Stefnumótun um aukið umferðaröryggi

Föstudaginn 19. apríl 2002, kl. 16:15:05 (7913)

2002-04-19 16:15:05# 127. lþ. 123.21 fundur 599. mál: #A stefnumótun um aukið umferðaröryggi# þál. 14/127, Frsm. ÞKG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 123. fundur, 127. lþ.

[16:15]

Frsm. allshn. (Þorgerður K. Gunnarsdóttir) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir fór yfir marga hluti í ræðu sinni. Rétt til að byrja með var minnst á umferðaröryggisáætlun Reykjavíkurborgar sem er í sjálfu sér ágætis plagg og allt það en ég sagði við 1. umr. hér í þinginu um frv. um umferðarlög að það besta sem R-listinn hefði getað gert til umferðaröryggismála hefði verið --- ja, ég orðaði það svo, að ,,lufsast til þess setja fram stefnumótun fyrir fjölförnustu gatnamót landsins, þ.e. gatnamót Miklubrautar og Kringlumýrarbrautar``. Það er loksins gert núna og ég vil vekja athygli þingmanna á auglýsingu sem birtist í Morgunblaðinu ekki alls fyrir löngu þar sem eitt tiltekið bílafyrirtæki sagði að þar hefðu verið 75 slys á hverju ári. Það vita allir sem vilja vita að Reykjavíkurborg undir forustu R-listans gat ekki ákveðið sig akkúrat um þessi tilteknu gatnamót. (Gripið fram í: ... bílafloti ...)

Varðandi rétt aðeins þetta af því að hv. þm. ... Herra forseti.

(Forseti (ÁSJ): Forseti vill biðja hv. þm. að gefa hljóð í salnum.)

Hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir minntist á umferðaröryggisáætlun Reykjavíkurborgar. Og ég er að segja --- einfaldlega að taka eina ákvörðun. Það tók R-listann ein átta ár að komast að þeirri niðurstöðu að það væri gott að setja mislæg gatnamót (Gripið fram í: Hvað var Sjálfstfl. að gera ...?) --- átta ár, ég vek athygli á því. (Gripið fram í.) Herra forseti, hef ég orðið eða ekki?

Síðan eru ýmis önnur atriði, herra forseti, sem hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir kom inn á í ræðu sinni, mörg góð og gegn. Það er alveg rétt að metnaðarfullt markmið er sett fremst í þáltill. sem við erum að ræða hér, 40% fækkun slysa. Það kann að vera að árin 2000--2001 séu kannski ekki akkúrat réttu árin en þegar á heildina er litið tel ég 40% vera metnaðarfullt markmið, markmið sem við eigum að stefna ótrauð að. Að öðrum atriðum kem ég í mínu síðara andsvari.