Almannatryggingar o.fl.

Föstudaginn 19. apríl 2002, kl. 12:43:02 (7884)

2002-04-19 12:43:02# 127. lþ. 123.9 fundur 359. mál: #A almannatryggingar o.fl.# (tekjuhugtak, bótaútreikningur o.fl.) frv. 74/2002, ÁRJ
[prenta uppsett í dálka] 123. fundur, 127. lþ.

[12:43]

Ásta R. Jóhannesdóttir:

Herra forseti. Við ræðum frv. til laga um breyting á lögum um almannatryggingar, lögum um félagslega aðstoð, lögum um málefni aldraðra, lögum um heilbrigðisþjónustu og sóttvarnalögum, frumvarpsform sem oft hefur gengið undir nafninu bandormur í þinginu.

Eins og kom fram við 1. umr. málsins má segja að verið sé að gera ýmsar lagabreytingar sem flokka mætti kannski undir nokkurs konar hreingerningar á almannatryggingalögunum, því verið er að gera ýmsar snyrtingar og breytingar sem gera Tryggingastofnun auðveldara að framfylgja þeim lögum sem henni ber að framfylgja. Verð ég að segja að ég lít á þetta sem fyrsta vers í þeirri vinnu sem fram undan er í að laga til í þeim lagabálkum, sérstaklega í almannatryggingalögunum og lögunum um félagslega aðstoð, því þar er margt sem þyrfti að taka til hendinni í, eins og reyndar kom fram í umræðum í nefndinni t.d. hjá gestum frá Tryggingastofnun ríkisins sem bentu okkur á ýmsa þætti sem þyrfti að taka til athugunar í næsta áfanga tiltektar okkar.

[12:45]

Eins og fram kom hjá hv. formanni heilbr.- og trn., Jónínu Bjartmarz, er hún mælti fyrir nál. sem við skrifum öll undir í nefndinni, þó þrjár okkar með fyrirvara, þá erum við að mestu sammála því sem verið er að gera. Þó teljum við sem erum með fyrirvarann ekki nógu langt gengið í ýmsum efnum. Við hefðum t.d. viljað sjá ýmsar breytingar, t.d. hækkun bóta til elli- og örorkulífeyrisþega. Eins og menn þekkja hafa bætur almannatrygginga ekki fylgt launaþróun í landinu. Eins og málum er háttað núna hvað varðar skattleysismörk, eru lífeyrisþegar, bæði öryrkjar og aldraðir, að greiða til baka af sínum lágu bótum heilar mánaðargreiðslur í skatt. Heilar mánaðargreiðslur á ári eru greiddar til baka til ríkisins í skatt þrátt fyrir að fram hafi komið á ráðstefnu um kjaramál eldri borgara sem haldin var á Hótel Sögu í síðustu viku að fæstir teldu sig geta á þokkalegan máta framfleytt sér á þeim bótum almannatrygginga sem þeim eru ætlaðir sem hafa engar aðrar greiðslur en bæturnar. Þar hefði maður því viljað sjá breytingar, en ekki var vilji fyrir því. Það verður því að bíða betri tíma að hækkanir bóta komi.

Sömuleiðis er ekki um það að ræða í frv. að frítekjumörkin hækki. Frítekjumörk munu líkast til hækka í september og fer það eftir ákveðnum reglum. En vissulega væri það mikil kjarabót fyrir lífeyrisþega ef hugað væri að þessum þáttum og snýr fyrirvari minn við málið m.a. af þessu.

Sömuleiðis get ég ekki skrifað undir þetta mál án fyrirvara meðan tekjur maka skerða greiðslur til lífeyrisþega, en svo er enn þá þrátt fyrir dóm Hæstaréttar í öryrkjamálinu. Eitt af því sem kemur fram í frv. er að verið er að auðvelda Tryggingastofnun að reikna út bætur með því að hafa greiðari aðgang að tekjum vegna tekjutenginga almennt og er það sjálfsagt. En aftur á móti er kannski ekki eins sjálfsagt að Tryggingastofnun hafi aðgang að tekjum maka lífeyrisþega. Hefur Öryrkjabandalagið verið óþreytandi að benda á í hvaða stöðu öryrki er, við skulum segja ungur öryrki sem vill festa ráð sitt, gagnvart verðandi maka sínum, þ.e. að þurfa fyrst að lýsa því yfir að hann hafi það lága framfærslu sem öryrki að makinn verði nánast að sjá honum farborða í lífinu, en einnig að segja síðan við hann: ,,Þegar við förum að búa saman eða þegar við giftum okkur verður þú að gjöra svo vel og fara niður í Tryggingastofnun og gefa allar upplýsingar um þínar tekjur.`` Það er víst nóg að þurfa að sitja uppi með að geta ekki séð sér farborða á þessum lágu bótum. Því ætti ekki að þurfa að leggja það líka á makann að þurfa að ganga niður í Tryggingastofnun til að upplýsa um tekjur sínar. Auðvitað er alveg rétt að staða öryrkja hvað þetta varðar er náttúrlega óþolandi.

