Þjóðhagsstofnun o.fl.

Fimmtudaginn 18. apríl 2002, kl. 23:40:29 (7844)

2002-04-18 23:40:29# 127. lþ. 122.1 fundur 709. mál: #A Þjóðhagsstofnun o.fl.# frv. 51/2002, EMS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 122. fundur, 127. lþ.

[23:40]

Einar Már Sigurðarson (andsvar):

Herra forseti. Ég ætla ekki að gera lítið úr þeim sérfræðingum sem hæstv. forsrh. fékk til þeirra verka sem við sjáum nú í því frv. sem hér er til umræðu. En ég vek athygli á því að ekki er annað skilja á ýmsum gögnum sem við höfum fengið um málið en að þessir sérfræðingar hafi fengið alveg hreint og klárt verkefni, þ.e. að verkefnið hafi verið það að leggja niður Þjóðhagsstofnun. Það hafi í raun enginn annar möguleiki verið í stöðunni. Það hafi ekki verið léð máls á því að horfa til neinna annarra möguleika. Ég held að það sé því út af fyrir sig rétt hjá hæstv. ráðherra að hugsanlega hafi verið vandfundnir, a.m.k. innan kerfisins hjá okkur, menn sem betur þekktu til þeirra verka, þ.e. að leggja niður Þjóðhagsstofnun.

Ég var að reyna áðan að vekja athygli á því að hugsanlega hefði verið nær að nálgast málið örlítið víðara, gefa sér sem sagt ekki niðurstöðuna fyrir fram heldur að hugsanlegt væri þess vegna að sameina fleiri þætti, ef það hefði verið niðurstaða, og ná þar af leiðandi fram enn meiri hagræðingu sem ég reyndar leyfi mér enn að efast um, þrátt fyrir orð hæstv. ráðherra, að verði svo mikil þó að fram liði, af þeirri einföldu ástæðu að það eru bara svo margir lausir endar í frv. enn sem við eigum eftir að sjá hvernig verða leystir. Ég er hræddur um að það muni að öllum líkindum kalla á aukinn kostnað.

Ég er því hræddur um að hagræðingin verði ekki mikil. En það er vonandi að menn verði sælli sem starfa undir þessu fyrirkomulagi en áður og auðvitað er mest um vert að við náum árangri í efnahagsmálunum. Ef þetta verður til þess, þó svo það kosti meiri peninga, að ná meiri árangri þá skilar það sér væntanlega þá leiðina og þá getum við vonandi til lengri tíma talað um hagræðingu í þjóðarbúskapnum.