Persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga

Föstudaginn 19. apríl 2002, kl. 15:18:29 (7904)

2002-04-19 15:18:29# 127. lþ. 123.18 fundur 653. mál: #A persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga# (rafræn vöktun o.fl.) frv. 81/2002, Frsm. ÞKG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 123. fundur, 127. lþ.

[15:18]

Frsm. allshn. (Þorgerður K. Gunnarsdóttir) (andsvar):

Herra forseti. Rétt út af orðum forseta verð ég að segja að fótboltalið þingsins er í rauninni liðið mitt líka og mér finnst einfaldlega súrt í broti þegar mitt lið tapar, svo einfalt er það.

Varðandi orð hv. þm. Lúðvíks Bergvinssonar finnst mér gott og hollt að við þingmenn veltum þeim hlutum fyrir okkur sem hefur verið velt upp í þessari umræðu. Ég ítreka þó enn og aftur að hér er ekki verið að stíga skrefi lengra í áttina að því að skerða á einhvern hátt friðhelgi einkalífs manna. Samfélagið hefur breyst og við vitum það. Ég nefndi áðan dæmi um skólamyndavélarnar á skólalóðunum. Ég vil líka nefna að undir forustu R-listans voru settar upp myndavélar í miðborginni sem hafa, samkvæmt mínum upplýsingum, reynst ákaflega vel. Reyndar hefur síðan lögreglan forræði yfir þeim myndavélum þannig að nákvæmlega þessi kafli persónuverndarlaganna sem við erum að fjalla um hér gilda ekki um þær.

Ég vil að lokum, herra forseti --- ég sé að ég hef einhvern tíma eftir --- koma inn á það sem hv. þm. Lúðvík Bergvinsson talaði m.a. um 2. tölul. þar sem ætti að afhenda lögreglu upptekið efni.

Fyrir það fyrsta, þegar myndavélavöktun er t.d. í sjoppum og á hótelum verður að merkja svæðin. Ég tek það skýrt fram. Jafnframt þarf að nefna ábyrgðarmanninn þannig að viðkomandi einstaklingur sem vill helst tjá sig um þessa myndavél geti farið til viðkomandi ábyrgðarmanns. Eingöngu er leyft að afhenda lögreglu slíkt efni. Bara lögreglan getur fengið þetta efni nema viðkomandi einstaklingur samþykki að efninu verði dreift til annarra aðila.

Varðandi málefnalegu ástæðuna sem orðuð er í 3. tölul. er rétt að láta koma fram að um mjög skamman tíma er að ræða. Þessi lagaákvæði verða túlkuð þröngt.