Þjóðhagsstofnun o.fl.

Fimmtudaginn 18. apríl 2002, kl. 18:56:41 (7809)

2002-04-18 18:56:41# 127. lþ. 122.1 fundur 709. mál: #A Þjóðhagsstofnun o.fl.# frv. 51/2002, forsrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 122. fundur, 127. lþ.

[18:56]

Forsætisráðherra (Davíð Oddsson) (andsvar):

Herra forseti. Ég held að menn í þinginu verði nú seint þeirrar gerðar að þeir hætti að rífast um tölur. Þá breytast þeir mikið. Þó nú sé talað fallega hér um Þjóðhagsstofnun þá hef ég nú í mínu minni allmargar ásakanir hér í þessari stofnun um að tölum hennar megi í ýmsum tilvikum vart treysta, að hún sé að ganga erinda ríkisstjórnar o.s.frv. Það hef ég út af fyrir sig heyrt.

En það er nákvæmlega það sem felst náttúrlega í tillögum manna sem vildu færa Þjóðhagsstofnun frá forsrn. undir Alþingi. Forsendan var sú að henni væri ekki treyst meðan hún væri undir forsrh. Þó menn kjósi að tala núna eins og hún sé algjörlega hlutlaus og allir megi treysta henni þá var undirrót þess að leggja til að hún yrði færð frá forsrh. í þingið sú að menn treystu henni ekki. Ég hef líka heyrt menn gagnrýna hér Ríkisendurskoðun og aðferðafræði hennar í gegnum tíðina þannig að engin stofnun er slík að allir telji sér fært að líta til himnaríkis þegar þær koma fram með fullyrðingar sínar.

Ég vil aðeins nefna eitt atriði. Mér finnst þingmenn svolítið glannalegir í því margir hverjir --- ekki endilega síðasti ræðumaður en þó vottaði fyrir því --- að tala eins og ráðuneytunum sé bara alls ekki treystandi, þau gangi um ljúgandi í þingmenn hvenær sem þeim hentar. Ég vek athygli á því að reglubundið koma fram fyrirspurnir sem óskað er að svarað sé skriflega af hálfu einstakra ráðuneyta. Þetta er gert í tugum tilvika. Ég man ekki eftir því að því hafi verið haldið fram að þessum upplýsingum mætti ekki treysta, að verið væri að reyna að fegra þær í þágu viðkomandi ráðherra eða þess háttar. Ég held því fram að ráðherrarnir lesi yfirleitt ekki sjálfir þessi svör yfir, þeir framsendi þau til þingsins í góðri trú um að þetta hafi verið unnið faglega enda man ég varla eftir því að hv. þingmenn hafi gagnrýnt skrifleg svör tugum saman úr hinum og þessum ráðuneytum á þeirri forsendu að þar hafi menn verið að falsa upplýsingar.