Þjóðhagsstofnun o.fl.

Fimmtudaginn 18. apríl 2002, kl. 18:29:42 (7806)

2002-04-18 18:29:42# 127. lþ. 122.1 fundur 709. mál: #A Þjóðhagsstofnun o.fl.# frv. 51/2002, forsrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 122. fundur, 127. lþ.

[18:29]

Forsætisráðherra (Davíð Oddsson) (andsvar):

Herra forseti. Út af þessu síðasta, eins og ég sagði hér í frammíkalli áðan, hef ég svo sannarlega ekkert á móti að þingið efli þann þátt í sínu starfi. Ég tel að það eigi að vera þingsins að gera, án afskipta ríkisstjórnarinnar, með sama hætti og það hefur byggt upp starfsemi sína, þekkingu á sviði lögfræði og annað þess háttar, innan vébanda þingsins.

[18:30]

Ég sé líka fyrir mér að þingið gæti mjög auðveldlega gert fasta samninga við stofnun eins og Hagfræðistofnun Háskóla Íslands, fasta trúnaðarsamninga við þá stofnun. Ég get nefnt að þrátt fyrir aðgang okkar að Seðlabanka, Þjóðhagsstofnun og slíkum stofnunum þá höfum við í ýmsum tilvikum í forsrn. gert sérstaka samninga við Hagfræðistofnun Háskóla Íslands um tiltekin afmörkuð verkefni og okkur líkar vel sú þjónusta sem við höfum fengið þaðan. Við höfum ekki gert þetta í stórum mæli, við höfum gert þetta svona til reynslu, en það sem við höfum gert hefur okkur líkað ágætlega. Og ég get alveg séð fyrir mér líka eins og að raða hér inn starfsmönnum, að eins mætti gera sérstaka samninga við Hagfræðistofnun þannig að hún kynni að vera með eins konar bakvakt gagnvart þinginu því að það er nú þannig, hygg ég, að þetta er nú sjálfsagt dálítið árstíðabundið eftir því hvaða mál er efst á baugi í þinginu og þingið tekur sér líka hlé frá störfum o.s.frv. en ég sé þann kost fyrir mér gagnvart Alþingi.

Aðeins út af því hvort ekki felist í þessu sparnaður. Ég er sannfærður um að til lengri tíma horft þá felst í þessu sparnaður vegna þess að menn eru að vinna tvöfalda vinnu, vinnu sem skarast á svo mörgum sviðum. Á hinn bóginn var það ætlun forsrn. sérstaklega að reyna að ná góðu samkomulagi um þessi mál við starfsmennina og því var lögð á það áhersla að setja hagræðinguna og sparnaðinn í annað sæti og reyna að ná sæmilegri sátt við starfsmennina í fyrsta sæti.

Ég hygg hins vegar að ein meginástæðan fyrir því að ekki náðist sæmileg sátt hafi verið að það gengu þær sögur til að mynda hér í þinginu, ég var nú spurður um þetta tvisvar, að ósátt væri um málið milli stjórnarflokkanna. Ég svaraði því tvívegis að það væri ekki, mér væri ekki kunnugt um það og sú var enda niðurstaðan.