Þjóðhagsstofnun o.fl.

Fimmtudaginn 18. apríl 2002, kl. 21:38:41 (7822)

2002-04-18 21:38:41# 127. lþ. 122.1 fundur 709. mál: #A Þjóðhagsstofnun o.fl.# frv. 51/2002, KolH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 122. fundur, 127. lþ.

[21:38]

Kolbrún Halldórsdóttir (andsvar):

Herra forseti. Auðvitað er það alveg rétt hjá hæstv. ráðherra að þjónusta kostar eitthvað, sama hvaðan hún kemur. En það er orðhengilsháttur að halda því fram að þjónustan verði hin sama og hjá Þjóðhagsstofnun, sem hefur veitt Alþingi þjónustu hingað til án þess að þingmenn hafi fengið fyrir það rukkanir. Ég er að tala um þetta á þeim nótum. Ég veit alveg að við þingmenn fengjum rukkun ef við sendum erindi til Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands. Við höfum ekki neinn formlegan aðgang að Hagfræðistofnun en við höfum haft formlegan, greiðan og opinn aðgang að Þjóðhagsstofnun. Auðvitað veit ég að sú þjónusta er greidd úr ríkissjóði. Mér hefur fundist það sjálfsagt vegna þess að það styrkir okkur í okkar starfi. Það skiptir okkur máli sem erum að vinna þau störf sem hér eru unnin að við höfum stofnun af því tagi sem Þjóðhagsstofnun hefur verið. Hún hefur unnið okkur gagn, bæði stjórnarþingmönnum og stjórnarandstöðuþingmönnum. Ég kem til með að sakna hennar þó að ég hafi ekki oft þurft að leita til hennar. En ég hef hlustað, eins og ég segi, á fjölda erinda sem starfsmenn hennar hafa haldið. Hún hefur verið mér lyftistöng og stuðningur meðan ég hef verið að læra að feta mig hér á nýrri braut, braut stjórnmálanna. Ég verð að segja að mér finnst óöryggi í að vera búin að tapa henni.

Þess vegna finn ég kannski líka, ég get alveg viðurkennt það, til með því fólki sem nú horfir fram á ótrygga framtíð, þ.e. starfsmenn Þjóðhagsstofnunar. Ég hef náð því að kynnast þessu fólki persónulega, séð fyrir hvað það stendur, hversu vel það stendur sig í störfum sínum og hversu faglega það hefur nálgast verkefnin. Þess vegna rennur mér til rifja að sjá það hvernig menn nálgast þetta mál. Starfshópur sem getið er um í áliti fulltrúa starfsmannafélagsins, sem sent var til þingmanna 26. mars, samstarfshópurinn, telur að í engu hafi verið tekið tillit til sjónarmiða starfsfólks stofnunarinnar. Ég gagnrýni það með réttu, herra forseti.