðhagsstofnunar, helstu sérfræðinga landsins á sviði hagskýrslugerðar, þá hafi lítið sem ekkert verið gert í því máli. Og hann hreinlega blæs á þetta tal um samstarf og samráð. Það eina sem hafi gerst hafi verið það að fulltrúum starfsmanna hafi einfaldlega verið tilkynnt að Þjóðhagsstofnun yrði lögð niður og að ráðherrann, og vísar þá væntanlega í hæstv. forsrh., hafi þegar ákveðið að svo yrði. Hann bendir enn fremur á að tilraunum starfsmanna til að ræða aðrar leiðir við endurskipulagningu hagskýrslugerðar á vegum ríkisns og þjóðhagsspár hafi verið sópað burt og að engin umræða hafi fengist um málið. Friðbert segir að oftast og oft hafi þetta reynst raunaleg niðurstaða af svokölluðu samráði ríkisvaldsins við starfsmenn þegar pólitískur skollaleikur eða duttlungar ráðherra ráða för.

Þetta er alveg rétt hjá formanni Sambands íslenskra bankamanna. Við erum búin að horfa upp á þetta margoft á undanförnum árum. Þegar ríkisstjórnin hefur tekið ákvörðun um breytingar þá eru kallaðir til starfsmenn eða fulltrúar þeirra, þeim er tilkynnt um breytingar, mótmæli þeirra að engu höfð og þegar þeir síðan snúast til varnar réttindum sínum í ljósi þeirra breytinga sem þröngvað skal í gegn þá er sagt: Nú er hafið mikið samráð, nú er samráð hafið. Þetta var gert t.d. þegar bönkunum var breytt í hlutafélög, þar var allt í bullandi samráði, samráð upp á hvern einasta dag enda þótt samtök bankamanna mótmæltu þá er samráðið á þessum nótum.

Síðan segir Friðbert Traustason enn fremur, með leyfi forseta:

,,Það eru einkennileg fræði og samrýmist illa vandaðri meðferð fjármuna og mannauðs að rífa niður öflug, virt og hagkvæmt ríkisfyrirtæki til þess eins að þjóna duttlungum.``

[16:45]

Nú ætla ég aðeins að víkja frá þessari tilvitnun vegna þess að hæstv. forsrh. er hér í salnum. Við þessa umræðu hefur því verið haldið fram að það séu einmitt duttlungar hæstv. forsrh. í þessu tilviki sem hafi ráðið því að þessi stofnun er lögð niður, að dropinn sem hafi fyllt mælinn í því efni hafi verið gagnrýni frá Þjóðhagsstofnun og forstjóra Þjóðhagsstofnunar á efnahagsstefnu ríkisstjórnarinnar. Því hefur margoft verið haldið fram að svo hafi verið og hefur minnt okkur svolítið á atburðarás í öðru landi sem heitir Nýja-Sjáland. Þar fóru menn í svipaðar æfingar og við höfum fengið að kynnast í okkar landi á síðustu tíu árum, að samfélagsþjónustan var einkavædd, meira að segja í ríkari mæli en hér hefur verið gert og ýmsar efnahagsráðstafanir verið gerðar sem við könnumst við.

Þetta tímabil í sögu Nýsjálendinga hófst, þessi innreið inn í tilraunabú frjálshyggjunar, um miðjan níunda áratuginn, 1984 held ég að upphafið hafi verið að þeirri göngu. Þá var þögn í landinu, verkalýðshreyfingar andæfðu ekki og þjóðhagsstofnanir þess lands voru ósköp daufar á fyrstu árunum. Síðan gerist það árið 1990 að þjóðhagsstofnunin í Nýja-Sjálandi vaknar skyndilega til lífisins og andæfir ríkisstjórninni og forsætisráðherra sem þar sat. Hvað skyldi hann nú hafa gert? Hann lagði niður þjóðhagsstofnunina á Nýja-Sjálandi. Ég held að hún hafi heitið National Economic Council. Hún var hreinlega lögð niður.

