Tollalög

Föstudaginn 19. apríl 2002, kl. 16:49:20 (7927)

2002-04-19 16:49:20# 127. lþ. 123.14 fundur 583. mál: #A tollalög# (sektir, barnabílstólar) frv. 66/2002, JB
[prenta uppsett í dálka] 123. fundur, 127. lþ.

[16:49]

Jón Bjarnason:

Herra forseti. Ég kem fyrst og fremst í ræðustól til þess að fagna þeim breytingum sem lagðar eru til hér og hv. frsm. hefur gert grein fyrir, þ.e. að við bætast nýjar aðaltollhafnir á Grundartanga, Skagaströnd og Vopnafirði. Það er búið að vera baráttumál á Skagaströnd, a.m.k. það ég þekki til, og eins á Vopnafirði, í nokkur ár að hafnirnar fái þessa stöðu. Það hefur verið gríðarlegt hagsmunamál að svo yrði þar sem skipin hafa annars þurft að fara á fjarlæga staði til þess að fá tollafgreiðslu. Breytingartillaga sú sem hér er lögð til og hefur það í för með sér að þessar hafnir fá þessa stöðu, er virkilegt fagnaðarefni og vildi ég koma því hér á framfæri.

Sömuleiðis er líka ástæða til þess að fagna því að feldur skuli vera niður tollur á mikilvægum öryggistækjum eins og barnabílstólum.