Þjóðhagsstofnun o.fl.

Fimmtudaginn 18. apríl 2002, kl. 20:30:39 (7814)

2002-04-18 20:30:39# 127. lþ. 122.1 fundur 709. mál: #A Þjóðhagsstofnun o.fl.# frv. 51/2002, GE
[prenta uppsett í dálka] 122. fundur, 127. lþ.

[20:30]

Gísli S. Einarsson (frh.):

Virðulegi forseti. Ég var kominn á nokkuð þungan og góðan skrið í ræðu minni. Kannski verður erfitt að ná sér í gang aftur frá þeim punkti sem ég var staddur. Ég minnist þá gamalla sagna um gufuvélina stóru við raforkuvirkjun í Álaborg sem var með svinghjól sem var 70 m í þvermál. Það var erfitt að koma þeirri vél af stað en þegar hún var komin í gang var erfitt að stoppa hana og það þurfti tvo daga til að stöðva svinghjólið eftir að vélin var hætt að ganga. Ég vona að svo verði ekki með mig en það er aldrei gott að stoppa í miðri ræðu.

Ég var kominn þar að, virðulegur forseti, að ég var að nokkru leyti að lýsa þeirri vinnu sem fram hefur farið í Þjóðhagsstofnun. Í upphafi máls vitnaði ég til merkilegs kvæðis úr Hávamálum og á eftir að fjalla frekar um og mun í lok máls mín útskýra nákvæmlega við hvað ég átti með því að vitna til þess sem í Hávamálum segir.

Ég hef verið að reyna að lýsa ferlinu varðandi Þjóðhagsstofnun út frá þessari tilvitnun og síðan þeim störfum sem stofnunin hefur skilað. Hún hefur svo sannarlega verið leiðbeinandi, ekki aðeins fyrir þingið heldur og fyrir atvinnulífið, fyrir efnahagsstefnuna og eins og ég kom að hér áðan í ræðu minni, hefur stofnunin haft veruleg áhrif á aðgerðir ríkisstjórna. Margt af því sem Þjóðhagsstofnun hefur lagt fram hefur að því er virðist komið illa við hæstv. ríkisstjórn. Ég rakti m.a. hvernig ábendingar frá Þjóðhagsstofnun hafa sýnt fram á samfylgni milli sjávarútvegskerfisins á Íslandi og byggðamála, þ.e. hvernig fækkað hefur í byggðunum í kjölfar þessarar fiskveiðistjórnarstefnu.

Það fer ekki á milli mála að ábendingar Þjóðhagsstofnunar koma sér ekki vel fyrir hæstv. ríkisstjórn. Kannski er það ástæðan fyrir áætlunum ríkisstjórnarinnar, að menn vilja ekki hafa þannig aðila sem segir óþægilega til syndanna. Vitna má til síðustu þjóðhagsáætlunar sem hæstv. forsrh. bar hér fram í haust. Þar segir, með leyfi forseta:

,,Nokkur veðrabrigði hafa orðið í íslenskum þjóðarbúskap að undanförnu. Eitt mesta góðæri í sögu landsins virðist á enda í bili og við tekur hægari gangur um sinn á meðan efnahagslífið safnar kröftum ...`` --- Þessi orð féllu auðheyrilega ekki í góðan jarðveg. Því var fylgt eftir sem lengi hafði verið á döfinni, þ.e. að leggja stofnunina niður. Hver er svo ástæðan fyrir þessum veðrabrigðum sem lýst er? Um það segir á öðrum stað, með leyfi forseta:

,,Þessi niðursveifla stafar einkum af því að þjóðarútgjöld hafa aukist mun hraðar en þjóðartekjur ...``

Virðulegi forseti. Hvað segir þetta okkur? Þetta segir okkur að ógætilega hafi verið farið í efnahagsmálum. Auðvitað er vont fyrir hæstv. ríkisstjórn að fá svona umsögn. Þetta er auðvitað ekkert annað en harður dómur yfir gjörðum hennar, staðreyndir sem staðfestu það sem Þjóðhagsstofnun hafði sett fram í ritinu ,,Þjóðarbúskapurinn. Framvindan 2000 og horfur 2001``. Þetta er bara staðreynd. Í annál efnahagsmála ársins 2000 er því spáð að svona muni fara. Það hefur leitt til þess, virðulegur forseti, að hæstv. ríkisstjórn lýsir óánægju með þessa stofnun og ætlar að setja hana af alveg sama hvaða rök eru færð á móti aðgerðinni.

