Þjóðhagsstofnun o.fl.

Fimmtudaginn 18. apríl 2002, kl. 21:02:05 (7820)

2002-04-18 21:02:05# 127. lþ. 122.1 fundur 709. mál: #A Þjóðhagsstofnun o.fl.# frv. 51/2002, KolH
[prenta uppsett í dálka] 122. fundur, 127. lþ.

[21:02]

Kolbrún Halldórsdóttir:

Virðulegur forseti. Ég er því miður ekki með neina ljóðabók við höndina þannig að ekki get ég haldið áfram þeim ljóðaflutningi sem hér var hafinn. Satt að segja lífgar það alltaf umræður þegar gripið er til ljóðformsins úr ræðustóli hins háa Alþingis. En það verður sem sagt ekki gert í minni ræðu. Ég held mig við frv. til laga um brottfall Þjóðhagsstofnunar úr íslenskum lögum.

Þessi umræða sem staðið hefur lengi dags er búin að vera efnismikil og hér hefur margt verið gagnrýnt. Það sem stendur upp úr í þeirri gagnrýni sem hér hefur komið fram er kannski stíll stjórnvalda, hvernig þau koma að málum, hvernig mál eru kynnt og hvernig þau eru unnin.

Herra forseti. Á síðustu dögum þessa þings rigsar ríkisstjórnin hér um sali með hvert frv. á fætur öðru sem felur það í sér að stofnanir séu lagðar niður eða þeim ,,rúmsterað`` á annan hátt í stjórnkerfinu. Flest þessara mála hafa verið afgreidd hingað inn með afbrigðum og svo er um þetta mál sem hér er rætt. Það kom svo seint inn í þingið að í fyrsta lagi var frestur til að leggja fram þingmál runninn út og svo hafði það ekki legið tilskilinn tíma á borðum þingmanna til að hægt væri að taka það á dagskrá. Til þess þurfti því tvöföld afbrigði, og hv. þingmenn rekur sennilega minni til þeirrar uppákomu sem hér varð þegar atkvæðagreiðslur um þau afbrigði öll fór fram.

Þetta er ekki eina frv. sem ríkisstjórnin hefur komið fram með á síðustu dögum þingsins sem lúta að svona umfangsmiklum breytingum í stofnanakerfi ríkisins. Fyrir þinginu liggur enn fremur að fjalla um Umhverfisstofnun sem felur í sér að Náttúruvernd ríkisins verði lögð niður, Hollustuvernd ríkisins sömuleiðis ásamt með veiðistjóraembættinu, dýraverndarráði og hreindýraráði. Síðan erum við með Umferðarstofnun í burðarliðnum sem kemur til með að afleggja Skráningarstofuna hf. Kannski mætti finna fleiri fyrirliggjandi frv. sem fela í sér breytingar á stofnanaumhverfinu og ég lýsi því yfir, herra forseti, að það er allsendis óásættanlegt að ríkisstjórnin skuli leggja svo mörg mál af þessu tagi fram og ætlast til þess að þingmenn fjalli um þau á svo skömmum tíma sem gefinn er. Það er alveg ófyrirgefanlegt þegar maður horfir til allra þessara mála að öll eru þau svo illa úr garði gerð að segja má að kastað hafi verið til þeirra höndunum að einhverju eða öllu leyti.

Varðandi það mál sem hér er til umræðu er auðvitað skelfilegt að ríkisstjórn Íslands geti ekki komið fram við starfsfólk ríkisstofnunar sem unnið hefur gott starf í fjöldamörg ár --- eðlilegt er að þingmenn beri hag þess fyrir brjósti --- á sómasamlegan hátt. Það hefur komið fram að fulltrúar starfsmannafélagsins, sem auðvitað eru algjörlega mótfallnir þessum breytingum öllum saman, kvarta undan því að ekki hafi verið tekið tillit til sjónarmiða starfsfólks stofnunarinnar.