Og hverjar voru afleiðingar þessa? Jú, það dró aftur úr gagnrýninni þjóðfélagsumræðu, gagnrýninni umræðu um þjóðfélagsmál. Reyndar gengu þeir lengra. Þar var farið í að mola niður upplýsingakerfið sem hafði verið grunnurinn að umræðu um efnahags- og þjóðfélagsmál á Nýja-Sjálandi. Reyndar er nú svo komið eftir einkavæðingarfárið á Nýja-Sjálandi að það er mjög erfitt að halda þar uppi viti borinni umræðu, t.d. um heilbrigðismál. Ef menn ætla að fá upplýsingar um tölfræði á sviði heilbrigðismála verða menn að fara bónarveg að dyrum sjúkrahúsanna. Hvers vegna? Þetta eru hlutafélög sem búa yfir leyndarmálum, viðskiptaleyndarmálum.

Með þessu er gert ógerlegt að halda uppi einhverri samfélagsumræðu. Fyrst er þjóðhagsstofnun þar í landi lögð niður og síðan haldið inn á þessa braut. Við þekkjum hluta af þessari þróun í hlutafélagavæðingunni þar sem umræða um málefni Símans og aðrar stofnanir sem gerðar hafa verið að hlutafélögum er komin á bak við tjöldin. Það er búið að loka á hana. Á Nýja-Sjálandi var þetta einn liður í að veikja þjóðfélagslega umræðu, að leggja niður þjóðhagsstofnun þeirra. Það er bara nákvæmlega það sama og við erum að upplifa hér.

Ég spyr hæstv. forsrh.: Hverju svarar hann þeim ásökunum sem fram hafa komið og mér finnst þurfa að taka alvarlega, að það sé verið að leggja Þjóðhagsstofnun niður vegna þess að hún hafi ekki gefið yfirlýsingar að skapi stjórnvalda og þá sérstaklega hæstv. forsrh.?

Áfram segir formaður Sambands íslenskra bankamanna, Friðbert Traustason, með leyfi forseta:

,,Starfsmenn Þjóðhagsstofnunar hafa mikla og góða menntun og langa reynslu við gerð þjóðhagsreikninga, samningu þjóðhagsspár og þjóðhagsáætlana. Þeir hafa veitt alþingismönnum, nefndum Alþingis og aðilum vinnumarkaðarins mikilvægar upplýsingar um efnahagsmál sem allir hafa getað treyst og treysta vegna þess að Þjóðhagsstofnun er sjálfstæð og algerlega óháð framkvæmdarvaldinu. Innan fyrirtækisins er nú samstæður hópur starfsmanna, sem byggt hefur upp samræmd og öguð vinnubrögð en einnig öflug verkfæri, þar með talið hugbúnað, fyrir gerð þjóðhagsspár og önnur þau verkefni er stofnunin vinnur samkvæmt lögum.

Nú á samkvæmt tillögu ráðherra að flytja þessa samræmdu vinnu á þrjá til fjóra staði innan ríkiskerfisins og til ASÍ, samkvæmt ræðu ráðherra og viðtali við hann í Morgunblaðinu. Það er ekki bara einkennileg, heldur miklu frekar óskiljanleg ráðstöfun og mun einungis leiða til ómarkvissari vinnubragða og kosta ríkið mikið meira en rekstur Þjóðhagsstofnunar kostar nú. Sumar þær stofnanir sem eiga að taka yfir verkefni Þjóðhagsstofnunar geta vart talist óháðar framkvæmdarvaldinu og því munu aðrir hagsmunaaðilar setja spurningarmerki við niðurstöður þeirra. Þjóðhagsstofnun nýtur hins vegar trausts allra þeirra sem átt hafa viðskipti við stofnunina og fengið upplýsingar frá starfsmönnum hennar. Það er þjóðinni nauðsynlegt að eiga eina óháða stofnun sem allir geta treyst.``

Þetta segir m.a. í álitsgerð Sambands íslenskra bankamanna. Ég held reyndar að það sé ekki alveg rétt skilið af hálfu talsmanns sambandsins að verkefni verði flutt frá Þjóðhagsstofnun til Alþýðusambandsins. Ég held að hugsunin sé ekki sú þótt svo hafi mátt skilja á starfandi forsrh. þegar þetta mál var kynnt, hæstv. utanrrh. Halldóri Ásgrímssyni. Það mátti skilja orð hans þannig. Ég held hins vegar að hugmyndin sé sú að efla aðila á borð við ASÍ til hagfræðirannsókna eftir því sem dregið verður úr starfsemi á vegum hins opinbera.