Nefndin hefur gert ýmsar breytingar á frv. frá því það kom inn í nefndina og mikil vinna hefur farið fram í nefndinni við að skoða málið og laga það til. Hún hefur lagað það að persónuverndarlöggjöfinni hvað varðar upplýsingar o.s.frv. Ég ætla nú ekki að fara ítarlegar í það. En annað sem ég á mjög erfitt með að sætta mig við í almannatryggingalöggjöfinni eins og hún er í dag eftir öryrkjadóminn og breytingar sem urðu vegna hans, er hin mikla tekjutenging sem kom inn í lögin með þeirri lagabreytingu, þ.e. 67% tekjutenging vegna tekna. Það er mesta tekjutenging innan almannatrygginganna frá því að sérstaka heimilisuppbótin var, en þar var 100% tekjutenging, þ.e. þar skertist króna á móti krónu. Hér er sem sagt enn þá inni 67% tekjutenging í hluta af bótunum. Það er náttúrlega óþolandi í raun. En ekki voru áform um að breyta þessu við þessa lagasetningu heldur var verið að gera annars konar breytingar á lögunum.

Herra forseti. Ég vildi gjarnan nefna þetta vegna þess að þarna tel ég breytinga þörf, að taka þurfi á þessum þáttum og vonast ég til þess að á næsta vetri þegar við höldum áfram að taka til í almannatryggingunum verði tekið á þessum þáttum og að þá verði það langt liðið frá öryrkjadómnum að menn séu tilbúnir að endurskoða aðeins hug sinn til þeirrar túlkunar sem höfð var uppi á þeim dómi í þinginu og leiddi af sér þessa lagasetningu.

Ýmsar réttarbætur verð ég þó að segja að koma hér inn. Það eru atriði sem varða vaxtagreiðslur á bótum frá Tryggingastofnun ef dráttur verður á greiðslum, af hvaða orsökum sem það er og farið er rækilega yfir það í nál. hvernig því er háttað, hvenær skuli greiða vexti af þeim bótum sem vangreiddar eru. Sömuleiðis er farið mjög ítarlega yfir það hvernig brugðist skuli við t.d. ef ekki berast nægilegar upplýsingar frá lífeyrisþeganum. Ef það er hans sök er ekki skylda að greiða vexti af bótunum.

Í nál. kemur einnig fram að ef upplýsingar um tekjur maka berast ekki skuli greiða þær bætur sem tekjur maka hafa ekki áhrif á. Það er annars vegar grunnlífeyririnn sem er tæpar 20 þús. kr., 19.990 kr., og tekjutryggingin að 27 þús. kr. Það eru því tæpar 47 þús. kr. sem viðkomandi einstaklingur fær hafi ekki borist upplýsingar um tekjur maka. Það er náttúrlega ljóst að enginn lifir á þeim mánaðargreiðslum.

Í nál. er farið yfir frv. og nefndar ýmsar breytingar, fleiri en voru upphaflega í frv. Þar nefni ég breytingar sem nefndin ákvað að gera sem varða reglur frá tryggingaráði, þ.e. heimildir tryggingaráðs til að setja reglur um ákveðna stafliði í 33. gr. eru felldar brott. Þess í stað er ráðherra veitt heimild til þess að setja reglugerð um greiðslur samkvæmt ákvæðinu. Það verður eiginlega að segjast að eðlilegt er að reglugerðarvaldið sé hjá ráðherranum og að hann setji þessar reglur. Engu að síður lít ég svo á að ráðherra geti áfram leitað til Tryggingastofnunar og starfsmanna þar um tillögur um hvernig þessar reglur skuli hljóða og semji síðan reglugerð út frá því.

Ef til vill er því ekki mikil eðlisbreyting á vinnuferlinu innan Tryggingastofnunar ríkisins þó svo að þessi lagabreyting sé gerð. Það er einungis verið að laga þetta að nútímastjórnsýsluháttum. Vegna þess að maður hefur heyrt ákveðnar efasemdir um þessa lagabreytingu vil ég að hér komi fram að ég tel þarna ekki um verulega eðlisbreytingu á vinnubrögðum innan Tryggingastofnunar að ræða.