Nú er auðvitað alkunna, herra forseti, það vita öll stjórnvöld, sama hvar í landi þau eru, a.m.k. í hinum vestræna heimi, að ef menn ætla að vinna hugmyndum, sem fela í sér hag fólks og fjölskyldna í landinu, brautargengi er auðvitað eðlilegast að fyrsta skrefið sé að ráðfæra sig við það fólk sem hlut á að máli. Það er auðvitað alveg óásættanlegt, herra forseti, að ríkisstjórnin skuli leyfa sér, ekki bara í einu máli og ekki bara í tveimur málum heldur í fleiri málum sem lögð eru hér fram á síðustu þingdögum, fara þannig fram að starfsfólkið sem hlut á að máli, starfsfólkið sem á starfsframa sinn undir þeim stofnunum sem um ræðir, skuli ekki vera haft með í ráðum. Þetta getur ekki annað en grafið undan aðgerðum ríkisstjórnarinnar. Þetta eykur ekki tiltrú fólks á aðgerðum hennar heldur veikir traust fólks á henni.

Gerir hæstv. forsrh. sér grein fyrir því að þjóðarpúlsinn sem mælir traust það sem þjóðin er talin bera til Alþingis fer lækkandi? Hann mun standa í 36% í dag --- einungis 36% þjóðarinnar bera í dag traust til Alþingis. Ég hef þá kenningu, herra forseti, að framganga af því tagi sem hér er viðhöfð sé til þess fallin að grafa undan, ekki bara ríkisstjórninni heldur Alþingi öllu, Alþingi sem stofnun. Og það er mjög alvarlegt þegar ríkisstjórnin leyfir sér að ganga svo fram í mörgum málum á síðustu dögum þingsins að rýra tiltrú fólks á Alþingi, þessa stofnun, þessa merku stofnun sem á auðvitað að njóta hvað mests trausts í samfélaginu. (Forsrh.: Ætli það séu ekki þessar löngu ræður sem eyðileggja það.) Hæstv. forsrh. getur sér þess til að hinar löngu ræður sem haldnar eru hér rýri tiltrú fólks á þinginu en ég leyfi mér að mótmæla að svo sé. Auðvitað skilur fólk að alþingismenn sem kjörnir eru inn í þessa samkundu til að gæta pólitískra hagsmuna þurfi að koma sjónarmiðum sínum fram.

Herra forseti. Hvorki hagræðing né fagleg rök liggja að baki þeirri aðgerð sem hér er um rætt. Það kemur fram í nál. frá minni hluta efh.- og viðskn., sem er efnismikið og hefur að geyma fylgiskjöl sem mjög gagnlegt er að kynna sér með þessu máli, að samkvæmt þessum umsögnum sé hætta á að þjóðhags- og efnahagsspár komi til með að lúta pólitísku forræði eftir þessa breytingu.

Og hvað þýðir það, herra forseti? Það þýðir að alþingismenn og þjóðin eiga enn minni möguleika en áður á því að hafa traust á þeim spám sem eru til staðar varðandi þjóðhagslega þætti í efnahagslífinu, og efnahagslífinu þegar á heildina er litið.

Mér er minnisstæð frétt sem Ríkisútvarpið flutti af þessu máli, herra forseti, um það bil sem það kom fram í þinginu. Þá var rætt við fyrrverandi þjóðhagsstofustjóra, Þórð Friðjónsson, í frétt sem fjallaði aðallega um það að Alþýðusamband Íslands teldi sig hafa fengið fyrirheit stjórnvalda um að samtökin mundu fá aukið hlutverk í efnahagsmálum þegar þessi gjörningur væri genginn í gegn, þ.e. Þjóðhagsstofnun yrði lögð niður. Um þetta fjallaði fréttin en mig langar, með leyfi forseta, að fá að vitna til orða Þórðar Friðjónssonar, fyrrverandi forstjóra Þjóðhagsstofnunar, sem sagði í þessari frétt að Alþýðusamband Íslands kæmi ekki í stað óháðrar greiningarstöðvar efnahagslífsins og fæ ég nú, með leyfi forseta, að vitna beint til orða Þórðar. Honum mæltist svo:

,,Ja, það er auðvitað sjálfsagt góðra gjalda vert að efla Alþýðusamband Íslands að þessu leytinu. Það er mikilvægt að þar sé til staðar mikil kunnátta og þekking á þessu sviði en það kemur auðvitað ekki í staðinn fyrir óháða greiningarstöð efnahagslífsins að setja meiri vinnu þar af stað.``