Ég er sammála þessu að hluta til. Mér finnst eðlilegt að styðja og styrkja hagfræðideilir samtaka launafólks. Þar horfi ég til launafólks almennt og allra heildarsamtaka sem ég vona að komi til með að bera gæfu til þess þegar fram líða stundir og ekki allt of langt inni í framtíðinni, að stofna til sameiginlegrar hagfræði- og rannsóknarstofnunar. Ég held hins vegar að það sé ekki rétt að hugmyndin sé að flytja verkefni þangað. Þessum verkefnum verður að einhverju leyti sinnt af Hagstofunni og Seðlabankanum, eftir því sem um semst eins og segir varðandi Seðlabankann. Að einhverju leyti munu þau færast á aðra aðila og þá hugsanlega gegn einhverri greiðslu.

Í greinargerð sinni, sem ég ætla ekki að lesa nánar upp úr, víkur Friðbert Traustason, formaður Sambands íslenskra bankmanna, einnig að reynslunni af svokallaðri hagræðingu á vegum ríkisstjórnarinnar, öllum þessum kerfisbreytingum sem eru til að hagræða jafnvel þótt sýnt sé að þær verði miklu kostnaðarsamari. Hann víkur að hagræðingunni í tengslum við að breyta Húsnæðisstofnun í Íbúðalánasjóð. Það varð ekki til þess að draga úr kostnaði og reyndar er nú svo margt undarlegt í ákvörðunum ríkisstjórnarinnar þegar kemur að ,,hagræðingunni`` að það er erfitt að nota það orð án þess að setja það rækilega innan gæsalappa. Íbúðalánasjóður, svo dæmi sé tekið, var áður í eigin húsnæði. Húsnæðisstofnun átti sitt eigið húsnæði. Húsnæðisstofnun var gert að selja sitt húsnæði og leigir núna dýrum dómum hér í bænum ásamt öðrum stofnunum. Það hefur verið gerð úttekt á því hve geysilegt óhagræði er að þessu. Það er orðinn mjög fýsilegur og ábatasamur kostur fyrir fyrirtæki að reisa húsnæði utan um ríkisfyrirtæki. Það er ábatasöm atvinnugrein. Hvers vegna? Jú, vegna þess að leigan er svo dýr. Það hefði verið miklu heppilegra fyrir Húsnæðisstofnun, núverandi Íbúðalánasjóð, að eiga áfram húsnæði sitt en greiða ekki fyrir það dýrum dómum í leigu.

Annað dæmi er náttúrlega talsvert umrætt hér, þ.e. Landssíminn okkar blessaður sem seldi höfuðstöðvarnar hér við Austurvöll og borgar núna í húsaleigu 1% af söluandvirðinu á hverjum einasta mánuði. Þetta er svo undarleg hagræðingarhagfræði að menn eiga að taka því af fullri varúð þegar ríkisstjórnin segist ætla að hagræða, eða öllu heldur hótar því að hagræða. Þetta er niðurstaðan.

Einnig er bent á reynsluna af flutningi Byggðastofnunar í þessu yfirliti og álitsgerð Friðberts Traustasonar. Ég ætla reyndar, þó að ég hafi sagst ekki ætla að lesa meira úr hans áliti, að vitna í niðurlagsorð hans en þau eru svohljóðandi, með leyfi forseta:

,,Hér er ekki á nokkurn hátt kastað rýrð á störf starfsmanna annarra stofnana eða fyrirtækja sem sinna þjóðhagsreikningum af einhverju tagi. Þeir gera það örugglega samkvæmt bestu samvisku og í samræmi við vilja þeirra sem þar stjórna. Starfsmenn Þjóðhagsstofnunar voru tilbúnir með ýmsar aðrar útfærslur og hugsanlega samvinnu stofnana, en á þeirra sjónarmið var aldrei hlustað eða þau rædd. Það er skammarlegt og í algerri andstöðu við atvinnulýðræði að hunsa vilja starfsmanna og rýrir þann trúnað og traust sem nauðsynlegt er að skapa milli starfsmanna og atvinnurekenda.

