Þjóðhagsstofnun o.fl.

Fimmtudaginn 18. apríl 2002, kl. 17:22:21 (7798)

2002-04-18 17:22:21# 127. lþ. 122.1 fundur 709. mál: #A Þjóðhagsstofnun o.fl.# frv. 51/2002, ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 122. fundur, 127. lþ.

[17:22]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Herra forseti. Því verður ekki á móti mælt að hæstv. forsrh. hefur reynst harðdrægur við að koma sínum vilja fram. Það er staðreynd að yfirlýsingar um niðurlagningu Þjóðhagsstofnunar komu fram á sama tíma og spár stofnunarinnar sem voru ríkisstjórninni ekki að skapi og ekki í hennar anda. Þetta eru staðreyndir. Hins vegar stendur hér fullyrðing gegn fullyrðingu hvað þetta snertir. Hæstv. forsrh. heldur því fram að þetta sé gert í hagræðingarskyni.

Nú höfum við hins vegar sýnt fram á að það er mjög til efs að þetta sé til hagræðingar, hvort sem menn skoða nýtingu fjármunanna eða vinnslu gagna. Auk þess hefur það verið gagnrýnt, bæði af hálfu samtaka á vinnumarkaði og af hálfu Alþingis, sérstaklega minni hlutans á þinginu, að þessar breytingar séu til þess fallnar að veikja stöðu Alþingis og þá sérstaklega minni hlutans, veikja stöðu samtaka launafólks á vinnumarkaði og grafa þannig undan viti borinni upplýstri umræðu um efnahagsmál í þjóðfélaginu sem er forsenda þess að lýðræði fái vel þrifist.

Mig langar að heyra viðbrögð hæstv. forsrh. við þessum þáttum. Auk þess vil ég ganga eftir því við hæstv. forsrh. hvort hann sé reiðubúinn að breyta þeim lagatexta sem lýtur að framtíð starfsmanna.