Tryggingagjald o.fl.

Föstudaginn 19. apríl 2002, kl. 16:44:10 (7925)

2002-04-19 16:44:10# 127. lþ. 123.13 fundur 582. mál: #A tryggingagjald o.fl.# (reiknað endurgjald, breyting ýmissa laga o.fl.) frv. 65/2002, Frsm. KHG (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 123. fundur, 127. lþ.

[16:44]

Frsm. efh.- og viðskn. (Kristinn H. Gunnarsson):

Herra forseti. Efh.- og viðskn. hefur farið yfir það frv. sem til hennar var vísað, 582. mál, um breyting á lögum um tryggingagjald, staðgreiðslu opinberra gjalda og um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða.

Nefndin fékk á sinn fund fulltrúa frá fjmrn. og fékk umsagnir frá stofnunum ríkisskattstjóra og hagsmunasamtökum og leggur til að frv. verði samþykkt með tveimur breytingum sem nefndin hefur gert grein fyrir á þskj. 1212. En til glöggvunar eru þær breytingar sem eru í frv. tengdar breytingum sem gerðar voru á síðasta hausti á lögum um tekjuskatt og eignarskatt, þar sem fjallað er um reiknað endurgjald manna sem vinna við atvinnurekstur lögaðila þar sem hann er ráðandi vegna eignar- eða stjórnunaraðildar og að það endurgjald myndi stofn til tryggingagjalds og til lágmarksiðgjalds til lífeyrissjóðs. Jafnframt gerir frv. ráð fyrir að lífeyrissjóðum verði heimilt að fjárfesta í verðbréfum sem eru skráð á skipulegum markaði í Liechtenstein með sama hætti og heimilt er í ríkjum OECD. Loks er ákvæði um að ákvörðun skattstjóra um reiknað endurgjald í staðgreiðslu verði kæranleg til ríkisskattstjóra.

Tillögur efh.- og viðskn. um breytingar á frv. kveða annars vegar á um málskotsrétt til ríkisskattstjóra vegna ákvarðana skattstjóra á staðgreiðsluári um reiknað endurgjald, en nefndin leggur til að nánar verði kveðið á um kæruréttinn og þannig leitast við að afmarka upphaf og endi kærufrests. Er nánar gerð grein fyrir þessu í því þskj. sem brtt. eru prentaðar á.

Í öðru lagi leggur nefndin til að samræmi verði á milli laga um virðisaukaskatt og laga um staðgreiðslu opinberra gjalda hvað varðar skráningu manna inn á virðisaukaskattsskrá annars vegar og launagreiðendaskrá hins vegar. Þetta á að verða til þess að einfalda framkvæmd laga um staðgreiðslu opinberra gjalda.

Nefndin er einhuga í afstöðu sinni og leggur til að frv. verði samþykkt með þessum breytingum.