Stjórn Sambands íslenskra bankamanna er algjörlega mótfallin þeim áformum sem birtast í þessu frumvarpi og telur að þau muni ekki leiða til eflingar faglegrar umfjöllunar um íslenskan þjóðarbúskap né til hagræðingar í rannsóknum á efnahagsmálum.``

Fleiri umsagnir eru birtar með minnihlutaálitinu. Ég hef áður vísað í umsögn Seðlabanka Íslands sem segist vera hlutlaus í þessu máli. En samkvæmt minni greiningu felst hlutleysi Seðlabankans í því að hlýða fyrirskipunum ríkisstjórnarinnar. Það er hlutleysi Seðlabankans, þ.e. ekki að greina frá því sem bankanum finnst rétt eða rangt. Hann tekur heldur hlutlausa afstöðu, sem þeir kalla, en segist jafnframt tilbúinn að axla einhver viðfangsefni sem honum kynnu að verða falin.

Þetta segir í áliti frá stofnun sem er falið það verkefni að gera tillögur um hvernig þessum málum verði best fyrir komið í framtíðinni. Þetta er álitsgerð frá 15. apríl. Seðlabankinn átti fulltrúa í samstarfshópi til að vinna að framgangi viðamikillar endurskipulagningar á verkaskiptingu stofnana ríkisins á sviði efnahagsmála en tekur hlutlausa afstöðu. Seðlabankinn er tilbúinn að axla einhver þau verkefni sem honum kynnu að verða falin. Þetta er ekki mjög djarfmannlegt.

Hér er síðan umsögn frá BSRB. Þar segir að nauðsynlegt sé að skipulag opinberrar þjónustustarfsemi sé stöðugt til endurskoðunar. Allar skipulagsbreytingar þurfi hins vegar að vera vel grundaðar og til þess fallnar að stuðla að betri og markvissari vinnubrögðum.

,,Eflaust kunna að vera rök fyrir breyttri verkaskiptingu,`` --- segir BSRB --- ,,á milli opinberra aðila varðandi skráningu og úrvinnslu opinberra gagna en að okkar mati eru engin sjáanleg rök fyrir því að leggja niður Þjóðhagsstofnun. Hún gegnir mikilvægu upplýsingahlutverki og væri æskilegt að efla hana og styrkja sjálfstæði hennar til dæmis með því að færa hana undir Alþingi eins og lagt er til í þingmáli númer 614.`` --- Þarna er vísað til þáltill. sem við leggjum fram, hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon og sá sem hér stendur. Síðan segir orðrétt í áliti BSRB, með leyfi forseta:

,,Fráleitt er að færa alla þá starfsemi sem nú er á vegum Þjóðhagsstofnunar undir fjármálaráðuneytið sem er í eins nánum tengslum við pólitískt framkvæmdarvald og hugsast getur. Þá er vandséð að Seðlabanki Íslands eða Hagstofan muni sinna því upplýsinga- og þjónustuhlutverki sem Þjóðhagsstofnun hefur sinnt.

BSRB vill taka fram að þegar leitað hefur verið til Þjóðhagsstofnunar af hálfu samtakanna hefur stofnunin brugðist vel við og jafnan af mikilli fagmennsku. Þá vill BSRB lýsa furðu á því að leitað hafi verið eftir áliti Alþýðusambands Íslands um frumvarpið en gengið fram hjá öllum öðrum samtökum launafólks. BSRB hefur tekið virkan þátt í umræðu um efnahagsmál á opinberum vettvangi og sent inn álitsgerðir sem snerta efnahags- og samfélagsmál til Alþingis, ráðuneyta og annarra aðila. Þessar álitsgerðir hafa verið unnar af skrifstofu samtakanna, þar á meðal hagfræðideild BSRB og í samráði við félagslega kjörna fulltrúa.

BSRB er reiðubúið til viðræðu um hvernig efla megi vandaða umræðu um efnahagsmál í landinu og munu samtökin eftir sem áður leggja sitt af mörkum til hennar. Við teljum það hins vegar afar misráðið að leggja Þjóðhagsstofnun niður og leggjum til að ríkisstjórn og Alþingi gefi sér betri tíma til þess að fjalla um framtíðarskipan þessara mála. BSRB leggst því alfarið gegn því að frumvarpið verði samþykkt en mælir með þingsályktunartillögu númer 614.``

Undir þessa álitsgerð BSRB skrifar Svanhildur Halldórsdóttir.

