2002-04-19 12:07:48# 127. lþ. 123.7 fundur 684. mál: #A aðild að Kyoto-bókun við rammasamning Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar# þál. 13/127, KolH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 123. fundur, 127. lþ.

[12:07]

Kolbrún Halldórsdóttir (andsvar):

Herra forseti. Íslendingar standa sig ekki betur en aðrar þjóðir í Evrópu hvað varðar losun gróðurhúsalofttegunda. Í dag losa Íslendingar nokkurn veginn það sama og meðaltalið er í Evrópusambandinu. Íslendingar standa sem sagt jafnfætis Evrópubúum í losun gróðurhúsalofttegunda. Það er rangt að við stöndum feti framar í þeim efnum.

Ef við höldum áfram á þeirri braut sem við erum á núna þá erum við að auka losunina gífurlega með þeim stóriðjuframkvæmdum sem ríkisstjórnin ætlar sér út í. Og hvar stöndum við þá? Ekki lækkar þá hlutfall losunarinnar á hvern íbúa á Íslandi. Nei, herra forseti. Það hækkar og það hækkar gífurlega vegna þess að verkefnin eru af þeirri stærðargráðu að þau eru í yfirstærð miðað við hagkerfið og miðað við fjölda einstaklinga sem heyra til þessari þjóð.

Herra forseti. Hv. þm. segir að það sé skylda íslenskra stjórnvalda að gæta atvinnuhagsmuna Íslendinga. Ég skal svo sem alveg fallast á það. En hverjir eru þeir hagsmunir? Kannski eru hagsmunirnir bara rangir. Kannski stríða hagsmunirnir, sem íslensk stjórnvöld eru að verja, gegn hugmyndafræðinni sem vestræn ríki eru að reyna að koma sér saman um. Það er mín kenning. Við gætum staðið vörð um hagsmuni sem væru af öðrum toga. Von mín er sú að íslensk stjórnvöld veldu sér umhverfisvænni stefnu og þau mundu þá standa saman um þá hagsmuni sem slík stefna fæli í sér.