Ávísanir á ávanabindandi lyf

Föstudaginn 19. apríl 2002, kl. 10:47:54 (7849)

2002-04-19 10:47:54# 127. lþ. 123.96 fundur 528#B ávísanir á ávanabindandi lyf# (umræður utan dagskrár), KF
[prenta uppsett í dálka] 123. fundur, 127. lþ.

[10:47]

Katrín Fjeldsted:

Herra forseti. Ávani og fíkn eru erfiður kross að bera, ekki síst fyrir aðstandendur sem horfa upp á ástvini verða sjúkdómi þessum að bráð og þurfa stærri og stærri skammta til á ná sömu áhrifum og áður. Undanfarna daga hefur nokkuð borið á umræðu um vandamál slíkra sjúklinga, einkum þeirra sem nota morfínlyf. Þá hefur verið fjallað nokkuð um ávísanir lækna á ávanabindandi lyf og gefið í skyn að þar sé pottur brotinn.

Gengið er út frá því að þeir læknar sem upp á ávanabindandi lyf skrifa geri það af annarlegum hvötum og til að hagnast á því sjálfir. Margir sjúklingar þarfnast sterkra verkjalyfja vegna sjúkdóma sinna og verður að gæta þess að þeir sem á þurfa að halda geti fengið þau og má nefna suma krabbameinssjúklinga sem dæmi.

Herra forseti. Miklu skiptir að átta sig á því að læknir hagnast ekki á lyfseðlaskriftum því lyfseðill er innifalinn í viðtali við lækni. Sala lyfseðils er því óheimil og ólögleg. Margir fíkniefnaneytendur sækjast eftir lyfjum af ýmsu tagi, bæði lyfseðilsskyldum og handkaupalyfjum. Eins og flestir vita er hægt að kaupa litla skammta af sterkum verkjalyfjum án lyfseðils í lyfjabúðum. Þau lyf sem mest er sóst eftir hjá læknum eru af morfínættinni en einnig er fjöldi annarra lyfja misnotaður og fara fíklar gjarnan milli lækna.

Ég ræddi í gær við Sigurbjörn Sveinsson, formann Læknafélags Íslands, en stjórn félagsins fundaði sl. þriðjudag með aðstoðarlandlækni og lækni á Vogi. Niðurstaða fundarins varð sú að mæla með að haldið yrði enn betur utan um þennan málaflokk og lögð til fimm atriði sem munu berast ráðherra á næstunni en það er í fyrsta lagi að stofnuð verði afeitrunarmiðstöð eða ,,methadone clinic`` sem svo er kölluð. Í öðru lagi að verkjateymi á Landspítala -- háskólasjúkrahúsi verði styrkt. Í þriðja lagi að eftirlit landlæknisembættisins verði styrkt. Í fjórða lagi að eftirlit með lyfseðlum verði aukið og athuga þarf þó hlut Persónuverndar og kröfu um að eyða lyfseðlum. Í fimmta lagi að koma á lyfjakortum eins og hæstv. ráðherra minntist á áðan.