Ávísanir á ávanabindandi lyf

Föstudaginn 19. apríl 2002, kl. 10:40:29 (7847)

2002-04-19 10:40:29# 127. lþ. 123.96 fundur 528#B ávísanir á ávanabindandi lyf# (umræður utan dagskrár), heilbrrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 123. fundur, 127. lþ.

[10:40]

Heilbrigðisráðherra (Jón Kristjánsson):

Herra forseti. Undanfarna daga hefur átt sér stað mikil umræða í samfélaginu um ávísanir lækna á ávana- og fíknilyf á þá leið að ákveðinn hópur lækna, jafnvel margir innan ákveðinnar sérgreinar, ávísi slíkum lyfjum ótæpilega. Í því sambandi hefur heilbrigðiskerfið og eftirlitskerfið einnig komið inn í umræðuna og hafa komið fram fullyrðingar um að eftirlit með ávísunum lækna á lyf sé ekki gott. Sú gagnrýni hefur þá einkum beinst að landlæknisembættinu og Lyfjastofnun.

Landlæknisembættið kannar þessa dagana sannleiksgildi framangreindra ásakana og eins og fyrr segir beinast þær gegn ákveðnum hópi lækna og því eftirlitskerfi sem er með ávísunum lækna á ávana- og fíknilyf. Sú vinna stendur yfir og ég vonast eindregið til að þau mál skýrist næstu daga.

Spurt er í hve mörgum tilvikum landlæknisembættið hafi fengið ábendingar um óeðlilegar lyfjaávísanir lækna á síðustu fimm árum. Samkvæmt læknalögum tilkynnir Lyfjastofnun landlækni telji hún rökstudda ástæðu til eftirlits með ávísunum læknis á ávana- og fíknilyf. Að öðru leyti berast ábendingar til landlæknis frá einstaklingum í samfélaginu. Ýmist eru þær ábendingar á þann hátt að grunur leiki á að einstaklingar leiti til margra lækna í þeim tilgangi að fá ávísanir á ávana- og fíknilyf en sjaldnar berast ábendingar sem beinlínis eru þess eðlis að ákveðinn læknir ávísi ótæpilega á framangreind lyf. Þar sem um er að ræða viðkvæmar persónuupplýsingar hefur landlæknisembættið ekki leyfi til að varðveita þær upplýsngar sem frá Lyfjastofnun berast þannig að nokkuð er óhægt um vik að gefa upp nákvæma tölu í því sambandi.

Ég hef lagt til að heimild landlæknis til varðveislu viðkvæmra persónuupplýsinga verði skoðuð sérstaklega og að sú endurskoðun fari fram í samráði við Persónuvernd og innan ramma laga um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga. Tilvik geta einnig snúist um fjölda einstaklinga sem hafa fengið ávísun á ávana- og fíknilyf, fjölda lækna sem hafa skrifað á slík lyf og fjölda samskipta. Hjá landlæknisembættinu er ekki til skrá yfir fjölda einstaklinga eða fjölda samskipta þeirra við lækna.

Á síðustu tveimur árum munu mál um tíu lækna hafa verið til skoðunar hjá landlæknisembættinu vegna ávísana á ávana- og fíknilyf og spurt er í hve mörgum tilvikum ábendingar leiddu til ítarlegrar athugunar landlæknisembættisins á lyfjaávísunum lækna. Nokkir læknanna hafa oftar en einu sinni verið í ítarlegri athugun.

Spurt er í hve mörgum tilvikum athugun landlæknis leiddi til aðgerða. Það eru ekki til tölur um hve oft var gripið til tiltals en áminningu var beitt nokkrum sinnum og var hún þá oftast undanfari leyfissviptingar sem munu vera fjórar á undanförnum tveimur árum. Svo vill til að í öllum þeim tilvikum var um misnotkun læknanna sjálfra að ræða.

Spurt er hvort eitthvað af þessum málum hafi verið meðhöndlað sem sakamál. Í tveimur af þeim tilvikum voru málin meðhöndluð sem sakamál að frumkvæði landlæknis. Annað endaði með dómi en hitt var fellt niður á rannsóknarstigi.

Herra forseti. Að síðustu er spurt hvort ráðherra muni beita sér fyrir hertum reglum, harðari refsingum og skilvirkara eftirlitskerfi með ávísunum lækna á ávanabindandi lyf. Ef svo er, hvernig og hvenær megi þá vænta þeirra úrbóta.

Samkvæmt 19. og 20. gr. læknalaga, nr. 53/1988, má svipta lækni leyfi til að ávísa lyfjum, öllum eða einstökum flokkum lyfja. Ferill slíkra mála samkvæmt lögum er sá að Lyfjastofnun ber að tilkynna landlækni ef rökstudd ástæða þykir vera til eftirlits með ávísun læknis á ávana- og fíknilyf. Telji landlæknir að læknir hafi ávísað óhæfilegu magni lyfja leggur landlæknir málið til ráðherra sem þá er heimilt að svipta lækninn leyfi til að ávísa lyfjum, öllum eða einstökum flokkum. Í alvarlegri tilvikum má svipta lækni lækningaleyfi að fullu. Samkvæmt framangreindu tel ég að nægilegar lagaheimildir séu til í læknalögum til að svipta lækna rétti til að ávísa lyfjum. Um harðari refsingar er það að segja að auk sviptingar réttinda er í læknalögum ákvæði um allt að tveggja ára fangelsi. Þó skal ekki dæmt um það hér hvort þau ákvæði séu nógu ströng.

Um skilvirkara eftirlitskerfi með ávísunum lækna er það að segja að ég hef nú þegar ritað Lyfjastofnun og landlæknisembættinu bréf þar sem ég beini þeim tilmælum til þeirra að tekið verði upp hert eftirlit með óeðlilegum lyfjaávísunum lækna. Mælst er til að þetta verði gert með endurskoðun verkferla innan embættanna varðandi slík mál og skoðaður verði sá möguleiki að taka á ný upp sérstök lyfjakort eins og voru við lýði þar til um mitt síðasta ár. Ég geri ráð fyrir að slík endurskoðun verkferla og upptaka lyfjakorta ætti að taka tiltölulega skamman tíma og hef ég gefið framangreindum stofnunum frest til 26. apríl til að gera tillögur í málinu.