Síðan segir í fréttinni, herra forseti, með yðar leyfi:

,,Þórður segir að í dag sé engin óháð stofnun önnur en Þjóðhagsstofnun sem vinnur þjóðhagsspár og það hafi enginn aðili yfir að ráða þeim tækjum og tólum sem Þjóðhagsstofnun hafi, t.d. við gerð þjóðhagsspár. Hins vegar séu ýmsir sem spái í frávik frá þeim spám sem Þjóðhagsstofnun hafi sett fram.``

Og aftur til hans orða beint, með leyfi forseta. Hann lýkur máli sínu með svohljóðandi orðum:

,,Auðvitað getur einhver aðili komið sér upp þessari aðstöðu og getu til þess að gera þjóðhagsspá en það er enginn aðili í dag sem gerir það. Og það sem er mikilvægasta atriðið í mínum málflutningi er að það sé einhvers staðar óháð greiningarstöð efnahagslífisins sem sinnir þessum verkum.``

Herra forseti. Mér þykir mjög alvarlegt þegar fyrrverandi forstjóri þessarar stofnunar, sem nú er búið að koma í öruggt skjól annars staðar, skuli kveða upp úr með það í þessari umræðu að engin stofnun geti komið í staðinn fyrir þessa óháðu greiningarstöð efnahagslífsins, það sé engin stofnun þannig óháð í dag að hún geti tekið við þessum verkum á þeim nótum sem gert hefur verið ráð fyrir að þau séu unnin. Og herra forseti, það er ekki óháð vinna sem fer fram á borðshorni í fjmrn., eins og gert er ráð fyrir að gerist hér. Samkvæmt þessum tillögum kemur stór hluti af verkefnum Þjóðhagsstofnunar til með að fara á borðshorn í fjmrn. sem lýtur auðvitað stjórn og pólitísku valdi hæstv. fjmrh. Það er því alveg ljóst að við erum að tapa hinni óháðu greiningarstöð efnahagsmála með þeim breytingum sem hér er verið að fjalla um.

Herra forseti. Þegar leitað er í lagasafni Alþingis að þeim lögum sem Þjóðhagsstofnun kemur fyrir í, og reyndar má sjá í 2. gr. þessa frv., kennir þar ýmissa grasa. Við fjöllum um Þjóðhagsstofnun í auglýsingu um staðfestingu forseta Íslands á reglugerð um Stjórnarráð Íslands, um hana er fjallað í lögum um stjórn efnahagsmála, um tekjuskatt og eignarskatt, um sóknargjöld og um virðisaukaskatt, um Hagþjónustu landbúnaðarins, um tryggingagjald, um kirkjugarða, greftrun og líkbrennslu og lögum um fjárreiður ríkisins. Það er alveg ljóst, herra forseti, að þessi stofnun hefur haft mikilvægu hlutverki að gegna og henni hefur verið ætlað efnismikið hlutverk í stjórnsýslunni hingað til. Andstaða við þau áform sem ríkisstjórnin hefur nú á borðum sínum er því alveg eðlileg.

Ég get vottað það, herra forseti, að á þeim stutta tíma sem ég hef starfað af alvöru í stjórnmálum hefur Þjóðhagsstofnun verið mér ákaflega nytsöm stofnun. Í þeim málaflokki sem ég hef hvað mest unnið, umhverfismálunum, verð ég að segja að ég hef getað leitað til stofnunarinnar með ýmsa hluti sem lúta að þeim málaflokki. Þar hefur verið hægt að leita til afar hæfs starfsfólks og nægir að nefna hagfræðingana og bræðurna Magnús og Pál Harðarsyni sem hafa lagt sig í líma við að skilgreina umhverfismálin út frá hagrænum forsendum, forsendum hagfræðinnar. Ég hef hlustað á þá ágætu hagfræðinga flytja ræður og fræðsluerindi sem fjalla t.d. um kostnaðar- og nytjagreiningu, skilyrt verðmætamat og fleira sem lýtur að þeim lögmálum sem hagfræðin hefur til að meta verðgildi ósnortinnar náttúru, svo eitthvað sé nefnt, og meta náttúrulegar auðlindir þjóðarinnar.