[17:00]

BHM, Bandalag háskólamenntaðra manna, leggst einnig gegn þessu frv. og segir að að mati samtakanna hljóti alltaf að koma til álita að hagræða í opinberum rekstri og nú leyfi ég mér að vitna í álitsgerðina, með leyfi forseta: ,,... enda sé gætt jafnræðis og meðalhófs og undirbúningur fari fram í samráði við þá sem eiga hlut að máli. Hins vegar telur BHM að það verði að vera hafið yfir allan vafa að tilefni til slíkrar hagræðingar hjá þeim sem fara með frumkvæðisvald --- og eftir atvikum til niðurlagningar eins og hér um ræðir --- sé ekki annað og óskylt.

BHM gagnrýnir hinn skamma tíma sem ætlaður er þingmeðferð máls nr. 709 svo og allan óformlegan aðdraganda málsins hvað varðar skort á samráði við aðila vinnumarkaðarins og hlutaðeigandi stéttarfélög. Ekki virðist hafa verið haft samráð við nema ein heildarsamtök á vinnumarkaði --- ASÍ --- þrátt fyrir að Þjóðhagsstofnun hafi það hlutverk samkvæmt gildandi lögum að veita aðilum vinnumarkaðarins upplýsingar um efnahagsmál og annast fyrir þá hagfræðilegar athuganir. BHM hefur m.a. óskað eftir slíku auk þess sem aðildarfélög BHM hafa nýtt sér þjóðhagsspá Þjóðhagsstofnunar í aðdraganda kjarasamninga. Hefur það skipt miklu máli að sú spá sé ekki unnin hjá stærsta viðsemjanda stéttarfélaganna, sem er fjármálaráðherra fyrir hönd ríkisins, heldur komi frá aðila utan framkvæmdarvaldsins. Í ljósi framangreinds er það lágmarkskrafa að jafnræðis verði gætt milli heildarsamtaka eigi að bæta aðilum fjárhagslega skerta þjónustu miðað við gildandi lög. ASÍ getur ekki gætt hagsmuna alls launafólks í landinu.

Loks gagnrýnir BHM að ekki skuli hafa verið haft samráð við stéttarfélög sem starfsmenn eru í, einkum Samband íslenskra bankamanna (SÍB).

Í ljósi framangreindrar gagnrýni leggst BHM gegn því að frumvarp ríkisstjórnarinnar, sbr. þingmál nr. 709, verði að lögum og tekur um leið undir þingsályktunartillögu, sbr. þingmál 614, þess efnis að sett verði á fót stjórnskipuð nefnd til þess að endurskoða starfsemi og stöðu Þjóðhagsstofnunar --- þó með þeirri breytingu að í nefndinni sitji fulltrúar allra heildarsamtaka launafólks og viðsemjenda þeirra. Í þeirri nefndarvinnu yrði metið hvort og þá hvernig megi hagræða í starfi sem lýtur að úrvinnslu opinberra gagna svo og vinnumarkaðs- og hagfræðirannsóknum. Kæmi þá til álita hvort unnt væri að láta slíka stofnun heyra undir sameiginlega stjórn aðila vinnumarkaðarins.

Tekið skal undir efnisatriði í umsögn SÍB um mál nr. 709.``

Undir þetta rita Björk Vilhelmsdóttir, formaður BHM, og Gísli Tryggvason, framkvæmdastjóri BHM.

Þarna er það gagnrýnt að þjónusta sem samtökin hafa sótt til Þjóðhagsstofnunar verði færð undir stærsta viðsemjanda stéttarfélaganna innan BHM. Og þarna er aftur komið að þeirri beintengingu við pólitískt framkvæmdarvald sem menn hafa varað við. Í annan stað er aftur vísað í þá hugmynd að samtök launafólks komi sér hugsanlega saman um einhverja sameiginlega úrvinnslu á sviði efnahagsmálanna.