Ég tel að gífurleg útlánaaukning, slök hagstjórn 1998 og 1999 og almennar launahækkanir umfram launabreytingar í helstu viðskiptalöndum, hafi í raun viðhaldið uppgangi og eftirspurn í efnahagslífinu á þessum tíma. En hvert var andlagið, virðulegur forseti? Andlagið var mikill viðskiptahalli, erlend lántaka bankakerfisins. Hallinn sem myndaðist gat ekki staðist til lengdar nema með þeim afleiðingum sem við þekkjum. Það er ástæða til þess að rekja það sem fram kom í síðustu þjóðhagsáætlun fyrir árið 2002. Spáin gefur til kynna að einkaneysla, samneysla og fjárfesting feli í sér að þjóðarútgjöldin í heild dragist saman um 1,8% á árinu 2001 og 2,5% á árinu 2002. Þetta leiðir auðvitað til þess að viðskiptahallinn hlýtur að minnka. Hverjar eru afleiðingarnar? Þær höfum við séð á undanförnum mánuðum, gengisfellingu upp á tugi prósentna á tímabili þó heldur hafi menn náð að rétta úr kútnum aftur. Ýmislegt í þessari spá og það sem sagt var um efnahagsstefnuna féll mönnum ekki vel í geð, m.a. hæstv. ríkisstjórn og þá síst hæstv. forsrh.

Virðulegur forseti. Ég spyr hvort hæstv. forsrh. sé ekki að vænta hér fljótlega. Ég hef nokkrar spurningar til hans. Ég get sætt mig við að hann sé ekki til staðar í augnablikinu og skil mætavel að þann þurfi að sinna ýmsum málum sem hið stutta matarhlé nýtist ekki til.

(Forseti (ÍGP): Um leið og ég bið hv. þingmenn að gefa örlítið betra hljóð vil benda á að hæstv. forsrh. er í húsinu þannig að hann er væntanlegur alveg innan tíðar.)

Ég þakka hæstv. forseta fyrir að gefa mér tóm og óska þess að menn hafi hljóð í salnum og fyrir að lofa að hæstv. forsrh. verði viðstaddur lok ræðu minnar. En þetta er nú eins og með gamala svinghjólið í Álaborg. Nú er ég kominn á skrið og ekki víst nema það taki allt að tvo daga að stoppa. Það gæti þó breyst um leið og hæstv. forsrh. er kominn og tilbúinn að hlusta á spurningar mínar og útskýringar á Hávamálum og því sem ég vitnaði til þar. Ég gæti þá sjálfsagt stytt mál mitt að einhverju leyti.

Ástand og horfur í þjóðarbúskapnum. Þessi spá frá Þjóðhagsstofnun var ekki til þess fallin að vekja vinsældir hjá hæstv. ríkisstjórn. Þar var búist við samdrætti í þjóðarútgjöldum. Þar var búist við hækkun vísitölu neysluverðs og auknu atvinnuleysi. Slíkar spár falla hæstv. ríkisstjórn ekki í geð. Kann að vera að m.a. það hafi leitt til þess að stofnunin er sett af.

Ég fór yfir það að samkvæmt lögum, virðulegur forseti, er Þjóðhagsstofnun falið að sinna ákveðnum verkefnum. Ég rakti það í nokkuð löngu máli hver helstu verksvið stofnunarinnar væru, þ.e. að færa þjóðhagsreikninga, semja þjóðhagsspár, gera áætlanir, semja og birta opinberlega yfirlitsskýrslur um þróun þjóðarbúskaparins og horfur í þeim efnum, m.a. að annast hagfræðilegar athuganir og skýrslugerð um efnahagsmál og enn fremur að láta alþingismönnum og nefndum Alþingis í té upplýsingar og skýrslur um efnahagsmál.

Ég lýsi ánægju með það, virðulegur forseti, að hæstv. forsrh. skuli kominn. Ég á eftir örlítið mál áður en ég get lagt fram þær spurningar sem ég kynnti að ég mundi spyrja um. Einnig tel ég ástæðu til að útskýra miklu betur af hverju ég vitnaði í Hávamál, og ég mun gera það.

