Persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga

Föstudaginn 19. apríl 2002, kl. 15:20:53 (7905)

2002-04-19 15:20:53# 127. lþ. 123.18 fundur 653. mál: #A persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga# (rafræn vöktun o.fl.) frv. 81/2002, LB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 123. fundur, 127. lþ.

[15:20]

Lúðvík Bergvinsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Vegna umræðu um knattspyrnulið þingsins verð ég að segja að ef hv. þm. og forseti þingsins ætla að bera ábyrgð á því finnst mér það bara af hinu góða og mun ekki gera neinar athugasemdir við það enda held ég að þau séu þannig fólk að þeim sé vel treystandi til þess.

Hins vegar verður kannski mikilvægi þessa efnis hér aldrei of oft endurtekið. Þetta frv. er í sjálfu sér ekki merkilegt. Hér er bara um að ræða einhverja tæknilega útfærslu á reglum sem fyrir eru, það er engin ný grundvallarhugsun í því. Það er ekkert verið að sveigja af leið og það er ekkert nýtt í þessu. Þetta er einhver tæknileg útfærsla og þess vegna var ég bara að brýna fyrir mönnum að þeir tapi sér ekki í þessum hlutum.

Hv. þm. nefndi það hins vegar sérstaklega að R-listinn hefði sett upp myndavélar. Allir sem setja slíkar vélar upp fara eftir þeim reglum sem um þetta gilda, nýta sér þær heimildir sem til eru í lögum. Um hverja einustu heimild sem til er í þessum lögum hefur Sjálfstfl. haft forgöngu, hverja einustu enda búinn að sitja samfellt frá 1991 í dómsmrn. Allar þessar heimildir eru komnar þaðan. Þetta eru lagaheimildir sem eiga (Gripið fram í.) rót sína í hugmyndum Sjálfstfl. Ef menn eru á flótta frá hugmyndafræði eigin flokks, sem mér virtist í umræðunni áðan, get ég vel skilið það og finnst það ekki skrýtið í ljósi þeirrar umræðu sem hér fer fram. Ég vil bara halda því til haga að í því sem menn hafa gert í þessum efnum, a.m.k. opinberir aðilar, hafa þeir farið eftir þeim reglum sem um þetta gilda, og frumkvæðið að öllum þessum reglum, hverri einni og einustu, á sá flokkur sem hefur gert frelsi einstaklingsins að goðsögn í stefnuskrá sinni eða einhverju sem hann vill tjalda á tyllidögum.