[21:15]

Meðal þeirra greinargerða sem ég hef nýtt mér og hef haft mikið gagn af að lesa er nýleg skýrsla sem Þjóðhagsstofnun gerði, þ.e. í ágúst 2001 gerði Þjóðhagsstofnun skýrslu um efnahagslegt umfang þjóðgarðs norðan Vatnajökuls. Það er ekki svo að það komi beint þessu máli við. Ég ætla ekki að ræða innihald þeirrar skýrslu. Ég vil aðeins benda á að þegar sú skýrsla var gerð þá var um afskaplega heitt pólitískt mál að ræða. En eins og alþjóð er kunnugt fjallar baráttan um hálendið norðan Vatnajökuls um það hvort eigi að virkja það eða stofna þar þjóðgarð og hvort eitthvert vit sé í því að skoða möguleikann á að gera hvort tveggja.

Þjóðhagsstofnun var fengin af sérstakri umsjónarnefnd rammaáætlunar ríkisstjórnarinnar um nýtingu vatnsafls og jarðvarma til að gera skýrslu um þetta mál. Sú skýrsla er stutt og laggóð. Hún er afar vel unnin þó að menn segi að hún sé ekki endanlegt plagg um þá möguleika. Sannleikurinn er sá að sú kunnátta sem starfsmenn Þjóðhagsstofnunar hafa haft yfir að ráða í þessum málaflokki gerir það að verkum að hægt er að leggja mjög óháð mat á þessa hluti. Það er alveg greinilegt þegar skýrslan er lesin að þar skiptir pólitíkin eða efnahags- og atvinnustefna stjórnvalda engu máli.

Herra forseti. Ég óttast að ef skýrsla af þessu tagi hefði verið unnin á borðshorni fjmrh., sem hún yrði eftir breytingu þá sem hér er lögð til, þá væri miklum mun erfiðara að treysta þeirri niðurstöðu sem kæmi út úr slíkri vinnu, eðli málsins samkvæmt. Það er fullkomlega eðlilegt að alþingismenn krefjist þess að eiga stofnun af þessu tagi, óháða stofnun sem er óumdeild og þar sem ekki er stöðugt verið að tortryggja niðurstöður skýrslna og útreikninga.

Þegar heimasíða Þjóðhagsstofnunar er skoðuð má sjá að hún kemur mjög víða við í starfi sínu. Þar er afar merkilegt greinasafn sem hefur að geyma erindi sem flutt hafa verið af starfsmönnum stofnunarinnar. Þingheimi til fróðleiks, herra forseti, er rétt að nefna hér hversu víða starfsmenn stofnunarinnar koma við í fræðilegu starfi sínu. Í erindum starfsmanna sem þeir hafa flutt á vegum stofnunarinnar síðasta ár má nefna erindi um innflytjendur og vinnumarkaðinn, áhrif innflytjenda á íslenskan efnahag. Síðan má finna erindi um afkomu í sjávarútvegi. Það má finna erindi um erlenda ríkisborgara og vinnumarkaðinn, fjárfestingu í samgöngum á höfuðborgarsvæðinu, síðan svona almenn erindi um efnahagshorfur og þar fram eftir götunum, erindi um íslenska stórborg, framtíðarþróun Íslands, erindi um menntun og hagsæld. Svona mætti áfram telja.

Það er alveg satt, herra forseti, að Þjóðhagsstofnun og hennar öfluga starfsfólk hefur notið trausts í samfélaginu og það að vaða hér uppi með áform af því tagi sem hér liggja fyrir gerir ekkert annað en að skekja þetta fólk, gera það óöruggt og veikja í raun þær stoðir í samfélaginu sem hafa borið uppi óháða gagnrýni eða óháða rýni á þjóðarbúskapinn.

