Þjóðhagsstofnun o.fl.

Fimmtudaginn 18. apríl 2002, kl. 22:07:58 (7827)

2002-04-18 22:07:58# 127. lþ. 122.1 fundur 709. mál: #A Þjóðhagsstofnun o.fl.# frv. 51/2002, ÁRJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 122. fundur, 127. lþ.

[22:07]

Ásta R. Jóhannesdóttir (andsvar):

Herra forseti. Ég sé svo sem enga ástæðu til þess að hæstv. forsrh. sé að skipta sér af þeim stofnunum þó að þær heyri undir hann. En þær heyra engu að síður undir hann. (Forsrh.: Eins og Þjóðhagsstofnun, það er sama.) Eins og Þjóðhagsstofnun, það er alveg rétt. En þess vegna hafa menn auðvitað velt því fyrir sér hvort Þjóðhagsstofnun hefði kannski átt að verða enn þá sjálfstæðari en hún er í dag. (Forsrh.: Ég skipti mér aldrei af því hvernig stofnanir starfa.) Hún heyrir alla vega undir þetta ráðuneyti engu að síður og hefði kannski verið eðlilegra að hún heyrði t.d. undir Alþingi eða yrði sjálfstæðari en hún er í dag.

Þó svo að menn komi einu sinni í stofnun og forstjórinn sé ekki við þá segir það í rauninni ekkert um hlutina, maður þarf ekki að koma á staðina þó að maður skipti sér af þeim. En ég geri ekki ráð fyrir að hæstv. ráðherra sé að skipta sér af því. Engu að síður heyrir stofnunin undir ráðherra, undir framkvæmdarvaldið og það segir auðvitað ákveðna sögu að þetta heyri undir framkvæmdarvaldið. Þess vegna legg ég ríka áherslu á að Þjóðhagsstofnun hefði þurft að vera sjálfstæðari og ekki að heyra beint undir framkvæmdarvaldið. Þess vegna hefur verið bent á að það hefði e.t.v. verið ástæða til þess að hún heyrði undir þingið.