Þjóðhagsstofnun o.fl.

Fimmtudaginn 18. apríl 2002, kl. 22:09:25 (7828)

2002-04-18 22:09:25# 127. lþ. 122.1 fundur 709. mál: #A Þjóðhagsstofnun o.fl.# frv. 51/2002, JB
[prenta uppsett í dálka] 122. fundur, 127. lþ.

[22:09]

Jón Bjarnason:

Herra forseti. Frumvarp til laga um brottfall á lögum um Þjóðhagsstofnun og tengda þætti er hér til 2. umr. Það er að mínu viti afar eðlilegt að um málið sé mikil umræða og eðlilegt að allmargir þingmenn taki til máls og geri grein fyrir sjónarmiðum sínum varðandi málið.

Þjóðhagsstofnun og þau störf sem hún innir af hendi snerta með beinum hætti öll störf þingmanna og þau verkefni og ábyrgð sem þeim er falin. Á þeim vettvangi sem hún vinnur, þ.e. í sambandi við gagnaöflun, spár og skýrslugerðir sem lúta að efnahagsmálum eru mjög sérhæfðar greinar. Ekki er hægt að ætlast til þess að einstakir þingmenn séu með öll þau atriði á hverjum tíma á hraðbergi sem þar er fjallað um en eru engu að síður mikilvæg fyrir flestalla málavinnu í þinginu því það eru fyrst og síðast efnahagsmálin og ýmsar forsendur í þjóðarbúskapnum sem ráða áætlunum og væntingum bæði af hálfu Alþingis og ríkisstjórnar sem og fleiri aðila í þjóðfélaginu. Þess vegna er mjög eðlilegt að þetta sé rætt.

Ég er ekki talsmaður þess að staða einstakra stofnana eða einstakra verkefnaflokka sé eitthvað óumbreytanlegt fyrirbrigði, fjarri því. Ég tel einmitt afar mikilvægt að þjónustustofnanir og verkefnaflokkar aðlagi sig sem best að raunveruleikanum, að þeirri stöðu sem uppi er á hverjum tíma í þjóðfélaginu og séu ávallt í startholunum til þess að mæta kröfum og væntingum morgundagsins. Ég tel afar mikilvægt að þetta sé í rauninni innbyggt í stjórnsýslunni jafnt og í öðrum þáttum í samfélaginu, án þess þó að ég sé að leggja það til að menn eigi að flýta sér að klippa af fortíðina, fjarri því og alls ekki. Allt á þetta að eiga sína eðlilegu samfellu. En ekkert á að vera til bara einungis sjálfs sín vegna, það a.m.k. verða að vera mjög afmörkuð tilvik. Ég er almennt slíkrar skoðunar og þannig vildi ég nálgast það mál sem hér er til umræðu í örstuttu máli.

Ég held að við verðum í fyrsta lagi að skoða málið, verkefni Þjóðhagsstofnunar, út frá störfum og þörfum þingsins. Þinginu er afar mikilvægt að eiga traustan og góðan aðgang að hliðstæðum upplýsingum og Þjóðhagsstofnun hefur unnið og jafnvel mætti útvíkka þau enn frekar. Að mínu viti mætti Þjóðhagsstofnun, eins og hún er, færast miklu nær þinginu. Ég hefði talið að í þeirri uppstokkun sem núna er verið að leggja upp í varðandi Þjóðhagsstofnun ætti að fara nákvæmlega ofan í það hvaða verkefni hennar og þá annarra stofnana sem eru á vegum framkvæmdarvaldsins eða lúta framkvæmdarvaldinu og eru hluti af því, hvort sem það er frá Hagstofunni eða öðrum aðilum þar í því valdi, mætti færa beint undir þingið. Ýmis verkefni sem eru nú á vegum Þjóðhagsstofnunar ættu ekkert að vera þar en það er mikilvægt að önnur séu þar. Og ég held að mjög nauðsynlegt hefði verið að nálgast þetta frá þeim sjónarhóli.

[22:15]

Ég þekki þetta t.d. bara af mínum störfum í fjárln. Þetta er mjög umfangsmikill og flókinn málaflokkur og krefst mikillar sérfræðikunnáttu eða aðgangs að sérfræðikunnáttu. Hver einstakur þingmaður hefur engin tök á að leggja fullnægjandi og persónulega mat á allar forsendur og alla útreikninga sem þar eru lagðir til grundvallar í vinnu við fjárlagagerð og efnahagsáætlanir á vegum ríkisstjórnarinnar og á vegum Alþingis og þjóðarinnar allrar. Við höfum engin tök á að meta það þannig að við erum gjörsamlega og eðlilega háðir því að þær upplýsingar sem þaðan koma komi jafnvel að fyrra bragði því að oft veit maður ekki einu sinni hvað maður á að spyrja um eða hvernig maður á að nálgast hlutina. Þá er mjög mikilvægt að við eigum þar beinan aðgang að stofnun sem við vitum að heyrir undir okkur og sem við getum gert beinar kröfur til í krafti Alþingis til þess að fá þjónustu hjá, leiðsögn og upplýsingar.