Hér á þingi hafa oftar en einu sinni, herra forseti, komið upp umræður um möguleika á breytingu á lögum um Þjóðhagsstofnun, en aldrei í þessa veruna heldur í þá veru að henni verði breytt á þann hátt að hún verði tekin frá forsrn. og sett undir Alþingi og starfi sem óháð stofnun á vegum þess. Eitt af þeim málum sem liggur fyrir og var til umfjöllunar á hinu háa Alþingi á sama tíma og þetta frv. var til 1. umr. er tillaga til þál. frá hv. þm. Steingrími Sigfússyni og Ögmundi Jónassyni þar sem lagt var til að Alþingi ályktaði að gera sérstaka úttekt á starfsemi stofnunarinnar sem ætti að leiða það af sér, eða að það ætti í raun að skoða hver verkaskipting á milli Þjóðhagsstofnunar og annarra aðila sem vinna að einhverju leyti að svipuðum verkefnum væri. Síðan var gert ráð fyrir að metnir yrðu kostir þess að Þjóðhagsstofnun yrði færð undir Alþingi.

Herra forseti. Ég verð að segja að mér hefði fundist rismeira að ræða mál af því tagi hér en ekki niðurlagningu stofnunarinnar, því að eins og margoft hefur komið fram í þessari umræðu er eitt af meginhlutverkum Þjóðhagsstofnunar að fylgjast með framvindu efnahagsmála, meta árangurinn af efnahagsstjórn ríkisstjórnarinnar á hverjum tíma og líklegar afleiðingar ráðstafana í efnahagsmálum. Herra forseti. Slíkt verður aldrei gert af borðshorni í fjmrn. Það er alveg ljóst.

Herra forseti. Ég verð að lýsa því yfir að nál. frá meiri hluta efh.- og viðskn. er afar rýrt í roðinu og ekki er mikið kjöt á beinunum þar. Satt að segja er ekkert efnislegt innihald eða ekkert mat lagt á efnahagslegt innihald frv. í þessu nál. Það er ekkert pólitískt inntak og yfir höfuð engin skoðun sem meiri hluti efh.- og viðskn. lætur í ljósi. Það er nánast eins og nefndin hafi bara setið sofandi á þeim fundum sem fjölluðu um þetta mál því að í örfáum orðum er getið um hluti sem koma fram í greinargerð frv., hluti sem eru algjörlega sjálfsagðir og allir geta lesið sér til um í greinargerð með frv. En ekki örlar á því að það líti út fyrir að nefndin hafi lagt sjálfstætt mat á innihald frv. Meira að segja gerist meiri hluti nefndarinnar sekur um að orða hlutina eins og hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir nefndi þegar hún fylgdi úr hlaði nál. minni hluta efh.- og viðskn., því þá gagnrýndi hún það hvernig meiri hluti efh.- og viðskn. tekur til orða í sínu nál., þar sem þess er getið að aðilar á borð við Seðlabanka Íslands, aðilar vinnumarkaðarins og einkaaðilar geti tekið að sér og sinnt einhverjum verkefnum. Taka má undir þá gagnrýni, herra forseti, og beina henni að meiri hluta efh.- og viðskn. sem á auðvitað ekki að leyfa sér í jafnstóru máli og þessu að láta fara frá sér nál. sem er jafnþunnildislegt og það sem við höfum hér yfir augunum.

Mér sýnist meiri hluti efh.- og viðskn. falla í sömu gryfju og ríkisstjórnin sjálf. Fólk sem á allt sitt undir þessari stofnun og hefur helgað henni starfskrafta sína í fjöldamörg ár á annað skilið en þetta sem það fær frá meiri hluta efh.- og viðskn. Það á skilið að fjallað sé um málið af fagmennsku og með einhverju pólitísku inntaki en ekki bara að hér séu tíundaðir einhverir hlutir sem standa í greinargerð með frv. og allir hafa getað lesið.

Herra forseti. Er það þá svo að meiri hluti efh.- og viðskn. láti ríkisstjórnina bara teyma sig á asnaeyrum inn í þetta öngstræti þar sem stendur við enda götunnar: ,,Hér ber að leggja Þjóðhagsstofnun niður?`` Og meiri hluti efh.- og viðskn. gengur bara í blindni á eftir ríkisstjórninni og gerir eins og henni er sagt. Herra forseti. Maður getur ekki varist því að fullyrða að þannig líti það út því að hér er ekki um fagleg vinnubrögð nefndar að ræða, þ.e. að skila áliti í svo stóru máli sem ekki er meira virði eða hefur meira efni að geyma en þetta.