Hluta af þessum verkefnum tel ég að sé mögulegt að færa til annarra en einhvern veginn segir mér svo hugur um að þeir sérfræðingar sem hafa unnið hjá Þjóðhagsstofnun séu ekki á lausu alls staðar. Það býr mikil þekking og hæfni í þeim mannauði sem þessi stofnun býr yfir og ég hlýt að treysta því, verði af þeirri breytingu sem í stefnir að hér verði knúin fram með fulltingi meiri hluta á Alþingi, að þetta fólk verði virkjað til starfa á þeim sviðum sem ég nefndi í upphafi máls míns.

Ég reikna með að styrkja megi aðila vinnumarkaðarins til að reikna út forsendur. Ég tel samt, eins og ég sagði í upphafi, að það verði aldrei á þann veg að Alþingi geti leitað eftir upplýsingum til þeirra sem taka munu þessi verkefni að sér á sama veg og við höfum getað leitað til Þjóðhagsstofnunar. Ég segi það þar sem ég er þess fullviss að nauðsynlegt sé að hafa óháðan aðila sem semur þjóðhagsspá og áætlun sem væri til mótvægis við það sem pólitísk viðhorf geta komið fram sinni aðrir gerð þjóðhagsáætlunar. Ég á við með því að ef við ætlum að reikna með því að starfsemnn fjmrn. geri þessar áætlanir þá hljóti þær á hverjum tíma að bera keim af þeirri stjórn sem situr þá stundina, óháð því hvort það er núverandi hæstv. ríkisstjórn eða þær sem við munu taka. Vera kann að þau atriði sem ég hef nefnt hafi orðið til að flýta fyrir niðurlagningu þessarar stofnunar.

[20:45]

Til dæmis var Þjóðhagsstofnun búin að setja upp og búa til nýtt þjóðhagslíkan sem stofnunin studdist við og vildi vinna eftir og kom berlega í ljós við síðustu fjárlagagerð að með þeirri áætlanagerð var töluverður mismunur á því sem hagfræðingar Þjóðhagsstofnunar héldu fram og því sem hagfræðingar fjmrn. settu fram. Það ber því allt að einu, að vegna þess þá vilja menn ekki hafa þessa stofnun.

Ég hef áður nefnt að á ársfundi Seðlabankans gaf hæstv. forsrh. það út að Þjóðhagsstofnun yrði lögð niður og síðan hafa starfsmenn stofnunarinnar verið í óvissu um á hvern hátt þetta yrði framkvæmt. Ég verð að segja að öll óvissa og lausung, ekki síst varðandi störf sem voru í þessari stofnun, hefur skapað óstöðugleika. Það er því nauðsynlegt að fá málið á hreint.

Ég hef áður nefnt stofnun sem heitir Lánasýsla ríkisins. Ég velti því fyrir mér hvort fyrir þeirri stofnun eigi að liggja að fara einhverja ámóta leið og Þjóðhagsstofnun er að fara núna. Það getur vel verið að það sé þannig að ef Þjóðhagsstofnun er óþörf, þá hlýtur það sama að gilda um þá stofnun sem ég er að nefna núna vegna þess að það eru vissulega til þess bærir aðilar og það eru bankarnir og Seðlabankinn sem geta annast þau verkefni sem Lánasýsla ríkisins hefur fjallað um. Hún er reyndar flutt núna ef ég veit rétt til Íbúðalánasjóðs og eftir stendur húsnæði upp á u.þ.b. 1.000 fermetra sem mér skilst að sé enn þá í leigu, ríkið sé enn þá með í leigu, og standi bara autt í því húsi sem umrædd stofnun var í. Ég skil auðvitað ekki hvað er á ferðinni þar. En ekki er verið að ræða um það hér núna en ég á eftir að spyrja betur út í það seinna en ekkert skrýtið þó að það sé nefnt í þessu sambandi.

Í upphafi máls vitnaði ég í Hávamál og fór með þetta sem þar stendur, með leyfi forseta: ,,Veistu hve rísta skal?`` Og ég sagði að rísta þýddi að berjast. Það sem hæstv. forsrh. hefur ákveðið er að rista valrún sem var lögð fram þegar búa skyldi til orrustu og hann hefur ákveðið að berjast í þessu máli.

