Almannatryggingar o.fl.

Föstudaginn 19. apríl 2002, kl. 12:26:12 (7883)

2002-04-19 12:26:12# 127. lþ. 123.9 fundur 359. mál: #A almannatryggingar o.fl.# (tekjuhugtak, bótaútreikningur o.fl.) frv. 74/2002, ÞBack
[prenta uppsett í dálka] 123. fundur, 127. lþ.

[12:26]

Þuríður Backman:

Herra forseti. Við fjöllum um frv. til laga um breyting á lögum um almannatryggingar, lögum um félagslega aðstoð, lögum um málefni aldraðra, lögum um heilbrigðisþjónustu og sóttvarnalögum.

Þetta er nokkuð langur bandormur sem hv. þm., formaður heilbr.- og trn., hefur gert grein fyrir og kemur til vegna ábendinga umboðsmanns Alþingis, skýrslu Ríkisendurskoðunar og dóma sem fallið hafa. Hér er því verið að lagfæra ýmsa þætti í framkvæmd tryggingalaganna sem sannarlega eru til bóta. Ég vil láta það koma skýrt fram í upphafi máls míns að sá fyrirvari sem ég geri varðandi þessar breytingar lúta nær eingöngu að því að það er ekki verið að hreyfa við þeim þáttum sem lúta að fjárhæðum, upphæðum til bótaþega, lífeyrisþega, og ekki er verið að hreyfa við tekjutengingu við maka eða hækka þak á frítekjumarki til lífeyrisþega. Þessir þættir snúa að sjálfum upphæðunum og makatengingunni sem við förum ekki í og tökum ekki á í þessu frv. sem vonandi bíður þá nýrrar endurskoðunar þar sem farið verður sérstaklega í þessa þætti. Í raun bíður enn þá þessi heildarendurskoðun á tryggingalöggjöfinni sem ein heild eftir þeirri vinnu sem ég veit að heilbr.- og trn. er tilbúin að fara í þegar undirbúningur verður hafinn að því.

Þessar lagfæringar sem hér hafa verið gerðar eru að mínu mati til bóta. Sú vinna sem heilbr.- og trn. fór í, eftir að hafa fengið umsagnir frá þó nokkrum aðilum og farið yfir málið með fulltrúum frá Tryggingastofnun ríkisins og heilbrrn., skilaði sér í góðu frv. Það ber að taka fram að frv. var samið í mjög góðri samvinnu Tryggingastofnunar og heilbrrn. sem ég held að sé nokkurt nýmæli. Það mætti hugsa sér áframhald á þeirri vinnu varðandi heildarendurskoðun á öllum almannatryggingalagapakkanum.

Til þeirra ábendinga sem komu fram um þann þátt að fá upplýsingar úr skattskýrslum sem lúta að persónuvernd, þá sérstaklega frá Öryrkjabandalaginu og Persónuvernd, hefur að mínu mati verið tekið fullt tillit í starfi nefndarinnar. Í því frv. sem nú liggur fyrir er gert ráð fyrir að alltaf verði leitað samþykkis þeirra sem sækja um greiðslur frá Tryggingastofnun til að fá upplýsingar um þá og eins varðandi maka, að þessar upplýsingar verði aldrei sóttar nema með skriflegu samþykki.

[12:30]

Persónuverndarþátturinn verður að vera mjög ákveðinn og sterkur í frv. sem þessu. En þetta er nokkuð snúið, herra forseti, því að á sama tíma og við viljum hafa sterka persónuvernd og að greiðslur til lífeyrisþega séu réttar og ekki miklar sveiflur í greiðslum, ekki sé ofgreitt eða vangreitt og tryggt sé að mánaðarlegar greiðslur séu nokkuð réttar þannig að ekki komi einhverjir bakreikningar sem geta verið lífeyrisþegum mjög erfiðir, þá verðum við að hafa einhvern hemil á því hvernig við nálgumst slíkar upplýsingar.