Herra forseti. Ein af þeim kenningum sem komið hafa fram í þessari umræðu lýtur að því að ríkisstjórn Davíðs Oddssonar sé þeirrar náttúru að hún leggi sig fram um að grafa undan stofnunum sem eru óþekkar ríkisstjórninni, sem eru ekki hlýðnar og skemmtilegar og láta ekki alveg að stjórn eða dansa ekki eins og ríkisstjórnin óskar eftir eða vill. Herra forseti. Hægt er að styðja það ýmsum rökum að Þjóðhagsstofnun hafi stundum gefið álit sem ríkisstjórnin hefur ekki verið glöð með, álit sem hafa að mati ríkisstjórnarinnar verið í andstöðu við stefnu hennar og í andstöðu við þann sannleika sem ríkisstjórnin telur sig hafa boðað.

Ég kynnti mér til gamans umsögn Þjóðhagsstofnunar um frv. til laga um heimild til handa fjármálaráðherra, f.h. ríkissjóðs, til að ábyrgjast útgáfu skuldabréfa vegna fjármögnunar nýrrar starfsemi Íslenskrar erfðagreiningar ehf. og þar kemur í ljós mjög beinskeytt afstaða stofnunarinnar sem telur í því tilfelli að hér sé um að ræða mál sem þurfi betri skoðunar við. Hún telur þessa ríkisábyrgðarhugmynd ekki alls kostar góða, nema síður sé, telur hana satt að segja slæma og segir í umsögn sinni, með leyfi forseta:

,,Fjármagn og vinnuafl leita í meira mæli til fyrirtækja sem njóta ríkisábyrgðar í stað þess að taka einvörðungu mið af því sem hagkvæmast er hverju sinni. Að jafnaði er við því að búast að ríkinu takist verr upp en fjárfestum sem leggja eigið fé að veði og hafa nánari þekkingu á atvinnustarfseminni.

Í undantekningartilfellum má réttlæta ríkisaðstoð til fyrirtækja á grunni markaðsbresta, þ.e. að markaðir nái illa til allra þeirra verðmæta sem í húfi eru. Á þessum grunni má til dæmis réttlæta afskipti af umhverfismálum. Í því tilfelli sem hér er til skoðunar verður á hinn bóginn ekki séð að slíkir markaðsbrestir séu meiri en það sem gerist víða annars staðar í hagkerfinu.``

Já, herra forseti. Þjóðahagsstofnun hefur þorað hingað til að ganga gegn vilja ríkisstjórnarinnar. Hún hefur ekki verið hlýðið tæki í höndum hennar. Það hefur Náttúruvernd ríkisins ekki heldur verið og nú blasa sömu örlög við báðum þessum stofnunum. Þær skulu bara burt af sviðinu.

Herra forseti. Hæstv. fjmrh. sagði í ræðu sinni þegar hann fylgdi þessu máli úr hlaði við 1. umr. eitthvað á þá leið að vinnan yrði unnin faglega, að hún yrði látin fara fram á eins ópólitískan hátt og kostur væri. Herra forseti. Ég held að búið sé að hrekja hvort tveggja í umræðunni sem fram hefur farið hér í dag. Það er búið að geta um það í hverri ræðunni á fætur annarri hversu illa hefur verið staðið að málum faglega og sömuleiðis hversu pólitískt málið er frá hendi ríkisstjórnarinnar. Því er alveg ljóst, herra forseti, að orð hæstv. fjmrh. í þessum efnum um faglegheitin og ópólitíkina nægja ekki. Þau duga ansi skammt, enda er það ekki faglegt í eðli sínu, herra forseti, að taka verkefni sem löggjafarsamkoman hefur verið sammála um að sé einn af máttarstólpunum í þessu ríkiskerfi okkar þegar litið er á hinn efnahagslega og þjóðhagslega þátt. Það er ekki nema eðlilegt að fólki finnist hér illa að verki staðið þegar verkefnum hennar er stráð í allar áttir, tvístrað í a.m.k. fjóra ólíka staði og það nánast nærri án þess að hægt sé að segja að faglegur rökstuðningur fylgi.

