Stefnumótun um aukið umferðaröryggi

Föstudaginn 19. apríl 2002, kl. 16:37:01 (7921)

2002-04-19 16:37:01# 127. lþ. 123.21 fundur 599. mál: #A stefnumótun um aukið umferðaröryggi# þál. 14/127, Frsm. ÞKG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 123. fundur, 127. lþ.

[16:37]

Frsm. allshn. (Þorgerður K. Gunnarsdóttir) (andsvar):

Herra forseti. Mér þótti vænt um að hv. þm. Einar Már Sigurðarson upplýsti okkur um það hér og nú að það tæki R-listann um fimm eða sex ár að taka ákvörðun í jafnmikilvægu máli og að gera mislæg gatnamót á þeim mikilvægu gatnamótum. En það fróðlegt að heyra, fimm til sex ár. Gott og vel.

Varðandi það sem hv. þm. kom einnig inn á í ræðu sinni, að hann vildi beina því til hv. allshn. að fara með málið aftur í nefnd, þá er það reyndar ekki hægt þar sem hér er um síðari umræðu að ræða. Hér er um þáltill. að ræða --- sem ég vænti að hv. þm. hafi lesið sérstaklega vel yfir --- og þar af leiðandi er ekki hægt að fara með málið aftur í nefnd, enda ekki ástæða til þar sem ég treysti því og trúi að allir þeir nefndarmenn hafi verið viðstaddir þegar gestirnir komu í heimsókn sem fóru mjög vandlega yfir málið með okkur. Við ræddum einmitt það að sú áætlun sem enn er í gildi skuli í meginatriðum hafa haldist, þessi tölfræði sem liggur að baki og af hverju við getum fullyrt það í nefndaráliti að áætlunin hafi í meginatriðum haldist, við byggðum það á rökum og við byggðum það á gögnum.