Fyrr við umræðuna hefur verið vakin athygli á umsögn Samtaka banka og verðbréfafyrirtækja, sérstaklega því sem fram kemur í eftirfarandi, með leyfi forseta:

,,Hins vegar má velta fyrir sér hvort nægilegrar hlutlægni verði gætt með því að færa hina þættina yfir til efnahagsskrifstofu fjármálaráðuneytis, eins og tillögur eru gerðar um.``

Þarna eru menn að efast um að nægilegrar hlutlægni verði gætt. Þetta er í rauninni fremur vandmeðfarin umræða. Ég ítreka það sem ég hef áður sagt að ég vantreysti ekki starfsmönnum fjmrn. eða Hagstofunnar þótt ég hafi efasaemdir um ýmislegt sem kemur frá toppunum í Seðlabankanum. Ég hef gagnrýnt það og stend fyllilega við þá gagnrýni. Enginn er hafinn yfir hana. Engu að síður er staðreynd að það er mikilvægt að við högum skipulaginu þannig að óháðar rannsóknar- og greiningarstofnanir séu smíðaðar, óháðar hinu pólitíska valdi. Ef þessi tengsl eru náin hættir mönnum til að stilla dæminu upp samkvæmt formúlum yfirboðarans. Og þótt heiðarlega sé unnið að allri úrvinnslu, þótt vinnan sé heiðarleg og fagleg, er hætt við því að hinn pólitíski yfirboðari geti ráðið nokkru um útkomuna að því leyti að hann setur fram úrlausnarefnið.

Kennarasamband Íslands leggst gegn þessu frv. Telur Kennarasambandið ,,eðlilegt að skipulag opinberrar þjónustu sé endurskoðað reglulega með það að markmiði að þjónustan sé í senn bæði markviss og hagkvæm``. Þarna er aftur vísað í mikilvægi þess að ,,þeir sem njóta þjónustunnar geti treyst því að fagmennska og hlutleysi séu aðalsmerki opinberrar þjónustu``.

Síðan segir, með leyfi forseta:

,,Þjóðhagsstofnun hefur, að mati Kennarasambandsins, gegnt hlutverki sínu með sóma, enda starfa þar margir af fremstu sérfræðingum þjóðarinnar á sviði efnahagsmála.

Eðli málsins samkvæmt eru fulltrúar stéttarfélaga annars vegar og stjórnvöld hins vegar ekki alltaf sammála mati Þjóðhagsstofnunar á einstaka málum og við því er ekkert að segja. Það er í fyllsta máta óeðlilegt að leggja niður stofnun fyrir það eitt að starfa samkvæmt lögum og hafa sjálfstæða skoðun sem byggir á faglegu mati.

Kennarasamband Íslands telur að engin rök hafi komið fram sem styðja það að Þjóðhagsstofnun verði lögð niður í núverandi mynd og starfsemi hennar dreift til annarra stofnana.

Kennarasamband Íslands leggur áherslu á að allar hugmyndir um að Alþýðusamband Íslands taki að sér einhver af verkefnum stofnunarinnar eru í algjörri andstöðu við forustu Kennarasambandsins. Alþýðusamband Íslands getur aldrei, miðað við núverandi skipulag, tekið að sér þjónustu við önnur samtök launafólks á Íslandi hvað varðar upplýsingagjöf eða annað er varðar efnahagsmál.``

Og undir þessa umsögn Kennarasambands Íslands frá 16. apríl ritar formaður sambandsins, Eiríkur Jónsson.