Eftir er að móta þær starfsreglur sem þurfa að vera á milli skattyfirvalda og Tryggingastofnunar, hvernig aðgengi verður að slíkum upplýsingum þannig að tryggt sé að út fari ekki meira til Tryggingastofnunarinnar en nauðsynlegt er, hvaða öryggiskvótar verða settir á og varðandi allan trúnað í meðferð slíkra upplýsinga. Þetta er vinna sem á eftir að vinna en tekur núna tillit til þess að skriflegt leyfi verður að liggja fyrir.

Sá hortittur sem stendur eftir í sambandi við 17. gr. er eilíflega sá sami, þ.e. þegar kemur að tekjutengingu við tekjur maka og hvernig skerðing lífeyrisþega verður vegna tekna maka. Það eru þau atriði sem Öryrkjabandalagið m.a. bendir á og hægt er að taka undir en um það er ekki tekist á í þessari lotu.

Fyrirvari minn og Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs lýtur að upphæðum og þeim reglum sem áfram verða í gildi hvað varðar tekjutengingu við tekjur maka.

Herra forseti. Ég legg til brtt. við 15. gr. og hefur henni verið dreift. Ég hef áður flutt þessa brtt. sem sérstaka óháða tillögu, en tekið er inn í brtt. það sem verið er að hreyfa hvort eð er við í 15. gr. Hún er svohljóðandi, með leyfi forseta:

,,Við 15. gr. Við bætist nýr stafliður, svohljóðandi: 6. málsl.`` --- sem yrði þá 7. málsl. að teknu tilliti til brtt. heilbr.- og trn. við þessa grein --- ,,orðast svo: Séu liðnar 36 klst. eða meira frá innritun sjúklings greiðist flutningskostnaður milli sjúkrahúsa að fullu af því sjúkrahúsi sem sendir sjúkling nema um sé að ræða flutning milli sjúkrahúsa í sama sveitarfélagi og heilsu sjúklings sé þannig varið að hann geti notað venjulegar farþegaflutningsleiðir.``

Ástæðan fyrir því að ég flyt þetta nú sem brtt., en ég hef flutt þessa tillögu áður, er einfaldlega sú að það er sama hvernig á málið er litið, það yrði alltaf sparnaður fyrir heilbrigðiskerfið að taka hana inn. Ef við lítum á heilbrigðiskerfið sem einn pakka, sama úr hvaða vasanum við tökum, því það er jú deilt út í báða vasana af fjárlögum, hvort sem það eru heilbrigðisstofnanirnar eða Tryggingastofnun, þá er það alltaf til sparnaðar að geta metið ástand sjúklings heima fyrir, hvort sem það er á litlu eða stóru sjúkrahúsi, áður en tekin er ákvörðun um að senda hann áfram. Ef við lítum sérstaklega á minni sjúkrahúsin úti á landi, þá er þeim það þröngur stakkur skorinn að það er hreinlega sett á áætlun hversu margar ferðir á ári stofnunin getur staðið undir kostnaðarlega. Tökum dæmi: Lítil stofnun norður í landi setur þetta inn: Við getum staðið undir kostnaði, flugi og sjúkraflutningum, þrisvar á ári. Þegar sá kvóti er búinn, þá eru bara allir sendir. Ég veit mörg dæmi um slíkt og sárt að sjá að síðan eru sjúklingarnir komnir suður og innan sólarhrings eru þeir jafnvel útskrifaðir.

Það er miklu ódýrara að hafa þann möguleika að meta heima fyrir og vera þá ekki að senda sjúklinga nema það mat sé þannig að full ástæða sé til og það sé óhætt að meta ástand sjúklingsins á heimasjúkrahúsi, það sé engin áhætta tekin. Auðvitað er sjúklingur sendur strax ef eitthvað kemur uppá.

