Þjóðhagsstofnun o.fl.

Fimmtudaginn 18. apríl 2002, kl. 18:34:14 (7808)

2002-04-18 18:34:14# 127. lþ. 122.1 fundur 709. mál: #A Þjóðhagsstofnun o.fl.# frv. 51/2002, ÁSJ
[prenta uppsett í dálka] 122. fundur, 127. lþ.

[18:34]

Árni Steinar Jóhannsson:

Virðulegi forseti. Við fjöllum hér um frv. til laga um brottfall laga nr. 54/1974, um Þjóðhagsstofnun, með síðari breytingu. Umræður hafa verið um málið í allan dag og á síðustu tímunum hefur mér fundist að menn séu að finna kannski nýjan vinkil á málinu, þ.e. að nauðsyn sé á því að efla stöðu Alþingis og sérstaklega stjórnarandstöðunnar til hlutlausra upplýsinga um hagspár. Og hæstv. forsrh. kom hér inn með jákvæðar undirtektir um það að e.t.v. væri hægt að semja við Hagfræðistofnun Háskóla Íslands um að veita þá þjónustu.

Ég vil í upphafi máls míns aðallega gera athugasemdir við það hvernig þetta mál ber að, að það er náttúrlega mjög óheppilegt og er eðlilegt að stjórnarandstaðan hrökkvi við og vilji ræða málið í þaula þegar ákvörðun um að fara í slíkar breytingar, að leggja niður Þjóðhagsstofnun, að ákvörðunin er tekin á mjög viðkvæmum tíma hvað efnahagshorfur og -þróun varðar í samfélaginu. Ég held því að sú staða og hraði málsins inn í þingið hafi kannski orðið til þess að menn vilja ræða þetta meira en annars hefði orðið vegna þess að eins og fram hefur komið í umræðunni er svo sem ekkert nýtt að menn vilji ræða stöðu Þjóðhagsstofnunar.

Ég er hér t.d. með þáltill. frá Vinstri hreyfingunni -- grænu framboði sem er till. til þál. um endurskoðun á starfsemi og stöðu Þjóðhagsstofnunar og flutningsmenn að henni eru hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon og hv. þm. Ögmundur Jónasson. Þessi till. til þál. var flutt í fyrra og er endurflutt núna. Í henni segir:

,,Alþingi ályktar að setja á fót nefnd til að gera úttekt á starfsemi Þjóðhagsstofnunar. Í nefndinni skulu sitja fulltrúar allra þingflokka, einn fulltrúi tilnefndur af starfsmönnum Þjóðhagsstofnunar og einn fulltrúi forsætisráðuneytis og skal hann jafnframt vera formaður. Verkefni nefndarinnar verði, auk almennrar úttektar, að skoða verkaskiptingu milli Þjóðhagsstofnunar og annarra aðila sem vinna að einhverju leyti að svipuðum verkefnum og meta kosti þess að Þjóðhagsstofnun verði færð undir Alþingi

Nefndin skili niðurstöðum sínum í skýrslu til Alþingis. Kostnaður við störf nefndarinnar greiðist úr ríkissjóði.``

Ekki er hægt að segja annað en að stjórnarandstaðan, eins og reyndar hefur komið fram í umræðunni í dag, hefur um margra mánaða og missira skeið verið tilbúin til þess að endurskoða störf og stöðu Þjóðhagsstofnunar. Ég held að þessi óheppilega tímasetning á málinu hafi gert málið allt enn þá flóknara og verra í meðförum en það hefði nokkurn tíma þurft að vera. Með þeirri nefndarskipan sem kemur fram í þáltill. held ég að hægt hefði verið að færa hlutina til betri vegar í meiri sátt og meira samlyndi en raunin er.

Það átta sig nefnilega allir á því að þau verk sem Þjóðhagsstofnun vinnur núna eru unnin víða í samfélaginu og við gerum okkur öll fulla grein fyrir því og gríðarlegar breytingar hafa orðið á síðustu missirum og árum hvað það varðar. Þjóðhagsspár eru birtar og efnahagshorfur eru kannaðar í flestum bönkunum og verkalýðshreyfingin er með öfluga starfsemi og deildir innan sinna vébanda sem fara í þessi mál. Og stærstu hagdeildirnar eins og hjá ASÍ og BSRB eru auðvitað ómetanlegar.

Í frv. er lagt til að Þjóðhagsstofnun verði lögð niður og verkefni hennar færð til skyldra sviða fjmrn. og Hagstofu Íslands og í meginatriðum er miðað við að þau verkefni Þjóðhagsstofnunar sem lúta að opinberri hagsýslugerð verði færð til Hagstofunnar en gerð efnahagsspáa og áætlana og efnahagsráðgjöf verði færð til efnahagsskrifstofu fjmrn. Jafnramt er gert ráð fyrir að aðrir aðilar á borð við Seðlabanka Íslands komi að verkefnum sem hafa verið unnin á vegum Þjóðhagsstofnunar.

