2002-04-19 11:57:15# 127. lþ. 123.7 fundur 684. mál: #A aðild að Kyoto-bókun við rammasamning Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar# þál. 13/127, KolH
[prenta uppsett í dálka] 123. fundur, 127. lþ.

[11:57]

Kolbrún Halldórsdóttir:

Herra forseti. Um þetta mál gildir margt það sama og sagt var um till. til þál. um fullgildingu Stokkhólmssamningsins um þrávirk lífræn efni. Í grundvallaratriðum ber auðvitað að fagna því hástöfum að ríkisstjórn Íslands skuli nú ætla að fullgilda Kyoto-bókunina við rammasamning Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar. Það er grundvallaratriði í málinu og ég held að allir hv. þm. geti tekið undir það og staðið saman um það að Ísland standi sig nú vel í þessum málum.

En stendur Ísland sig vel? Það er auðvitað skuggi á þessa gjörð hér að Ísland hefur síðan í Kyoto 1997 barist af miklu afli fyrir því að Ísland fái notið þess sem stjórnvöld hafa kallað ,,sérstöðu`` sinnar. Og hver er sérstaða Íslands í þessum málum? Jú, hagkerfið er afar smátt og það sem stjórnvöld hafa verið að reyna að fara fram á eru undanþágur frá losunarmarkmiðunum hvað varðar stóriðjuverkefni.

Herra forseti. Ef við ætlum að standa í alvöru saman um að minnka áhrif eða losun gróðurhúsalofttegunda og áhrif gróðurhúsalofttegundanna á lofthjúp og lífkerfi jarðarinnar, þá þurfum við auðvitað að gangast undir einhverja ábyrgð en ekki að fljóta í gegn á undanþáguákvæðum. Íslensk stjórnvöld hafa því ekki borið höfuðið hátt í þessu ferli öllu sem hefur nú staðið síðan 1997 má segja, þar sem íslensk stjórnvöld hafa á öllum aðildarríkjafundum reynt að koma þessu íslenska ákvæði sínu inn í umræðuna. Lengi vel var það saltað og lítið um það rætt en á lokasprettinum, eins og kunnugt er, í Bonn og síðan í Marrakesh var allt afl íslenskra stjórnvalda sett í undanþáguákvæðin og að endingu fóru þau í gegn.

Frá hverju erum við þá að fá undanþágu? Jú, við ætlum að heimila losun gróðurhúsalofttegunda út í andrúmsloftið frá allri stóriðju sem bæst hefur við á Íslandi frá 1990 auk nokkurra risastórra verkefna sem eru í farvatninu eða á óskalista stjórnvalda og tilheyra atvinnustefnu íslensku ríkisstjórnarinnar.

Herra forseti. Ég fullyrði héðan úr þessum ræðustóli í tengslum við þessa umræðu að atvinnustefna íslensku ríkisstjórnarinnar er stórhættuleg hvað varðar losun þessara efna út í andrúmsloftið, því að atvinnustefnan er slík að stóriðju skuli byggja sem víðast, sem stærst verkefni komi og öflugir menn úr íslenska atvinnulífinu eru sendir út í heim til að leita að stóriðjurisum til að lokka til landsins.

[12:00]

Herra forseti. Ég tel kröftum íslenskra stjórnvalda betur varið til annarra hluta, til hluta á borð við þá að efla í alvöru atvinnumál og atvinnustefnu sem getur verið umhverfisvæn, atvinnustefnu sem útheimtir ekki þá gífurlegu losun sem stóriðjan og málmbræðslan öll útheimtir.

Herra forseti. Ég tel því að framganga íslenskra stjórnvalda í þessu máli hafi verið lágkúruleg og við ættum sem ein af ríkustu þjóðum heims að geta tekið á okkur meiri ábyrgð og meiri skuldbindingar en hér er verið að gera. Við ætlum að fljóta hér í gegn á undanþáguákvæðum, og herra forseti, mér finnst það ekki vera okkur til sóma. Mér finnst það bera vott um leti, sljóleika og slugs. Slíkir eiginleikar eru ekki til sóma fyrir þjóð sem þykist vilja standa sig vel í umhverfismálum í orði kveðnu.

Af því að við vorum áðan að ræða losun þrávirkra lífrænna efna út í lífkerfið, herra forseti, og á það var bent í þeirri umræðu að stjórnvöld hefðu gengið þar á undan með góðu fordæmi og átt ákveðið frumkvæði þá verður að segjast eins og er að orð eru til alls fyrst en þau draga ekki nema hálft hlass. Á Íslandi hafa þessar yfirlýsingar stjórnvalda dregið afskaplega létt hlass og í sumum tilfellum, eins og t.d. er varðar undanþáguákvæðin í Kyoto, ekkert hlass. Það er gagnrýnivert.

