Ávísanir á ávanabindandi lyf

Föstudaginn 19. apríl 2002, kl. 11:01:06 (7855)

2002-04-19 11:01:06# 127. lþ. 123.96 fundur 528#B ávísanir á ávanabindandi lyf# (umræður utan dagskrár), heilbrrh.
[prenta uppsett í dálka] 123. fundur, 127. lþ.

[11:01]

Heilbrigðisráðherra (Jón Kristjánsson):

Herra forseti. Ég þakka hv. fyrirspyrjanda fyrir að vekja upp þetta alvarlega mál í utandagskrárumræðu. Ég þakka málefnalega umræðu um þetta viðkvæma og alvarlega mál.

Ég vil endurtaka það sem kom fram í fyrri ræðu minni, að ég vil vinda bráðan bug að því að fara yfir öll eftirlitsferli varðandi þetta mál. Það er nauðsynlegt og það er ekki síst, eins og fram hefur komið, nauðsynlegt vegna læknastéttarinnar í landinu sem hefur mikla raun af þessu máli, raun af þessari umræðu. Ég ber fullt traust til læknastéttarinnar þó ekki sé hægt að útiloka að einhverjir lendi í ógæfu í þeirri stétt. En eftirlitskerfið verður að vera fullnægjandi fyrir læknastéttina í landinu og fyrir okkur hin.

Ég hef reynt að leggja í það nokkra vinnu undanfarna daga að setja mig inn í þetta mál. Ég hef kallað á þá aðila sem þarna eiga hlut að máli og ég hef átt viðræður við aðstandendur þeirra sem hafa lent í þessari ógæfu og átt persónulegar viðræður við fólk sem hefur lent í þessari ógæfu. Það er mjög gagnlegt að eiga slíkar viðræður um það til hvers þessi lyfjaneysla getur leitt. Þær viðræður eru mjög alvarlegar. Við megum einskis láta ófreistað í að berjast gegn þessu máli. Ein hliðin á málinu er meðferðarstofnanirnar eins og kom hér fram. (Forseti hringir.) Ég vil enda með því að segja að ég vil leita allra ráða til þess að stemma stigu við jafnalvarlegum málum og hér hafa verið nefnd (Forseti hringir.) og efla landlæknisembættið til þess þó að það hafi verið eflt mjög á undanförnum árum.