Þjóðhagsstofnun o.fl.

Fimmtudaginn 18. apríl 2002, kl. 23:36:31 (7842)

2002-04-18 23:36:31# 127. lþ. 122.1 fundur 709. mál: #A Þjóðhagsstofnun o.fl.# frv. 51/2002, EMS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 122. fundur, 127. lþ.

[23:36]

Einar Már Sigurðarson (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. forsrh. fyrir upplýsingarnar.

Það er rétt hjá hæstv. ráðherra að fyrir 12 árum var Framsfl. í forsæti og var þar af leiðandi með ráðherra yfir Þjóðhagsstofnun. Þetta var, eins og hæstv. ráðherra sagði, til þess að tengja okkur við það að Framsfl. hefur verið þessarar skoðunar býsna lengi. Það hefur því verið eitthvað annað sem olli þeim vanda að þetta mál kom nú ekki fram á þinginu fyrr en rétt undir lokin og þurfti að fá sérstaka meðhöndlun hér til þess að komast á dagskrá.

Það er rétt hjá hæstv. ráðherra að Hagfræðistofnun Háskólans hefur verið notuð til þess að leggja mat á ýmsar upplýsingar og ýmsa þætti og ég trúi því að hún sé mjög vel nothæf til þess. Ég geri ráð fyrir því að flest reiknilíkönin sem til staðar eru séu einföld forrit flest hver. En það er augljóst að önnur þeirra hafa sérstaklega verið þróuð í Þjóðhagsstofnun og ég geri ráð fyrir að flest þeirra flóknustu fari til efnahagsskrifstofu fjármálaráðuneytisins.

En þá kemur einmitt að þeim þætti sem við höfum mörg hver vakið athygli á, þ.e. því að okkur sem t.d. störfum í fjárln. og þurfum að leggja mat á forsendur fjárlaga hefur auðvitað þótt kostur að fjármálaráðuneytið hafi verið með sitt mat að hluta til og síðan Þjóðhagsstofnun með annað. Það eykur eða bætir, skulum við vona, störf nefndarinnar ef menn hafa svona örlítið mismunandi sjónarhorn á málin og mismunandi áherslur til þess að skoða. Þess vegna gætum við þurft á því að halda ýmist að stofna hér hagsvið eða að leita til annarra stofnana með þessa þætti. Ég útiloka auðvitað ekki að Hagfræðistofnun Háskólans gæti komið þarna að góðum notum.

En það sem veldur manni hins vegar undrun enn og aftur er að hagræðinguna virðist skorta í þessar hugmyndir.