Á Íslandi eru enn opnar sorpbrennslur sem spúa eiturgufum út í loftið sem bannaðar verða samkvæmt Stokkhólmssamningnum. Á Íslandi er ekki enn krafist bestu fáanlegu tækni við losun frá stóriðju. Það var mjög mikið gagnrýnt þegar Reyðarál kom fram með matsskýrslu sína í sumar sem leið að rafskautaverksmiðjan sem þar átti að setja á stofn krafðist ekki bestu fáanlegu tækni. Hún krafðist tækni sem búið var að betrumbæta og er búið að betrumbæta. Samt setja íslensk stjórnvöld í undanþáguákvæðið í Kyoto-samningnum skuldbindingu um að besta fáanlega tækni skuli notuð. Þess vegna segi ég: Orð á blaði segja ekkert ef eftirfylgnin er í skötulíki og á þann veg sem íslensk stjórnvöld virðast ætla að keyra sína eftirfylgni.

Ég gagnrýni það að menn geti slegið hér um sig með fögrum fyrirheitum ef ekki á að fara eftir þeim. Ef íslensk stjórnvöld vilja í alvöru efla umhverfisvernd og standa undir ábyrgð sinni á heimsvísu hvað varðar losun gróðurhúsalofttegunda þá eiga íslensk stjórnvöld að setja fram umhverfisvæna atvinnustefnu. Það er grundvallaratriði í málinu. Hvernig eiga íslensk stjórnvöld að gera það? Til að byrja með eiga þau að skoða orkustefnuna sína. Hvernig er íslensk orkustefna? Íslendingar og íslensk stjórnvöld hafa sett sig á háan hest eða hreykt sér af því að vera að nýta vistvæna orkugjafa.

Herra forseti. Náttúruverndarsamtök víða um heim, og reyndar ekki bara náttúruverndarsamtök heldur jafnvel stjórnvöld, hafa verið að leiða það fram í dagsljósið í auknum mæli upp á síðkastið að virkjanir af tagi Kárahnjúkavirkjunar eru ekki þess eðlis að þær nýti vistvæna orkugjafa á endurnýjanlegan hátt. Þær eru ósjálfbærar og flokkast þess vegna ekki undir bestu mögulegu aðferðir. Kannski eru þessar virkjanir alls ekki sjálfbærar.

Hvað erum við þá að segja hér? Erum við að segja eitt og gera annað? Ég tel að það þurfi að skoða. Þess vegna hvet ég íslensk stjórnvöld, og hef gert frá því að þessi mál fór að bera á góma í þingsölum, til þess að hér verði orkustefnan skoðuð og að hún verði í alvöru sjálfbær og standi í alvöru undir þeim merkjum sem orð stjórnvalda gefa tilefni til.

Herra forseti. Íslensk stjórnvöld gætu t.d. barist fyrir auknum rannsóknum á vindorku og möguleika á nýtingu vindorku á Íslandi. Það hefur verið sagt í orði kveðnu að slíkt vilji stjórnvöld gera. Stjórnvöld hafa líka sagt og jafnvel meira en í orði kveðnu að þau vilji efna til vetnisvæðingar á Íslandi og þau hafa sagt að þau vilji að Ísland verði fyrsta vetnisvædda samfélagið á jörðinni. Allt er þetta góðra gjalda vert, herra forseti. En það er ekki nægilega trúverðugt þegar eitt er sagt og annað framkvæmt. Ísland getur ekki bæði geymt kökuna og étið hana, ekki frekar en nokkrir aðrir geta slíkt. En það er einmitt tilraun til þess sem lýsir sér í íslenska undanþáguákvæðinu við Kyoto-bókunina. Það verður ekki bæði sleppt og haldið. Ef íslensk stjórnvöld ætla sér að vera til fyrirmyndar í samfélagi þjóðanna ber íslenskum stjórnvöldum að láta af stóriðjustefnu sinni, af orkugræðgi sinni, af neikvæðri nýtingu náttúruauðlindanna á hálendinu og fara að berjast fyrir vistvænni orkustefnu þar sem vindorka, sólarorka, virkjun sjávarstraumanna í úthafinu eru skoðaðar. Við þurfum meira en fögur orð. Við þurfum trúverðugar aðgerðir. Íslensk stjórnvöld verða ekki trúverðug varðandi umhverfisstefnu ef þau ætla að halda áfram að þjösnast svona áfram í stóriðjustefnu sinni og virkjanastefnu þar sem ákvarðanir eru teknar sem stríða gegn hugmyndafræðinni sem iðnvæddar þjóðir í veröldinni ætluðu sér að standa saman um með samkomulaginu í Kyoto.