Í umfjöllun um þetta mál hefur verið vísað í álit Sambands íslenskra bankamanna, Seðlabankann, BSRB, BHM, Samtök banka og verðbréfafyrirtækja og Kennarasambandsins. Reyndar fylgja fleiri umsagnir, og að lokum ætla ég að vísa í umsögn Starfsmannafélags Þjóðhagsstofnunar. Þar kemur fram að þau eru algjörlega mótfallin þeim áformum sem birtast í frv. og telja að þau muni ekki leiða til eflingar faglegrar umfjöllunar um íslenskan þjóðarbúskap né til hagræðingar í rannsóknum á efnahagsmálum. Í vinnu samstarfshópsins hefur í engu verið tekið tillit til sjónarmiða starfsfólks stofnunarinnar. Hér er vísað í þá staðreynd að í þessum starfshópi ríkisstjórnarinnar voru fulltrúar starfsmanna, og þeim var í upphafi talin trú um að nú ætti að ræða um framtíð Þjóðahagsstofnunar. Síðan kom á daginn að það átti ekki að ræða um hana nema á mjög þröngan afmarkaðan hátt --- með það eitt fyrir augum að leggja stofnunina niður. Þessir starfsmenn voru því algjörlega mótfallnir og vildu hreyfa öðrum sjónarmiðum, ræða aðra valkosti. Þeim var meinað að gera það. Þetta eru náttúrlega ekki boðleg vinnubrögð. Auðvitað átti þessi umræða að fara fram með allt öðrum hætti, menn áttu að koma sér saman um þau markmið sem þeir vildu ná, á hvern hátt ætti að tryggja faglega upplýsingagjöf, hverjum ætti að tryggja þessar upplýsingar --- Alþingi, aðilum á vinnumarkaði, einstaklingunum í samfélaginu, fyrirtækjum, stofnunum --- og síðan átti að ræða með hvaða hætti það yrði best gert. En það var ekki gert. Tilskipun kom frá ríkisstjórninni, frá hæstv. forsrh., og eftir henni áttu menn að vinna. Sumir tóku þessu þegjandi, eins og Seðlabankinn sem sagðist ætla að vera hlutlaus í málinu. Hlutleysi hans fólst í því að fara að þeirri skipun sem hann fékk í hendur. Það kalla ég ekki hlutleysi --- það kalla ég að taka afstöðu með hinu pólitíska valdi. Hins vegar má til sanns vegar færa að hann á að starfa í anda efnahagsstefnu ríkisstjórnarinnar, ég hafði bara ekki gert mér grein fyrir því að hann ætti að ganga þetta langt og afsala sér allri dómgreind þegar honum væri falið að vinna að verkefnum á borð við þetta.

Hér segir enn fremur í umsögn Starfsmannafélags Þjóðhagsstofnunar, með leyfi forseta:

,,Þjóðhagsstofnun hefur mikla sérstöðu í efnahagsumhverfinu sem óháð sérfræðistofnun sem nýtur trausts og álits og er talin vinna faglega að þeim málum sem henni hafa verið falin. Þá nýtur stofnunin trúnaðar atvinnurekenda jafnt og verkalýðshreyfingar. Henni hafa verið falin ýmis verkefni af ráðuneytum og þingmönnum sem leitað hafa til sérfræðinga stofnunarinnar. Þjóðhagsstofnun tryggir því greiðan aðgang þingmanna allra flokka, aðila vinnumarkaðarins og alls almennings að áreiðanlegum upplýsingum um framgang efnahagsmála og er þessi starfsemi tryggð í lögum um stofnunina.

Samkvæmt frumvarpinu verður gerð efnahagsspáa og áætlana færð til fjármálaráðuneytis. Spágerðin yrði því undir pólitísku forræði og gæti því ekki talist óháð. Þessi breyting felur því í sér að stjórnvöld sjá ekki ástæðu til að reka pólitískt óháða efnahagsstofnun. Eðlilegra hefði verið að auka enn frekar sjálfstæði Þjóðhagsstofnunar.

Í frumvarpinu felst að færa eigi starfsemi Þjóðhagsstofnunar til annarra stofnana og ráðuneyta. Það sem sparast á fjárlagalið stofnunarinnar mun því koma fram sem kostnaðarauki hjá öðrum stofnunum og ráðuneytum. Rekstur stofnunarinnar hefur verið mjög hagkvæmur fram til þessa og því ljóst að truflun á þeirri starfsemi og flutningur verkefna hennar til annarra stofnana er dýrari en óbreytt starfsemi. Reyndar viðurkenndi ráðuneytisstjóri forsætisráðuneytis á fundi með starfsmönnum Þjóðhagsstofnunar í apríl árið 2001 að ekki væri um að ræða sparnað með því að leggja niður Þjóðhagsstofnun, heldur mundu útgjöld vaxa í kjölfarið, a.m.k. fyrst um sinn.

Í frumvarpinu er ráðgert að aðgreina enn frekar en nú er söfnun og frumúrvinnslu gagna um efnahagsmál og greiningu gagnanna. Styrkur Þjóðhagsstofnunar felst í samþættingu þessara verkefna. Þetta hefur reynst hagkvæmt fyrir faglega vinnu innan stofnunarinnar og skapað möguleika á meiri fjölbreytni í störfum einstakra starfsmanna. Flestir starfsmenn stofnunarinnar koma að gerð þjóðhagsreikinga, greiningu og spágerð og því er ljóst að starfssvið starfsmanna stofnunarinnar mun breytast mikið ef þetta frumvarp nær fram að ganga.