Ég tel að frv. eins og það er lagt fyrir hér og sú vinna sem þar er lögð til grundvallar skili þessu ekki áfram. Hún setur málið hvað þetta varðar í uppnám eða það er óafgreitt og það tel ég hinn mikla veikleika þessa máls. Það getur ekki verið ætlun þeirra sem standa að frv., hæstv. forsrh. eða ríkisstjórnar, að strípa þingið eða að gera hina þinglegu vinnu óaðgengilegri. Ég hef enga trú á því að það sé tilgangurinn eða ætlunin og fjarri því. Engu að síður er þetta hlutverk að einhverju leyti sundrað og síðan fært frá þinginu. Talað er um að hluti af verkefnunum fari til hagsmunasamtaka. Gert er ráð fyrir því að hluti af verkefnunum fari til Seðlabanka. Gert er ráð fyrir því að hluti af verkefnunum fari til Hagstofu. Gott og vel, allir þessir aðilar eru í sjálfu sér faglega færir um að vinna þessa þætti. En að mínu viti eru þeir ekki með sama hætti aðgengilegir þinginu. Við göngum ekkert upp í Hagfræðistofnun Háskólans og fáum leiðsögn eða álit um efnahagslegar forsendur án þess að beðið sé um það, greitt fyrir það o.s.frv.

Ég vil í þessari umræðu draga athygli að þessu. Að að mínu viti er þingið of veikt gagnvart mjög sterku framkvæmdarvaldi, framkvæmdarvaldi sem hefur sterka tilhneigingu eðli málsins samkvæmt til þess að efla sitt eigið vald, innra vald. Það vald getur ekki eflst nema á kostnað einhvers annars og það er þá á kostnað valds þingsins. Þess vegna ber okkur að beita öllum okkar krafti í þá áttina að styrkja stöðu þingsins og það á þeim sviðum sem lúta að efnahags- og fjármálastjórn.

Nú starfar stofnun undir þinginu, Ríkisendurskoðun, sem hefur ákveðnu hlutverki að gegna. Hún hefur ekkert framkvæmdarvald í sjálfu sér en gegnir engu að síður afar trúnaðarmiklu starfi gagnvart þinginu í heild og gagnvart einstökum þingmönnum sem geta leitað til hennar um álitamál.

Sömuleiðis höfum við umboðsmann Alþingis sem reyndar snýr enn meir að hinum almenna borgara en heyrir engu að síður undir Alþingi og er trygging fyrir því að hinn almenni borgari, almenni íbúi þessa lands, eigi aðgang að ákveðnum stjórnsýslulegum úrlausnum beint á ábyrgð Alþingis án þess að þurfa að lúta þar ákvörðun framkvæmdarvaldsins. Þegar maður segir að lúta ákvörðun framkvæmdarvaldsins þá felst í því í sjálfu sér ekkert beint neikvætt, alls ekki. En í því felst að okkur er mjög mikilvægt að hafa þarna tvíþætta nálgun.

Þingmenn Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs hafa hér áður vakið athygli á till. til þál. sem þeir hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon og Ögmundur Jónasson hafa flutt um endurskoðun á starfsemi og stöðu Þjóðhagsstofnunar. Þar er lagt til að Alþingi setji á fót nefnd til að gera úttekt á starfsemi Þjóðhagsstofnunar og síðan að í framhaldi af því verði teknar ákvarðanir eða gerðar tillögur um hver skuli vera sjálfstæð staða Alþingis og sjálfstæðir möguleikar til þess að höndla þau mál sem þarna eru á ferðinni. Þetta tel ég, virðulegi forseti, hina réttu nálgun málsins.

Ég ítreka að ég ber fulla virðingu fyrir því að stjórnvöld, Alþingi og ríkisstjórn, séu stöðugt vakandi fyrir því að stofnanir og verkefni á vegum ráðuneyta séu ekki til sjálfs sín vegna. Þá er ég ekki að segja að Þjóðhagsstofnun sé þar á meðal, alls ekki, en bara að hugmyndafræðilega séð eigi það ekki að vera þannig heldur eigi að skoða stöðugt stöðu mála af gaumgæfni og láta Alþingi, láta lýðræðið vera í fyrirrúmi, rétt þess, stöðu og möguleika, láta það ávallt vera fyrir stafni. En leiki vafi á hvort ráðslag sé til eflingar þinginu og þingræðinu þá á að láta þingið njóta þess vafa.

Virðulegi forseti. Ég vil sem þingmaður með ekki mjög mikla þingreynslu --- þó hef ég verið á þingi í nærri þrjú ár --- láta þá skoðun í ljós að ég tel að þessa þætti sem ég hef hér rakið þurfi að styrkja á vegum þingsins. En þau spor sem hér er verið að stíga eru ekki endilega ígrunduð fyllilega með það fyrir augum að mínu mati. Í þetta hefði átt að leggja miklu víðtækari vinnu og skilgreina hvað þingið væri sammála um eða legði áherslu á að heyrði beint undir þingið og hvaða þættir í því starfi sem Þjóðhagsstofnun vinnur að nú gætu farið til annarra aðila í þjóðfélaginu þannig að vel væri þó fyrir séð.

Virðulegi forseti. Ég tel að þetta mál ætti að vinnast eins og ég hef hér sagt. Ég ítreka og legg áherslu á að meiri hluti Alþingis og hæstv. forsrh. taki þessi mál til skoðunar og kanni hvort ekki megi hægja aðeins á ferðinni þannig að meiri sátt verði um frv. í þinginu, því að þau verkefni sem við erum að fjalla um hér snúa að þinginu fyrst og fremst og mikilvægt er að sátt sé um það, sú mögulega sátt sem unnt er að ná gagnvart þinginu.