Almannatryggingar o.fl.

Föstudaginn 19. apríl 2002, kl. 13:50:07 (7886)

2002-04-19 13:50:07# 127. lþ. 123.9 fundur 359. mál: #A almannatryggingar o.fl.# (tekjuhugtak, bótaútreikningur o.fl.) frv. 74/2002, ÞBack
[prenta uppsett í dálka] 123. fundur, 127. lþ.

[13:50]

Þuríður Backman:

Herra forseti. Hér hefur nokkuð vel verið gerð grein fyrir frv. til laga um breyting á lögum um almannatryggingar, lögum um félagslega aðstoð, lögum um málefni aldraðra, lögum um heilbrigðisþjónustu og sóttvarnalögum, þessum langa bandormi sem við erum hér með. Hv. formaður heilbr.- og trn., Jónína Bjartmarz, fór yfir þá þætti sem frv. felur í sér, þ.e. breytingarnar sem eru að mörgu leyti mjög jákvæðar og eru ekki eingöngu tæknilegs eðlis eða formbreytingar heldur eru þarna sannarlega réttarbætur fyrir marga. Ég vil taka það fram hér og nú að ég met þessar breytingar þótt ég hafi ekki látið það koma fram í máli mínu áðan þar sem ég tíndi eingöngu til hvers vegna ég hefði skrifað undir með fyrirvara. Eins og ég sagði var það vegna upphæða bóta, óbreytts frítekjumarks og tengingar við tekjur maka sem ég hafði fyrirvara en ég fór ekki áðan yfir hina jákvæðu þætti.

Ástæðan fyrir því að ég kem hingað aftur, herra forseti, er sú að ég gleymdi örfáum atriðum sem mér finnst rétt að draga hér fram, einkum það að með þessum lögum á að stórbæta upplýsinga- og þjónustuskyldu Tryggingastofnunar ríkisins. Í þessum breytingum, þó að formbreytingar séu, er breyttur hugsunarháttur. Með þessu á að þróa Tryggingastofnun í það að vera þjónustustofnun. Til þess að hún geti orðið það og uppfyllt þessi skilyrði er m.a. ein breytingin frestun á gildistöku laganna því það er alveg ljóst að Tryggingastofnun ríkisins ræður ekki tæknilega við að uppfylla nýja löggjöf. Það vantar mikið upp á að tæknibúnaðurinn sé í lagi og við þurfum þá að huga að því í næstu fjárlagagerð að hlúð verði að Tryggingastofnun ríkisins og að hægt verði að fara í þessa uppbyggingu á nýju tölvukerfi. Ef við viljum að Tryggingastofnun verði slík þjónustustofnun, verði með frumkvæði í að veita upplýsingar, verði með frumkvæði í að þjónusta þá sem leita til hennar og veita upplýsingar um þann rétt sem viðkomandi á en ekki bara láta hvern og einn leita að rétti sínum þarf líka að huga að fjölgun starfsmanna, það segir sig sjálft. Því dreg ég þetta hér fram að við munum þá eftir þessu við næstu fjárlagagerð.

Annað sem ég gleymdi, herra forseti, var að nefna stöðu tryggingaráðs en í nál. hv. heilbr.- og trn. kemur fram að lagt er til að farið verði yfir starfssvið tryggingaráðs og það endurskoðað. Mér finnst það í sjálfu sér mjög eðlilegt því lagaumhverfið í kringum Tryggingastofnun hefur verið að breytast og það verður að taka tillit til þess. Þessi stofnun veltir miklum fjármunum --- hún á að standa vörð um réttindi svo margra lífeyrisþega í landinu að mér finnst ekki koma til greina að hafa ekki einhvern hóp manna forstjóra til stuðnings, sama hvort það heitir tryggingaráð eða fagráð eða eitthvað annað. Mér finnst að við endurskoðunina eigi að horfa til breytts umhverfis en að það verði skilyrðislaust stjórn, ráð eða nefnd forstjóra til stuðnings.