[17:15]

Þá vill Starfsmannafélagið benda á þann aðdraganda sem málið hefur haft. Ár er liðið síðan forsætisráðherra nefndi í sjónvarpsviðtali að leggja ætti Þjóðhagsstofnun niður í sömu andrá og hann lýsti óánægju með spár stofnunarinnar. Í byrjun apríl 2001 boðaði ráðuneytisstjóri forsætisráðuneytis starfsmenn til fundar þar sem hann ræddi um að framkvæma ætti þær breytingar sem frumvarpið fjallar um. Taldi ráðuneytisstjórinn að hægt væri að framkvæma þessa endurskipulagningu án lagabreytinga. Síðar var hætt við þessi áform og skipaður samstarfshópur í júní. Þessi hópur hittist nokkrum sinnum til málamynda síðastliðið haust og stendur meiri hluti hans að frumvarpinu. Tekið skal fram að í þeirri vinnu sem fram hefur farið hefur meiri hluti samstarfshópsins aldrei léð máls á því að ræða aðra möguleika til endurskipulagningar en þann að leggja niður Þjóðhagsstofnun.

Að lokum vill Starfsmannafélagið benda á að það telur bráðabirgðaákvæði frumvarpsins ábótavant þar sem það tryggi ekki rétt starfsfólks, auk þess sem það er ekki í samræmi við umræður samstarfshópsins og skipunarbréf hans. Í skipunarbréfi segir: ,,... er samstarfshópnum ætlað að útfæra nánar hvernig starfsmönnum Þjóðhagsstofnunar verði tryggð sambærileg störf hjá þeim stofnunum sem taka við verkefnum Þjóðhagsstofnunar.`` Í bráðabirgðaákvæði frumvarpsins stendur hins vegar: ,,Við gildistöku laga þessara skal starfsmönnum Þjóðhagsstofnunar boðið annað starf hjá þeim stofnunum, er taka við verkefnum Þjóðhagsstofnunar.````

Undir þetta rita Katrín Ólafsdóttir og Ásgeir Daníelsson.

Herra forseti. Hér kemur aftur og ítrekað fram hvers konar umræða fór fram um þetta mál. Fulltrúar starfsmanna í starfshópnum segja að hópurinn hafi hist nokkrum sinnum til málamynda. Finnst hæstv. forsrh. boðlegt að bjóða upp á slíka umræðu eða voru fulltrúar starfsmanna fyrst og fremst hugsaðir þarna til ráðgjafar og þá hugsanlega til að ræða um framtíð sína og koma með tillögur þar að lútandi? Ef þeim hefur einnig verið ætlað að sjá um að hagsmunir starfsmanna við breytinguna yrðu tryggðir spyr ég hvort ekki sé ráð að taka tillit til breytingartillagna þeirra varðandi framtíðarstörfin?

Ég mun fyrir mitt leyti, og hvet sem flesta til að gera það ef þetta frv. verður samþykkt, fylgjast mjög vel með framtíð starfsmanna stofnunarinnar. Þeir sem ég mun sérstaklega beina sjónum mínum að eru þeir sem hafa vogað sér að standa uppi í hárinu á stjórnvöldum og standa fast á sannfæringu sinni. Ég hvet til að fólk verði virt fyrir að hafa talað samkvæmt skoðunum sínum. Ég held að mikilvægt sé að við sköpum þá hefð í landi okkar að fólk sem hefur miklar meiningar og byggir þær á faglegri þekkingu eins og hér er, af störfum sínum og starfsumhverfi og heldur þessum skoðunum fram í hita leiksins eins og nú er gert af hálfu þessara starfsmanna, verði ekki látið gjalda þess. Jafnvel þótt það hafi sagt, eins og hérna kom fram í textanum sem ég las upp, að ákvörðun eða yfirlýsingu um að Þjóðhagsstofnun skyldi lögð niður, hafi komið fram í sömu andrá og forsrh. þjóðarinnar lýsti óánægju með spá stofnunarinnar.

Nú er gott til þess að vita að hér er hæstv. forsrh. þjóðarinnar, Davíð Oddsson, til að skýra okkur nánar frá því hvað raunverulega gerðist.