Þjóðhagsstofnun o.fl.

Fimmtudaginn 18. apríl 2002, kl. 19:03:03 (7812)

2002-04-18 19:03:03# 127. lþ. 122.1 fundur 709. mál: #A Þjóðhagsstofnun o.fl.# frv. 51/2002, ÁSJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 122. fundur, 127. lþ.

[19:03]

Árni Steinar Jóhannsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Svo bregður við að ég er sammála hæstv. forsrh. um að í stöðunni eins og hún er í dag dytti auðvitað engum í hug að reyna að falsa upplýsingar, allra síst úr fjmrn. Ég er alveg sammála því að staða mála er þannig í dag með hagdeildum eins og t.d. hjá samtökum launafólks og bönkunum að slíkar falsanir stæðust aldrei og menn hefðu ekki uppi tilburði til þess. Það er ekki það sem ég er að tala um.

Það sem hér er verið að tala um er hlutleysi aðila og jafnframt er þetta spurning um traust. Til hvers á að fara til að fá upplýsingar? Það held ég að sé mjög mikilvægt og það stóð upp úr í mínum málflutningi. Ég gat ekki betur heyrt en að hæstv. forsrh. væri á því að það væri skynsamlegt að alþingismenn hefðu þennan möguleika, annaðhvort með samningum við háskólann eða þá sérstaka stofnun sem yrði tengd Alþingi. Ég held að ágreiningurinn sé ekki ýkja mikill og ég er sammála skilgreiningu hæstv. forsrh. á því að auðvitað er staðan í þessum málum öllum í dag þannig að engum dytti í hug að blekkja vísvitandi. Menn mundu missa andlitið, hvort sem þeir væru að vinna að þessum málum í banka eða á vegum verkalýðssamtaka eða í fjmrn., ef þeir væru með einhverja slíka tilburði. Allir gera sér grein fyrir því í dag.

En það er spurning um að allir hafi traust og þau verkfæri sem þeir telja sig þurfa á að halda til að geta unnið vinnuna sína. Það er ósköp einfalt í mínum huga.