En eins og reglurnar eru í dag, þetta stífar, að ef slys verður eða fólk veikist hastarlega og fyrirsjáanlegt er að ekki er hægt að meðhöndla það heima fyrir, það þurfi sérhæfðari þjónustu, þá er annaðhvort bara tekin sú ákvörðun að leggja sjúklinginn ekki inn, hann fari bara strax vegna þess að viðkomandi stofnun hefur ekki efni á að leggja hann inn og skoða, eða hann er tekinn inn, hlúð að honum og gert ákveðið mat og þá eru hugsanlega einhverjir klukkutímar eða allt að sólarhringur liðinn og sjúklingurinn ekki innritaður en um leið og það er gert fellur ákveðinn kostnaður á stofnunina sem hún getur aldrei fengið greitt af því að svona stendur.

Þetta er að hluta til hálfgert laumuspil. Verið er að forðast að innrita sjúkling svo kostnaðurinn falli ekki á stofnunina. Ég er búin að fá marga aðila til að fara yfir þetta með mér og það er mat allra að í heildina verði þetta alltaf sparnaður, sama hvernig á þetta er litið. Ég bið því hv. þingmenn og ráðherra að skoða þetta vel með heildarhagsmuni alls kerfisins í huga.

Ég hef undir höndum bréf sem Stefán Þórarinsson, lækningaforstjóri á Heilbrigðisstofnun Austurlands, ritaði. Þar segir, með leyfi forseta:

,,Sjúkdómar byrja oft með óljósum hætti og í upphafi veikinda verður oft ekki skilið með neinni vissu á milli alvarlegra eða flóknari tilfella og hinna sem reynast minni háttar og eru á færi minni stofnana að hjálpa fólki með. Tryggingastofnun ríkisins borgar flutninginn ef sjúklingurinn kemur að heiman í flugið, annars verður sjúkrahúsið eða hjúkrunarheimilið sem tekur við honum að borga sjálft af sínum rekstrartekjum. Það er þeim mun tilfinnanlegra sem rekstrareiningin er minni og vegalengdin frá stóru sjúkrahúsunum er meiri.

Afleiðing þessa er að sjúklingar eru sendir oftar en ella í burtu með sjúkraflugi til Reykjavíkur eða Akureyrar strax í upphafi veikinda, fremur en að reynt sé fyrst að glíma við veikindin í heimabyggð. Núverandi reglur ýta undir þetta eða undanbrögð við skráningu. Þetta fyrirkomulag ýtir þannig undir bráðasjúkraflutninga og sjúkraflug og vinnur gegn því að beðið sé t.d. birtingar, betra veðurs, niðurstöðu rannsóknar, þess hver framvindan verður fyrstu tímana og þannig gegn því að lítil sjúkrahús og hjúkrunarheimili á landsbyggðinni séu nýtt eins og hægt væri.``

Eins og ég sagði, herra forseti, munum við alltaf í landi okkar þurfa að senda sjúklinga í sjúkraflugi. Við erum ekki með sérhæfð sjúkrahús í hverjum fjórðungi og sérhæfðustu sjúkrahúsin eru á höfuðborgarsvæðinu og norður á Akureyri og á meðan við höfum þann háttinn á finnst mér rétt að við horfum á heildarhagsmuni og lítum þá ekki á hvort kostnaðurinn fellur á Tryggingastofnun eða heilbrigðisstofnun, nema til þess að spara fyrir heildina.

Ef þetta á að vera með svipuðum hætti áfram, þ.e. ef þessi tillaga verður felld, þá tel ég að auka verði framlög til smærri sjúkrahúsa til að koma til móts við slíkan flutningskostnað sem alltaf fellur á þau.

Herra forseti. Ég ætla ekki að hafa mál mitt lengra. Ég hef gert grein fyrir helstu athugasemdum við frv. sem við tökumst vonandi á um seinna, þ.e. um upphæðirnar, upphæðir bóta, en að öðru leyti tek ég undir þær formbreytingar sem verið er að gera.