Einnig er lagt til að ekki verði gerð krafa að sækja um allar bætur til Tryggingastofnunar heldur séu ákveðnar undantekningar þar á. Eitt af því sem ég tel mjög jákvætt er að nú þurfa örorkulífeyrisþegar sem ná 67 ára aldri ekki að sækja sérstaklega um ellilífeyri. Eins og menn vita hætta öryrkjar að vera öryrkjar þegar þeir verða 67 ára. Þá verða þeir ellilífeyrisþegar og þurfa þá að sækja um þær bætur. En það hefur oft verið fjallað um það í umræðu um almannatryggingarnar hvort ekki sé hægt að koma í veg fyrir að menn þurfi alltaf að vera að sækja um allt, því að eðli trygginganna er þannig að menn þurfa að fylgjast mjög vel með rétti sínum, verða sífellt að kanna rétt sinn. Ef breytingar verða á högum einstaklinga þurfa þeir að fara og kynna sér hvort þær breytingar hafa áhrif á réttarstöðu þeirra innan trygginganna og sé svo þá þarf sérstaklega að sækja um þær bætur sem e.t.v. hefur öðlast réttur til við breytta hagi.

Eitt af því sem ég hef alltaf talið gagnrýnisvert í almannatryggingunum hvað varðar öryrkjana sem verða ellilífeyrisþegar, er að þeir fá heldur lægri bætur eftir að þeir eru orðnir ellilífeyrisþegar, eftir að þeir eru orðnir 67 ára. Ég hef lagt fram frumvörp til breytinga á því og tel eðlilegt að þessir öryrkjar haldi óbreyttum fjárhæðum, þ.e. að þeir lækki ekki við að verða 67 ára. Þarna er ekki um háar upphæðir að ræða. Ég tel eðlilegt að þeir haldi óbreyttum upphæðum. Ég tel ekki eðlilegt að þeir lækki við það að verða 67 ára. Menn verða ekki hressari við það að verða eldri. Og hafi menn metið það svo að öryrki þurfi þessar fjárhæðir til framfærslu þá er eðlilegt að hann hafi sömu fjárhæðir áfram eftir að hann er orðinn 67 ára. Ég vildi koma þessu atriði hér á framfæri því þetta er náttúrlega atriði sem þarf að skoða sérstaklega.

Varðandi tekjutenginguna við tekjur maka sem ég nefndi áðan og ekki er tekið sérstaklega á hér vil ég segja að ég óttast að eftir að þetta frv. verður orðið að lögum muni Öryrkjabandalagið ekki sætta sig við að þurfa að fara með upplýsingar um tekjur maka niður í Tryggingastofnun. Ég heyrði það á máli þeirra er þeir heimsóttu nefndina að þeir voru mjög ósáttir við þetta atriði og sögðu það umbúðalaust. Þeir segja t.d. í umsögn sinni, með leyfi forseta:

,,Það nýmæli 17. greinar frumvarpsins sem fyrirsjáanlega mun þó kalla á meiri, erfiðari og óleysanlegri vandamál en önnur, er ákvæðið um upplýsingaskyldu maka. Með þessu ákvæði verður hverjum þeim sem tekur upp sambúð með öryrkja gert skylt að standa tryggingafélagi hans skil á upplýsingum um fjármál sín, þ.e. umfram það sem fram kemur í þeim gögnum skattyfirvalda sem Tryggingastofnun ríkisins hefur aðgang að. Vart þarf að hafa mörg orð um að með þessu er verið að færa í lög ákvæði sem óraunhæft er að framfylgja og einungis eru til þess fallin að niðurlægja öryrkja umfram það sem gert er með hinni umdeildu tengingu bótaréttar við tekjur maka. Samkvæmt þessari nýskipan yrði öryrkjanum ekki aðeins gert að vera háður öðrum um framfærslu, heldur yrði stjórnarskrárverndaður tryggingaréttur hans nú háður því að hann sæi til þess að annar einstaklingur féllist á að veita upplýsingar um sjálfan sig. Með þessu væri verið að leggja óbærilega og óframkvæmanlega kvöð á öryrkja og gera þeim enn erfiðara um vik að stofna til sambúðar sem sjálfstæðir einstaklingar.

Það er von Öryrkjabandalags Íslands að tilhugsunin um þau óleysanlegu og niðurlægjandi vandamál sem augljóslega yrði stofnað til með samþykkt framangreinds ákvæðis verði til að vekja þingmenn til meiri vitundar um þær ógöngur sem almannatryggingar okkar eru í, einkum það ráðslag að láta stjórnarskrárvernduð mannréttindi öryrkja ráðast af breytilegum tekjum maka þeirra.``

(Forseti (GuðjG): Nú verður gert hlé á þessum fundi upp úr klukkan eitt. Forseti spyr hv. þm. hvort hún sé komin að lokum ræðu sinnar eða hvort hún vilji fresta flutningi hennar.)

Ég er ekki komin að lokum ræðu minnar þannig að ég vil gjarnan fresta henni og taka þá aftur til máls að loknu matarhléi.