Þjóðhagsstofnun o.fl.

Fimmtudaginn 18. apríl 2002, kl. 20:53:49 (7815)

2002-04-18 20:53:49# 127. lþ. 122.1 fundur 709. mál: #A Þjóðhagsstofnun o.fl.# frv. 51/2002, forsrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 122. fundur, 127. lþ.

[20:53]

Forsætisráðherra (Davíð Oddsson) (andsvar):

Herra forseti. Þetta var afar athyglisverð ræða og fjallaði jafnvel stundum um efni máls í ekki kannski of löngu máli en margt var fróðlegt sem fram kom, kveðskapur margvíslegur, forn og nýr, og allt var það hið ánægjulegasta á að hlýða og tilbreyting fyrir mig frá annarri umræðu í dag.

Framarlega í ræðu sinni taldi hv. þm. upp langa runu af verkefnum sem hann óttaðist að fengi hvergi sæmilega vistun eftir þá breytingu sem þarna væri gerð. Þegar ég hlustaði á hv. þm. fannst mér að tiltölulega auðvelt væri að vista nánast allt saman sem hv. þm. nefndi af þeim verkefnum sem þarna voru á ferðinni vegna þess að auðvitað er það rétt að Þjóðhagsstofnun hefur tekið sumt af þessu saman, annað hefur verið tekið saman annars staðar og Þjóðhagsstofnun hefur auðvitað nýtt sér. En mjög mikið af þessum upplýsingum liggja þegar fyrir árlega, til að mynda í gögnum og ritum Seðlabankans, meira að segja ársfjórðungslegum ritum Seðlabankans uppfærð, einnig í töflum og talnaverki Hagstofunnar. Sumt af þessu er þegar hjá fjmrn. þannig að ef við fengjum þennan langa lista, þá væri auðvelt að merkja við og færa þingmanninum það með hvaða hætti það yrði vistað í framtíðinni þannig að mér fannst áhyggjur hans að mestu vera óþarfar en ég met þó við hann að hann vildi rannsaka þetta vel og ég geri engar athugasemdir við það.

Ég sé ekki nein stór vandamál við að leysa úr þeim málum sem þingmaðurinn nefndi. Auk þess var það rætt hér fyrr í dag að sjálfsagt væri að þingheimur hefði aðgang t.d. með samningum að tiltekinni hagfræðilegri þjónustu annars staðar, til að mynda með samningum við Hagfræðistofnun Háskóla Íslands o.s.frv. Við erum því fyrst og fremst að losa okkur við tvíverknað. Það gerist með tillögunni og þjónusta verður fyrir hendi.