Stefnumótun um aukið umferðaröryggi

Föstudaginn 19. apríl 2002, kl. 17:16:52 (7932)

2002-04-19 17:16:52# 127. lþ. 123.21 fundur 599. mál: #A stefnumótun um aukið umferðaröryggi# þál. 14/127, dómsmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 123. fundur, 127. lþ.

[17:16]

Dómsmálaráðherra (Sólveig Pétursdóttir) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil byrja á að nota tækifærið og þakka hv. allshn. fyrir afskaplega góða vinnu í þessu máli. Ég lít svo á að umferðaröryggismál séu þverpólitískt mál sem snerti alla landsmenn og okkur beri að vinna saman að.

En það voru einkum tvær spurningar sem hv. þm. beindi til mín og ég vil reyna að svara þeim hér. Þess er fyrst að geta að það eru auðvitað ýmis verkefni sem umferðaröryggisáætlun kveður á um sem krefjast aukins fjármagns á gildistímanum til 2012, og á fjárlögum ár hvert á tímabilinu verður tekin afstaða af hálfu þingsins til tillagna þar að lútandi.

Það er þó ekki þannig að alls staðar þurfi sérstaklega fjármagn til hluta, það er margt sem hægt er að gera án þess að það komi til. Og auðvitað gerist það líka í samhengi við aukna áherslu t.d. í löggæslumálum og er sérstaklega ánægjulegt hvað frumkvæðisvinna lögreglunnar hefur skilað sér vel í þessum efnum. Það hefur sýnt sig að búið er að stórauka umferðareftirlit og auka mjög afskipti af mönnum sem brjóta gegn umferðarlögunum.

Með þeirri stefnumótun er gert ráð fyrir að komið verði á fót sérstakri framkvæmdanefnd sem hafi með höndum það verkefni að tryggja að unnið sé í samræmi við umferðaröryggisáætlun. Einnig verði gerð markviss framkvæmdar\-áætlun sem m.a. fjalli um fjármál. Benda má á að stefnumótun gerir ráð fyrir nýjum tekjustofni fyrir umferðaröryggismál, tillaga 6 var nefnd hér áðan, tillaga um þróunarsjóð lögreglunnar sem gerir ráð fyrir að sektir renni til þess málaflokks a.m.k. að nokkru leyti. Mér finnst í sjálfu sér allt í lagi að sú tillaga sé skoðuð þótt vafalaust geti verið deildar meiningar um hana, t.d. vegna þess að ekki verði talið heppilegt að tengja saman störf lögreglu og innheimtu sekta. En þetta fyrirkomulag tíðkast þó í ýmsum öðrum löndum.

Við erum að tala hér um þáltill. og þingið er að lýsa vilja sínum í þessu máli. Við erum ekki að tala um einhver lagaákvæði heldur ályktun þingsins og stefnumótun sem verður reynt að framfylgja.