Tollalög

Föstudaginn 19. apríl 2002, kl. 16:47:18 (7926)

2002-04-19 16:47:18# 127. lþ. 123.14 fundur 583. mál: #A tollalög# (sektir, barnabílstólar) frv. 66/2002, Frsm. KHG (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 123. fundur, 127. lþ.

[16:47]

Frsm. efh.- og viðskn. (Kristinn H. Gunnarsson):

Herra forseti. Efh.- og viðskn. hefur fjallað um frv. um breytingu á tollalögum, með síðari breytingum, og fengið á sinn fund fulltrúa frá fjmrn. og tollstjóranum í Reykjavík jafnframt því að fá umsagnir frá Sýslumannafélagi Íslands, Umferðarráði, Verslunarráði Íslands og tollstjóranum í Reykjavík.

Í frv. eru tvö efnisatriði. Annars vegar er lagt til að sektarheimildir tollstjóra verði hækkaðar úr 75 þús. kr. í 300 þús. kr. og er það til samræmis við sektarheimildir lögreglustjóra samkvæmt lögum um meðferð opinberra mála. Hitt atriði frv. kveður á um að fella niður 10% toll sem í dag er á barnabílstólum.

Nefndin vekur athygli á því sem fram kemur í athugasemdum við frv., en þar segir að skv. 115. gr. laga um meðferð opinberra mála sé lögreglustjóra heimilt að leggja sekt á mann vegna tiltekinna brota að tiltekinni fjárhæð sem dómsmálaráðherra ákveður í reglugerð. Nefndin gerir athugasemdir við það fyrirkomulag að unnt sé að ákveða sektarfjárhæð í reglugerð og bendir dómsmálaráðherra á að taka málið til nánari skoðunar.

Þá leggur nefndin til brtt. við frv. þess efnis að við lögin bætist þrjár nýjar aðaltollhafnir, Grundartangi, Skagaströnd og Vopnafjörður, og leggur til að frv. verði samþykkt með þeirri breytingu.