Ávísanir á ávanabindandi lyf

Föstudaginn 19. apríl 2002, kl. 10:56:54 (7853)

2002-04-19 10:56:54# 127. lþ. 123.96 fundur 528#B ávísanir á ávanabindandi lyf# (umræður utan dagskrár), ÁRJ
[prenta uppsett í dálka] 123. fundur, 127. lþ.

[10:56]

Ásta R. Jóhannesdóttir:

Herra forseti. Ég fagna þeirri umræðu sem hér fer fram og í þjóðfélaginu um þá meinsemd sem fíkniefnabölið er og þáttur lækna í því. Umræðan verður vonandi til þess að brugðist verði við og þeir læknar sem hafa stundað þá iðju að ávísa lyfjum til fíkla verði stöðvaðir og þeir látnir sæta ábyrgð. Þetta framferði samrýmist ekki læknalögum, það er lögbrot. Þessir læknar eru ekki að lækna neinn heldur að eyðileggja líf fólks og heilsu, bæði fíklanna og aðstandenda þeirra.

Samkvæmt læknalögum ber læknir ábyrgð á meðferð þeirra sem til hans leita. Ávísun á 920 morfíntöflur á þrem mánuðum til sama einstaklings, um tíu töflur á dag en tvær eru lífshættulegar venjulegu fólki --- ættu ekki einhverjar viðvörunarbjöllur að hringja í kerfinu? Hvernig stendur á því að sömu fimm til sex læknarnir hafa óáreittir getað haldið fíklum í lyfjaáskrift eins og komið hefur fram í máli lækna SÁÁ.

Ljóst er að landlæknir verður að fá þær heimildir og þá fjármuni sem þarf til að taka með afgerandi hætti á þessum málum. Það er hlutverk hans og Lyfjastofnunar að sinna því eftirliti og það eftirlit verður að vera virkt. Í svörum hæstv. ráðherra kom fram að vinna stendur yfir hjá landlæknisembættinu við að kanna sannleiksgildi fullyrðinga um brot lækna. En einnig er ljóst af svörum hæstv. ráðherra að þörf er á frekari gagnasöfnun hjá landlækni.

Að síðustu, herra forseti, vil ég fagna því bréfi sem hæstv. ráðherra hefur sent til landlæknis og Lyfjastofnunar þar sem kemur fram krafa um hert eftirlit. Við verðum að stöðva nú þegar þessa misnotkun á heilbrigðiskerfi okkar.