Ég held að það standi upp úr í umræðunni að Alþingi og sérstaklega stjórnarandstaðan verður að hafa aðila sem allir eru sáttir um að séu hlutlausir til þess að einhver friður verði um afgreiðslu mála og sérstaklega efnahagslegs eðlis. Af minni reynslu hér í þinginu, sem er nú reyndar ekki löng, tel ég alveg af og frá að menn geti sæst á það að slíkar upplýsingar komi frá ráðuneytunum og stofnunum sem fyrst og fremst lúta valdi framkvæmdarvaldsins. Það gefur alltaf tilefni til tortryggni og þess vegna er sú leið ófær hvað varðar þingið, þó svo að menn geti út frá viðskiptalegum sjónarmiðum verið sammála um að allar þær upplýsingar er hægt að vinna í þessum stofnunum, málið í raun snýst ekki um það. Þess vegna er það eiginlega sorglegt að við skulum ekki hafa farið í þá vinnu þverpólitískt að fara í þetta mál því að allir hafa verið sammála um að það mætti taka upp.

Þannig var t.d. frv. um að flytja Þjóðhagsstofnun til Alþingis flutt af Kristni H. Gunnarssyni og fleirum á 122. löggjafarþingi og oft og iðulega hefur verið rætt um óháða starfsemi á vegum Alþingis á því sviði. Mér finnst að núna í umræðunni hafi komið upp nýr flötur í málinu þar sem hæstv. forsrh. ljáir máls á því að Alþingi geti, og þá sérstaklega stjórnarandstaðan, með samningum við t.d. háskólann gengið að hlutlausum upplýsingum og beðið um þær og fengið að vild, að þá séum við kannski komin ansi nálægt því að breyta um það form sem gildir um Þjóðhagsstofnun og færa hana hreinlega undir Alþingi eins og gert er ráð fyrir í þáltill. sem flutt var, eins og ég sagði áðan, af hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni og Ögmundi Jónassyni. Og það er eiginlega mergurinn málsins í allri umræðunni, það er traust allra á óháðum aðila og að framkvæmdarvaldið komi ekki fram með þær upplýsingar sem þingmenn stjórnarandstöðunnar telja sig þurfa á að halda á hverjum tíma.

Það vekur líka athygli í þessum málatilbúnaði öllum að maður átti nú von á því að þegar verið væri að leggja niður opinberar stofnanir þá mundi verða hagræðing af því að færa til verkefni og fela þau öðrum þannig að einhver kostnaðarminnkun yrði af. En samkvæmt þeim upplýsingum sem við höfum er farin leið sem leiðir til mikils kostnaðarauka og hann er verulegur. Talað hefur verið um jafnvel 50 milljónir, a.m.k. nokkur fyrstu árin. Við erum því ekki að leggja fram tillögu sem lýtur að því að spara peninga fyrir ríkið, enda held ég að þegar upp er staðið geti sú hugsun að spara peninga með þeim hætti að láta vinna upplýsingar í stofnunum eða ráðuneytum sem lúta að framkvæmdarvaldinu aldrei leitt til góðs. Það leiðir til illdeilna um upplýsingarnar hér inni í þinginu, við höfum reynslu af því, og þess vegna er það svo mikilvægt að þetta sé hlutlaus aðili og hann lúti sem sagt ekki framkvæmdarvaldinu.

Virðulegi forseti. Ég vildi fyrst og fremst koma þessum málum á framfæri en samkvæmt gildandi lögum er Þjóðhagsstofnun falið að sinna eftirtöldum verkefn um að:

1. Færa þjóðhagsreikninga.

2. Semja þjóðhagsspár og -áætlanir.

3. Semja og birta opinberlega yfirlitsskýrslur um þróun þjóðarbúskaparins og horfur í þeim efnum.

4. Annast hagfræðilegar athuganir og skýrslugerð um efnahagsmál fyrir ríkisstjórn og alþjóðastofnanir á sviði efnahagsmála.

5. Láta alþingismönnum og nefndum Alþingis í té upplýsingar og skýrslur um efnahagsmál.

6. Veita aðilum vinnumarkaðarins upplýsingar um efnahagsmál og annast fyrir þá hagfræðilegar athuganir.

Nú er ég á því að sum þessara verka gætu verið hjá öðrum stofnunum þar sem er verið að setja niður á blað og birta praktískar upplýsingar. En stór hluti af þeirri starfsemi sem fer fram í Þjóðhagsstofnun er til geysilega mikils gagns og stuðnings, sérstaklega fyrir þingmenn stjórnarandstöðunnar vil ég meina.