Herra forseti. Það eru ekki vönduð vinnubrögð að afgreiða frv. á þennan hátt. Ég blæs sömuleiðis á fullyrðingu hæstv. fjmrh. frá því í umræðunum þegar hann fylgdi málinu úr hlaði, um að skynsamlegra væri að ljúka málinu hratt, eins og hann orðaði það, frekar en að láta þetta dankast eitthvað og bíða fram á næsta haust, því að þegar búið væri að taka ákvörðun um að framkvæma svona hlut væri auðvitað skynsamlegra að framkvæma hann hratt en að draga lappirnar við það. Herra forseti. Þetta eru nákvæmlega sömu rök og nú eru uppi varðandi Umhverfisstofnun, þ.e. fyrst við erum búin að taka ákvörðun um að leggja Náttúruvernd ríkisins og Hollustuvernd ríkisins niður þá vitum við að við erum búin að skapa mikið óöryggi hjá starfsfólkinu og þá er eins gott að við gerum þetta bara hratt.

Já, herra forseti. Auðvitað er miklu þægilegra að láta taka sig hratt af lífi heldur en hægt. Það gefur augaleið. Það þarf enga spekinga til að sjá það.

Herra forseti. Vinnubrögð af þessu tagi eru ekki boðleg vegna þess að þau sýna fólki sem á allan sinn starfsframa undir þessum stofnunum ekki þá virðingu sem tilhlýðilegt er að ríkisstjórn sýni því fólki sem hefur verið tryggt og dyggt, þjónað málefnum, lögbundnum verkefnum sinna stofnana af natni og alúð. Þetta fólk á annað skilið en þá framkomu sem ríkisstjórnin leyfir sér að sýna því.

[21:30]

Herra forseti. Í nál. minni hluta efh.- og viðskn. er sérstakur kafli um verkefni Þjóðhagsstofnunar. Með því athyglisverðasta í áliti minni hlutans er að mínu mati að þau verkefni sem hingað til hafa verið lögbundin við Þjóðhagsstofnun verða með þessari breytingu hvergi bundin í lög. Verkefnum sem Þjóðhagsstofnun hefur hingað til haft lagalega forsjá fyrir er hvergi fundinn staður í lögum með þessari breytingu. Í raun verður ekki tryggt að þessum verkefnum verði sinnt eða hver eigi að hafa þau með höndum. Það eiga bara að vera duttlungar ríkisstjórnarinnar hvert verkefnin lenda, hvort þetta eða hitt lendir hjá Hagstofunni eða hjá ASÍ og verður þá bara kylfa látin ráða kasti. Það er ekki til sóma þegar þannig er komið fram.

Sannarlega hefði átt, þó ekki hefði verið nema vegna starfsfólksins sem þekkir þessi verkefni manna best, hvernig þau eru greind og hvernig þau skiptast, hvernig þau eiga saman og heyra faglega til ákveðinna sviða, að hafa samráð við starfsfólk stofnunarinnar um það hvernig ætti að skipta upp verkefnunum svo best færi. En það skiptir engu máli fyrir ríkisstjórnina, að því er virðist, að hér sé þannig að málum staðið að sem best fari.

Það er líka athyglisvert að samkvæmt hugmyndum sem hafa verið uppi í umræðunni varðandi tilfærslu verkefnanna að ein stofnunin sem nefnd er til sögunnar er Hagfræðistofnun Háskóla Íslands. Það er alkunna að Hagfræðistofnun Háskóla Íslands tekur að sér verkefni fyrir ýmsa aðila. Við höfum fengið frá Hagfræðistofnun ýmsar skýrslur sem hafa verið unnar, t.d. fyrir Verslunarmannafélag Reykjavíkur og nú síðast fyrir nokkrum vikum öfluga skýrslu um möguleikann á að stytta nám til stúdentsprófs. Ég get alveg sagt það, herra forseti, að Verslunarmannafélag Reykjavíkur þurfti að borga fyrir þjónustuna. Ef alþingismenn eiga nú að fara að leita til Hagfræðistofnunar með hluti sem þeir hafa hingað til getað leitað með til Þjóðhagsstofnunar þá fá alþingismenn reikning fyrir þá þjónustu frá Hagfræðistofnun. Við skulum ekki ganga að því gruflandi að það er búið að innleiða þjónustugjöld inn í allt þetta kerfi þannig að alþingismenn koma ekkert til með að geta frekar en aðrir leitað til stofnunar af því tagi án þess að fyrir komi greiðsla.

