Persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga

Föstudaginn 19. apríl 2002, kl. 14:37:56 (7899)

2002-04-19 14:37:56# 127. lþ. 123.18 fundur 653. mál: #A persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga# (rafræn vöktun o.fl.) frv. 81/2002, GÁS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 123. fundur, 127. lþ.

[14:37]

Guðmundur Árni Stefánsson (andsvar):

Herra forseti. Ég heyri að hv. þm. deilir með mér áhyggjum af þessu. Það var einmitt þetta orðalag í grg. frv., sem vakti mig til umhugsunar, þ.e. þessi atriði sem ég nefndi:

,,Vöktun í kirkjum, kapellum eða öðrum húsum sem ætluð eru til bænahalds og trúariðkunar felur í sér sérstaka hættu fyrir friðhelgi einkalífs.`` --- Lengra er ekki gengið í þeim fullyrðingum. Síðan stendur: ,,Sama á t.d. við um vöktun í mátunarklefum, á salernum, í hótelherbergjum, í káetum, á vínveitingahúsum o.s.frv.``

Samkvæmt texta frv. gæti sá sem vildi koma upp sjónvarpsvöktun á þessum stöðum borið því við að hætta væri á því að skemmdir yrðu unnar, eignatjón yrði eða það væri hætta væri á því að öryggi yrði að öðrum kosti ábótavant.

Ég spyr: Kom til álita að lagatextinn sjálfur væri leiðbeinandi og segði til um hvað átt er við, þ.e. að tilgreind væru dæmi af þessum toga? Mér hefði fundist það mun skýrara. Í grg. segir að sérstök hætta stafi af þessu en það er ekki afdráttarlaust að lögin banni slíka vöktun samkvæmt annarri túlkun.

Ég endurtek hins vegar að ég reikna ekki með því að menn ætli sér að fara að stunda sjónvarpsvöktun eða ,,voyeurisma`` af þessari tegund. Dæmin sýna hins vegar að það hefur verið reynt. Er hætta á því, að mati hv. þm., að menn geti borið því við að það sé af öryggisástæðum eða vegna hættu á eignaskemmdum?

Kom ekki til greina að lagatextinn sjálfur væri dálítið leiðbeinandi í þessa veruna og menn þyrftu ekki að leita langt aftur í grg. til þess að fá leiðbeiningar um hvernig löggjafinn hafði hugsað sér að að framkvæmd yrði staðið?