Minni hluti efh.- og viðskn. hefur sett frá sér stórt og mikið nál. sem fjallar um málið og færir rök fyrir því hvers vegna á ekki að fara þessa leið. Minni hlutinn bendir á að verkefnaflutningarnir séu mjög ómarkvissir og það liggi ekkert fyrir hvar verkefnin eigi að vistast nema í grófum dráttum og það er jafnvel talað um að sum verkefnanna megi framkvæma á hinum frjálsa markaði. Það væri mjög mikið gagn að því fyrir þingið að málið hefði verið unnið öðruvísi þannig að menn gætu áttað sig á því hvernig menn vildu nálgast þetta og þá sérstaklega í þessu nýja ljósi sem kemur fram í andsvörum hæstv. forsrh. að hann sjái fyrir sér samninga á vegum þingsins við óháðan aðila eins og háskólann sem gæti gefið þessar upplýsingar. Mér finnst því málið vera komið í nýtt ljós þegar menn eru að tala um að annaðhvort með samningum eða með því að ráða mannskap hér að þinginu sem vinnur slík störf þá séum við nú komin ansi nærri því að flytja alla vega hluta Þjóðhagsstofnunar undir þingið, ef menn tala í þeim dúr sem hér hefur átt sér stað núna á síðustu klukkutímunum. Ég held því að hv. þingmenn, sérstaklega stjórnarandstöðunnar, hefðu þurft að fá miklu haldbetri upplýsingar um það hvernig menn hugsa sér að standa að slíkum verkefnaflutningi.

[18:45]

Minni hlutinn bendir líka á að kostnaðurinn blæs út. Rekstur stofnunarinnar kostar núna 132 millj. kr. á fjárlögum 2002 og talið er að með þeim breytingum sem nú eru fyrirhugaðar af hæstv. ríkisstjórn verði þar um verulegan kostnaðarauka að ræða.

Síðan kemur fram í minnihlutaáliti, og ástæða er til þess að hafa áhyggjur af því, að sjónarmið starfsmanna stofnunarinnar virðast algjörlega hafa verið hunsuð, þeim hafi á einn eða annan hátt verið tilkynnt um hvert stefndi en framkvæmdarvaldið og hæstv. ríkisstjórn hafi ekki á nokkurn hátt leitað eftir áliti þeirra.

Með því að færa, eins og ég kom inn á áðan, verkefnin inn í stofnanir framkvæmdarvaldsins, inn í ráðuneytin, Hagstofuna o.s.frv. er verið að skapa grunn fyrir tortryggni á verklag. Það er engum vafa undirorpið og það er mesta áhyggjuefnið. Þá gætum við lent í því að menn tortryggðu niðurstöður og segðu sem svo að spágerð mundi lúta pólitísku forræði. Verði þetta raunin er alveg klárt í mínum huga, eins og minni hluti efh.- og viðskn. bendir á, að við erum að veikja stöðu Alþingis gagnvart framkvæmdarvaldinu og það er kannski stærsta málið í þessu öllu. Þá kem ég enn og aftur að þáltill. sem lögð var fram af hv. þm. Ögmundi Jónassyni og Steingrími J. Sigfússyni um að færa Þjóðhagsstofnun eða þá starfsemi sem heyrir undir hana í dag að einhverju eða öllu leyti undir forræði Alþingis. Það hefði verið heillavænlegt skref.

Í minnihlutaálitinu er síðan farið yfir afstöðu heildarsamtaka launafólks. Það gefur augaleið að auðvitað munu heildarsamtök launafólks eins og ASÍ sem hefur gríðarlega mikla starfsemi á sínum vegum í sambandi við þjóðhagsspár, fagna því að vissu leyti ef hæstv. ríkisstjórn og framkvæmdarvaldið eru með plön um að veita þeim framlög til þess að auka starfsemi sína. Ég get vel skilið það. En fulltrúi BHM bendir á að það gengur ekki að bjóða samtökum upp á að leita eftir úrvinnslu upplýsinga og spágerð hjá fjmrn. sem er aðalviðsemjandi þeirra í kjarasamningum, svo dæmi sé nefnt. Jafnframt telja þau samtök eðlilegt að gætt sé jafnræðis ef veita á ASÍ sérstakan stuðning til að gera eigin rannsóknir og spár og minni hluti efh.- og viðskn. tekur undir þau sjónarmið.

Minni hluti efh.- og viðskn. leggst alfarið gegn því að leggja niður Þjóðhagsstofnun með þeim rökum sem lýst er í greinargerð með frv. Framvinda þessa máls er því mikið áhyggjuefni víða í samfélaginu og náttúrlega ekki síst á hinu háa Alþingi, og aðallega, og það stendur upp úr í umræðunni, snúast áhyggjur manna um hlutleysi þess sem gefur upplýsingarnar.

Hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir benti á í ræðu sinni að ef veita á félagasamtökum t.d. félagasamtökum launafólks framlög til þess að gera hagspár munu náttúrlega allir vilja sitja við sama borð hvað það varðar þannig að e.t.v. horfum við fram á það, ef fylgja á þessari formúlu, að kostnaðurinn verði enn þá meiri en menn eru að spá fyrir um í þeim plöggum sem liggja fyrir framan okkur.

Virðulegi forseti. Þó ég hafi ekki langa þingreynslu eins og ég sagði áðan held ég í ljósi sögunnar, en manni skilst af umræðunni að þetta mál hafi verið rætt á þungum nótum meira og minna í tíu ár, að hægt hefði verið að standa öðruvísi að vinnslu málsins og komast að niðurstöðu sem hefði verið ásættanleg fyrir alla, þ.e. um breytingar á starfseminni og að einhverju leyti um að færa verkefni sem Þjóðhagsstofnun vinnur út í aðrar stofnanir -- ekkert er því til fyrirstöðu --- en setja á sama tíma upp einhvers konar skrifstofu tengda Alþingi sem veitir hlutlausar upplýsingar sem eru stjórnarandstöðunni bráðnauðsynlegar og bráðnauðsynlegar þinginu til þess að friður verði um þingstörfin í kringum umfjöllun um efnahagsmál. Ég held að það sé meginmálið. Ef það verður ekki gert, virðulegi forseti, held ég að við séum að efna til ófriðar í framtíðinni í umræðu um efnahagsmál og stjórn efnahagsmála vegna þess að þá muni fylkingarnar, stjórnarliðar og stjórnarandstaða, takast á um hvaða upplýsingar séu réttar og hvaða upplýsingar séu ekki réttar. Það er vondur grunnur að byggja á. Formúlan er einhvers konar stofnun tengd Alþingi með hæfu fólki sem getur gefið hlutlausar upplýsingar. Við höfum t.d. góða reynslu af Ríkisendurskoðun sem er undir stjórn Alþingis og maður getur vel ímyndað sér að Þjóðhagsstofnun yrði stofnun á einhverjum svipuðum nótum. Ég hef ekki orðið var við það í störfum mínum á hinu háa Alþingi í þann stutta tíma sem ég hef starfað hér að menn væru að tosast á um áreiðanleika upplýsinga sem koma t.d. frá Ríkisendurskoðun. Ef menn settu upp einhvers konar skrifstofu á svipuðum nótum um þessi mál, mál Þjóðhagsstofnunar, ef þau væru tengd Alþingi þá bindur maður vonir við að friður verði um þá upplýsingagjöf og ekki þyrfti að eyða tíma hv. þingmanna í framtíðinni í endalaust karp um hvaða tölur og hvaða spár hafi þann áreiðanleika sem hægt er að byggja á.

Það er eðlilegt að þingmenn stjórnarandstöðunnar spyrni við fótum vegna þess að við upplifum það í hverjum mánuði að framkvæmdarvaldið er að styrkja stöðu sína. Það er alla vega mín tilfinning. Hingað koma inn mál eftir mál þar sem aðkoma þingmanna er veikt. Við verðum því að vera á varðbergi og gæta þess að þingstörf geti átt sér stað á sem eðlilegustum nótum og menn þurfi ekki að eyða tíma sínum á hinu háa Alþingi í að rífast um grundvallaratriði, þ.e. grunnupplýsingar, hvort þær komi frá hlutlausum, ábyggilegum aðilum eða ekki. Það tel ég meginmálið í þessari umræðu. Ég segi fyrir mína parta að það ætti að hvíla þetta mál, fara yfir það í nýju ljósi og koma með það í nýjum búningi í þingið á haustdögum og hafa þá með í farteskinu form á þeirri stofnun eða starfsemi sem þingið gæti reitt sig á, hvort sem það yrði samningur við óháða aðila sem þingmenn gætu fallist á, t.d. Háskóla Íslands eða þá stofnun deildar eða stofnunar sem lyti Alþingi og menn gætu sæst á um að væri hlutlaus ráðgjafi í þeim málum sem heyra undir Þjóðhagsstofnun eins og hún er rekin núna. Ég held að það sé meginmálið og þess vegna legg ég til, virðulegi forseti, og skal hafa það lokaorð í ræðu minni, að menn skoði þessi mál í því nýja ljósi. Ég er viss um að miklu betri sátt næst um allar breytingar sem menn vilja gera ef þetta mál verður látið bíða í sumar, unnið í því og að síðan verði komið með heildarpakka sem Alþingi getur sætt sig við á næsta þingi, strax í haust, og þá verður sérstaklega að hnýta inn í þann pakka stöðu Alþingis hvað varðar upplýsingagjöf af því tagi sem hér er rætt um.