2002-04-19 11:51:54# 127. lþ. 123.7 fundur 684. mál: #A aðild að Kyoto-bókun við rammasamning Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar# þál. 13/127, Frsm. SAÞ (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 123. fundur, 127. lþ.

[11:51]

Frsm. utanrmn. (Sigríður A. Þórðardóttir):

Herra forseti. Ég mæli fyrir nál. um till. til þál. um aðild að Kyoto-bókun við rammasamning Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar frá utanrmn.

Með tillögunni er leitað heimildar Alþingis til þess að Ísland gerist aðili að Kyoto-bókun við rammasamning Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar frá 9. maí 1992 sem gerð var 10. desember 1997.

Markmið Kyoto-bókunarinnar er að minnka útstreymi gróðurhúsalofttegunda og kveður bókunin á um að aðildarríkin skuli draga úr útstreymi tiltekinna gróðurhúsalofttegunda, miðað við útstreymi eins og það var árið 1990, á skilgreindum tímabilum. Fyrsta skuldbindingartímabilið er fimm ár, 2008--2012, og verða þau ríki sem getið er í I. viðauka við rammasamninginn að takmarka sameiginlega og hvert um sig útstreymi þeirra gróðurhúsalofttegunda sem skráðar eru í viðauka A við bókunina þannig að samanlagt árlegt útstreymi þeirra á fyrsta skuldbindingartímabilinu verði að meðaltali 5,2% minna en viðmiðunarárið 1990.

Umhverfisráðuneytið telur að aðild Íslands að bókuninni kalli ekki á lagabreytingar hér á landi.

Nefndin leggur til að tillagan verði samþykkt.

Rannveig Guðmundsdóttir, Þórunn Sveinbjarnardóttir og Þuríður Backman rita undir álitið með fyrirvara.