Persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga

Föstudaginn 19. apríl 2002, kl. 14:24:25 (7894)

2002-04-19 14:24:25# 127. lþ. 123.18 fundur 653. mál: #A persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga# (rafræn vöktun o.fl.) frv. 81/2002, KolH
[prenta uppsett í dálka] 123. fundur, 127. lþ.

[14:24]

Kolbrún Halldórsdóttir:

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Þorgerði K. Gunnarsdóttur fyrir að reyna að varpa ljósi á vangaveltur mínar. Það er rétt sem hún segir að enginn ágreiningur er um 4. tölulið í undanþáguákvæðinu. Vangaveltur mínar snúa að 1., 2. og kannski 3. tölulið. Það sem mér finnst alvarlegt er að við erum að breyta lögunum á þann veg að ekki þurfi lengur að sækja um leyfi til Persónuverndar til þess að geta nýtt sér undanþáguákvæðin. Við erum því að slaka á kröfunum. Við erum að minnka álagið og skriffinnskuna hjá Persónuvernd og það er kannski einmitt vegna þess að Persónuvernd á frumkvæðið að setningu laganna að við erum kannski á einhverju hættusvæði.

Þegar Persónuvernd finnur að hún er með stór mál í höndunum er vitað að þau krefjast mikillar skriffinnsku, það þarf að skrifa mikið, láta marga vita. Þetta er þungt í vöfum. Ég geri mér ekki fulla grein fyrir því, eins og ég segi, hvernig málin ganga fyrir sig hjá Persónuverndinni. En Persónuverndin óskar sem sagt eftir því við löggjafann að þessu verði breytt þannig að hún þurfi ekki að veita þessa undanþágu heldur verði undanþágan bundin í lög.

Lagatextinn er afar matskenndur. Ég spyr því: Ef Persónuvernd á ekki að meta undanþáguákvæðin, hver á þá að meta þau?