Alþingismenn hafa hingað til getað leitað til Þjóðhagsstofnunar. Þar hefur erindum þingmanna verið sinnt af natni og alúð. Við höfum fengið greiða og skjóta afgreiðslu og góða þjónustu í hvívetna, svo hefur a.m.k. verið með þau erindi sem ég hef þurft að bera undir starfsmenn stofnunarinnar. En ég sé ekki að séð sé fyrir því að þingið eigi beina aðkomu að nokkurri stofnun í staðinn fyrir Þjóðhagsstofnun, verði hún lögð niður.

Þessi aðgerð þrengir á þann hátt, herra forseti, að lýðræðinu. Það er skelfing alvarlegt mál að þrengja að lýðræðinu á þann hátt sem hér er lagt til. Um þá umræðu sem fram fer um lýðræðið og eflingu þess blása í dag ferskir vindar og eðlilegt að fólk skoði með nýjum gleraugum hvernig við stöndum okkur, hvernig við stöndum vörð um lýðræðið. Ég fullyrði, herra forseti, að mál af því tagi sem hér um ræðir er ekki til þess fallið að styrkja lýðræðið, þvert á móti.

Ég hefði haldið að ef það hefði átt að vinna þetta mál faglega þá hefði í öllu falli þurft að gefa því meiri tíma og hafa samráð við starfsmenn stofnunarinnar. Það hefði þurft að ræða þetta betur á Alþingi og auðvitað hefði verið eðlilegt að leita til stjórnarandstöðuflokkanna í því efni. En nei, herra forseti, ekkert slíkt hefur verið gert, bara þjösnast áfram eins og ríkisstjórninni hentar og hvorki litið til hægri né vinstri. Að því er virðist hefur ASÍ, sem ekki hefur lýst andstöðu við frumvarpið, verið keypt til hlýðni, verið lofað verkefnum og þá trúlega fjármunum skyldi maður ætla, til að taka að sér einhver verk af Þjóðhagsstofnun. Það telur sig hafa fengið einhvers konar fyrirheit um stuðning til þess að efla sína eigin hagdeild.

Ég efast ekki um að þörf sé á að efla hagdeild ASÍ. En mér finnst ekki skynsamlegt af ríkisstjórninni að kaupa ASÍ til hlýðni við þetta frv. með því að lofa fjármunum í eflingu hagdeildarinnar. Mér finnst alveg sjálfsagt mál að heildarsamtök launafólks, hvort sem um er að ræða ASÍ, BSRB eða BHM, Kennarasambandið eða Samband bankamanna ef því er að skipta, eigi öflugar hagdeildir og geti reiknað út þá hluti sem þau telja sig þurfa að reikna út í tengslum við kjarasamninga. En mér finnst ekki að slíku eigi að blanda inn í mál af þessu tagi. Það eykur heldur ekki traust þjóðarinnar á þeirri stofnun sem við stöndum fyrir hér. Það má líka gagnrýna að eingöngu hafi verið haft, að því er virðist, samráð við þessi einu samtök launafólks en ekki önnur.

Herra forseti. Eins og ég segi hefur verið rakið hér í þessari umræðu margt sem hefði mátt fara betur í öllum þessum málatilbúnaði. Ég ítreka það bara að vinnubrögð af þessu tagi eru ríkisstjórn Davíðs Oddssonar ekki til sóma. Ég hefði talið ríkisstjórnina eða ráðherrana menn að meiri hefðu þeir getað nálgast þetta mál af meiri varfærni og meiri virðingu fyrir öllu því fólki sem gert hefur verið óöruggt með framlagningu þessa máls.