Í annarri hendingu stendur: ,,Veistu hve ráða skal?`` Sú þýðing sem ég gaf á orðinu ráða var að koma fyrir kattarnef og það er samkvæmt íslenskum orðabókum og stenst. Ég les því ,,veistu hve rísta skal? sem veistu við hvað er að berjast? ,,Veistu hve ráða skal?`` Það er um hvernig á að leggja stofnunina af eða koma fyrir kattarnef.

,,Veistu hve fá skal?`` Það þýðir að líta vel út, hvernig á að gera þessa hluti svo þeir líti bærilega út. Það er merkilegt að þetta skuli standa í Hávamálum, virðulegi forseti. (HBl: Veit það sá er ...)

,,Veistu hve freista skal?`` segir hér, virðulegi forseti. Það sagði ég að væri að ginna. Það er auðvitað verið að ginna samstarfsflokkinn með í þennan leik og þeir hafa látið glepjast og komið með. Úr því að ég sé hv. þm. Kristin H. Gunnarsson, þingflokksformann Framsfl., þá er rétt að rifja það upp.

,,Veistu hve biðja skal?`` Hvernig á að sleppa við hneisu við aðgerðina. Jú, það er gert á þann hátt að látið er líta þannig út að það eigi að færa þessi störf. Hvert? Til ASÍ. Og með hvaða orðum? Með því að þeir muni loksins fá fjármuni til að reka hagdeild sína.

Hvað var gert á árunum þegar fjárframlagið til ASÍ var skorið niður í fjárlögum? Það þýddi að hagdeildin þeirra varð ónýt eða a.m.k. miklu lakari. Og búið er að heita því að þeir skuli fá eitthvað fyrir sinn snúð með því að gera kannski ekki athugasemdir.

,,Veistu hve blóta skal?`` Hvað þýðir það? Það þýðir að færa fórn. Og hvaða fórn er verið að færa? Það er verið að leggja niður stofnun þar sem fjöldi manna á allt sitt undir í afkomu og þeir vita ekkert hvað kemur í staðinn.

,,Veistu hve senda skal?`` Til þess að ég hafi mína skýringu á því þá þýðir það að láta fram fara, þetta er látið fram fara án þess að vita hvað tekur við.

,,Veistu hve sóa skal?`` Það er eðlilegt að ég vitni til þess að sóa þýðir að verja illa vegna þess að sannarlega er verið að eyða miklu meiri fjármunum en nauðsynlegt er með þessari aðgerð. Það hefur enginn komið og sýnt mér það og ég spurði hæstv. utanrrh., þá starfandi forsrh., hvað þetta mundi kosta til viðbótar og það voru engin svör við því önnur en tilvitnun til svara eða umsagnar fjmrn.

Ég vil, virðulegur forseti, ljúka máli mínu með því að spyrja hæstv. forsrh. hvort ekki sé mögulegt að fresta málinu að sinni og koma með það sem ég kalla haldbæra lausn, þ.e. vel útfærða lausn sem inniber nýja stofnun sem er með afmarkaðra svið en að uppistöðu sama lykilstarfsfólk.

Í öðru lagi hvort hæstv. forsrh. hafi komið auga á þann aðila sem til þess er bær að setja fram þær áætlanir og athuganir sem ég vitnaði til í upphafi að Þjóðhagsstofnun hefði unnið. Ég er að tala um athugun á áhrifum mismunandi aðgerða á byggðaþróun, efnahagsþróun og almennt að sinna þeim mikilvægu verkefnum sem Þjóðhagsstofnun hefur haft með höndum. Ég spyr um þetta vegna þess að ég hef ekki komið auga á þá aðila sem eru til þess bærir að sinna þeim verkefnum sem ég rakti í upphafi máls míns og ég þarf ekki að lýsa því aftur hversu ómetanlegt starf ég tel að þessi stofnun hafi innt af hendi fyrir fjölmarga aðila í samfélaginu, ekki bara stjórnarandstöðu, ekki bara atvinnulífið heldur og ríkisstjórn og almennt alla aðila sem að efnahagsmálum og stjórn landsins koma.