Þjóðhagsstofnun o.fl.

Fimmtudaginn 18. apríl 2002, kl. 20:55:59 (7816)

2002-04-18 20:55:59# 127. lþ. 122.1 fundur 709. mál: #A Þjóðhagsstofnun o.fl.# frv. 51/2002, GE (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 122. fundur, 127. lþ.

[20:55]

Gísli S. Einarsson (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. forsrh. fyrir svörin og er alveg sjálfsagt að láta af hendi þau gögn sem ég sótti að sjálfsögðu í tölvuna mína og eru sótt til Þjóðhagsstofnunar. Þar er gerð grein fyrir með löngum listum þeim verkefnum sem stofnunin hefur unnið. Mér er ljóst að fyrir mörg þeirra verkefna sem stofnunin vinnur eru sóttar upplýsingar t.d. til Hagstofunnar og þær eru skráðar og settar saman í aðgengilegt form.

En stofnunin hefur unnið sitthvað fleira eins og ég minntist á, gefið umsögn og skýrslu eða greinargerð sem var unnin m.a. vegna endurskoðunar laga um stjórn fiskveiða sem segir beinum orðum að samdrátturinn í hinum dreifðu byggðum þaðan sem aflaheimildirnar hafa verið fluttar til hinna sterku byggða er bein afleiðing af fiskveiðistjórnarstefnunni. Ég skil það svo að sú skýrsla sé ekki í þágu þeirra stjórnvalda sem vilja viðhalda því fiskveiðikerfi sem við búum við. En ég bar ekki fram neinar ásakanir um að menn hefðu í einhverju reiðikasti eða undir slíkum aðstæðum ákveðið að leggja stofnunina niður. Það hef ég ekki gert og mun ekki gera.

Ég spurði þeirrar spurningar: Hvar má vænta að það fólk sem hefur unnið þessi sérhæfðu störf fari til starfa við sams konar eða sambærileg verkefni? Vegna þess að ég tel að mikill mannauður felist í þeim mannskap sem þarna var og hann hafi mikla sérhæfingu til að sinna þeim störfum sem við sóttum eftir frá þeim.