Persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga

Föstudaginn 19. apríl 2002, kl. 14:27:06 (7896)

2002-04-19 14:27:06# 127. lþ. 123.18 fundur 653. mál: #A persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga# (rafræn vöktun o.fl.) frv. 81/2002, KolH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 123. fundur, 127. lþ.

[14:27]

Kolbrún Halldórsdóttir (andsvar):

Herra forseti. Ég vona sannarlega að hv. þm. hafi rétt fyrir sér með að þetta komi til með að auka öryggi okkar. En ég verð að segja að ég er ekki alveg sannfærð. Það er kannski vegna þess að málaflokkurinn er flókinn. Það er erfitt að fóta sig í þessu umhverfi þegar maður þekkir ekki vel til af eigin raun. En það er alveg ljóst að við erum með þessu frv. að breyta undanþáguákvæðinu, bæði með því að einfalda stjórnsýsluna og að kveða á um að ekki þurfi að sækja um leyfi til Persónuverndar til þess að geta nýtt sér undanþágu 1. tölul. 2. mgr. 21. gr. Í texta núgildandi laga segir að það þurfi mat Persónuverndar til þess að undanþágan verði virk. En við erum að fella þau orð niður þannig að ekki þurfi lengur mat Persónuverndar. Undanþáguákvæðið er orðað upp á nýtt þannig að það sé nóg að undanþágan verði virk ef viðkomandi einstaklingi, þriðja aðila sem á það á hættu að um hann séu skráðar persónuupplýsingar, eigi að vera um það kunnugt eða ef lagaheimild stendur til vinnslunnar eða ef viðvörun að mati Persónuverndar er óframkvæmanleg eða leggur þyngri byrðar á ábyrgðaraðila en sanngirni getur krafist.

Mér finnst þetta mjög matskennt og, herra forseti, ég er ekki alveg sannfærð. Ég er enn þá á mjög erfiðri grund. Ég á erfitt með að fóta mig í þessu og ég hef ekki fengið fullnægjandi svör frá hv. formanni allshn. um þetta mál þannig að ég verð að segja, herra forseti, að ég ber ugg í brjósti gagnvart þeirri undanþágu sem hér er verið að heimila.