Samkeppnislög

Föstudaginn 19. apríl 2002, kl. 16:50:57 (7928)

2002-04-19 16:50:57# 127. lþ. 123.15 fundur 596. mál: #A samkeppnislög# (EES-reglur, ríkisaðstoð) frv. 54/2002, Frsm. KHG (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 123. fundur, 127. lþ.

[16:50]

Frsm. efh.- og viðskn. (Kristinn H. Gunnarsson):

Herra forseti. Efh.- og viðskn. hefur fjallað um frv. til laga um breyting á samkeppnislögum og fengið á sinn fund fulltrúa frá fjmrn. auk þess að fá umsagnir frá ýmsum aðilum.

Frv. er ætlað að innleiða í samkeppnislög ákvæði reglugerðar Evrópusambandsins nr. 659/1999, en sú reglugerð kveður á um endurgreiðslu ólögmætrar ríkisaðstoðar samkvæmt samningnum um Evrópska efnahagssvæðið. Gert er ráð fyrir að ólögmæt ríkisaðstoð verði endurgreidd til ríkissjóðs með vöxtum. Frv. felur jafnframt í sér að í stað viðskiptaráðherra verði fjármálaráðherra heimilt að setja nánari reglur um framkvæmd reglna samningsins um Evrópska efnahagssvæðið um ríkisaðstoð til aðila hér á landi.

Nefndin bendir á að í 14. gr. reglugerðar ráðsins, sem fyrr er greint, segir að ekki skuli krafist endurgreiðslu ríkisaðstoðar ef það stríði gegn einhverju grundvallaratriði í bandalagslögum. Þar er jafnframt að finna ákvæði sem tekur á endurgreiðslu ólögmætrar ríkisaðstoðar. Þar segir að framkvæmdastjórnin skuli ákveða hæfilega vexti við slíkar aðstæður, en í frv. er gert ráð fyrir að Eftirlitsstofnun EFTA taki ákvörðun um vexti. Í 11. gr. reglugerðarinnar kemur svo fram að unnt sé að heimila að endurgreiðsla ríkisaðstoðar sé tengd greiðslu björgunaraðstoðar til hlutaðeigandi fyrirtækis, en slík aðstoð er eingöngu veitt einu sinni til skamms tíma í senn. Nefndin bendir jafnframt á að hér er um að ræða úrræði sem þarf að beita með varkárni þar sem ætlunin er ekki og á ekki að vera sú að gera fyrirtæki gjaldþrota eða koma þeim í fjárhagslega örðugleika þegar ríkisaðstoð hefur ranglega verið veitt.

Nefndin leggur til smávægilega breytingu á frv. þess efnis að í 2. gr. verði notað hugtakið ,,stjórnvöld`` í stað hugtaksins ,,hlutaðeigandi stjórnvald`` til þess að enginn vafi leiki á að það sé hlutverk íslenska ríkisins sem slíks en ekki einstakra stofnana þess að afgreiða mál um ólögmæta ríkisaðstoð.