Persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga

Föstudaginn 19. apríl 2002, kl. 14:02:10 (7890)

2002-04-19 14:02:10# 127. lþ. 123.18 fundur 653. mál: #A persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga# (rafræn vöktun o.fl.) frv. 81/2002, Frsm. ÞKG (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 123. fundur, 127. lþ.

[14:02]

Frsm. allshn. (Þorgerður K. Gunnarsdóttir):

Herra forseti. Ég mæli fyrir nál. frá hv. allshn. um frv. til laga um breyting á lögum um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga.

Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Dís Sigurgeirsdóttur frá dómsmálaráðuneyti og hinn mæta mann, Pál Hreinsson, prófessor við lagadeild Háskóla Íslands.

Með frumvarpinu er lagt til að lögfest verði ákvæði sem kveða skýrt á um í hvaða tilvikum megi safna efni með viðkvæmum persónuupplýsingum sem til verður við rafræna vöktun og meðferð slíks efnis. Þá eru lagðar til breytingar á ákvæðum laganna um fræðslu- og tilkynningarskyldu ábyrgðaraðila gagnvart hinum skráða.

Herra forseti. Ég vil árétta hér að við erum eingöngu að tala um einkaaðila en ekki lögregluna. Einkaaðilarnir þurfa að sjálfsögðu að rökstyðja það, og við fórum mjög vel yfir þetta í nefndinni, af hverju þeir þurfi að koma upp eftirlitsmyndavélum í öryggis- og eignavörsluskyni. Rétt er aftur að undirstrika það að það er eingöngu þess vegna sem þeir geta sett upp slíkar myndavélar, þ.e. í öryggis- og eignavörsluskyni. Persónuvernd þarf að meta það í hverju tilviki hvort eigi að heimila slíkt. Til að mynda virðist ekki þörf á myndavélum við fyrstu sýn í lokuðu rými.

Nefndin ræddi nokkuð 3. gr. frv. og þá sérstaklega 4. tölulið 4. mgr. Meginreglan samkvæmt ákvæðinu sem er í greininni er sú að láta skal hinn skráða vita um leið og upplýsinga er aflað og það er afar sjaldan sem almannahagsmunir geta skákað þessari meginreglu. Sú undanþága sem er í 3. gr. frv. er nánast samhljóða þeirri undanþágu sem kemur fram í dönsku persónuupplýsingalögunum og er ákvæðinu eingöngu hægt að beita að undangengnu mati á hverju tilviki fyrir sig. Er það þá að sjálfsögðu Persónuvernd sem metur það.

Einkahagsmunir sem heimilt er að verja samkvæmt ákvæðinu eru t.d. viðskiptahagsmunir sem sangjarnt er að leynd ríki um, þagnarskylda um einkahagsmuni þriðja manns og vernd mannréttinda þriðja manns. Helstu undanþágurnar er að finna í samkeppnislögum, lögum um fjármálaeftirlit og barnaverndarlögum, en 14. gr. barnaverndarlaga gengur framar öllu, þar með talinni þeirri meginreglu að láta skuli hinn skráða vita um leið og upplýsinga er aflað. Þegar nánar var farið yfir þetta vil ég leyfa mér að halda því fram að allir nefndarmenn hafi verið mjög sáttir við þessa breytingu, sér í lagi þegar hugsað er til hagsmuna barns þegar verið er að rannsaka og taka skýrslur í erfiðum málum sem koma oft til kasta barnaverndarnefndar.

Nefndin var einhuga í þessu máli og mælir með að frv. verði samþykkt með þeirri breytingu sem greint er frá í sérstöku þingskjali. En við í nefndinni töldum rétt að breyta 5. gr. frv. þar sem segir:

,,Persónuvernd getur sett reglur ...``

Við vildum hafa þetta afdráttarlaust: ,,Persónuvernd setur reglur ...``

Persónuvernd verður þá gert skylt að setja reglur um rafræna vöktun.