Stefnumótun um aukið umferðaröryggi

Föstudaginn 19. apríl 2002, kl. 17:36:33 (7937)

2002-04-19 17:36:33# 127. lþ. 123.21 fundur 599. mál: #A stefnumótun um aukið umferðaröryggi# þál. 14/127, ÁRJ
[prenta uppsett í dálka] 123. fundur, 127. lþ.

[17:36]

Ásta R. Jóhannesdóttir:

Herra forseti. Ég gat ekki á mér setið að taka aðeins þátt í þessari umræðu eftir að hafa hlustað á umræðurnar fyrr í dag þar sem menn gerðu umferðaröryggismálin á höfuðborgarsvæðinu að umtalsefni. Ég hef nýverið lesið í gegn úttekt Vegagerðarinnar og Línuhönnunar á umferðaröryggi á þjóðvega á höfuðborgarsvæðinu og finnst þess vegna ástæða til þess að koma inn í þessa umræðu. Ég sé að formaður allshn. er reyndar ekki viðstödd, en hún hafði í frammi ákveðnar staðhæfingar í málefnum höfuðborgarinnar sem ég vildi gjarnan leggja smá orð í belg um.

Hér er verið að fjalla um till. til þál. um stefnumótun um aukið umferðaröryggi og er það vel. Markmiðin sem þar eru sett eru í samræmi við markmið í heilbrigðisáætlun um að fækka umferðarslysum á næstu tíu árum sem Alþingi hefur samþykkt. Það er fullkomlega eðlilegt að menn setji sér markmið og vinni að þeim á fleiri en einum stað.

Ég er alveg sannfærð um að peningar sem settir eru í umferðaröryggismál skila sér í sparnaði annars staðar í kerfinu. Þeir skila sér í sparnaði í heilbrigðiskerfinu, í tryggingakerfinu, í félagslega kerfinu o.s.frv. Því er í rauninni sparnaður að leggja peninga í umferðaröryggi. Ég tek undir þær áhyggjur sem hafa komið fram í umræðunni um að ekki eigi að fylgja fjármagn þeim háleitu markmiðum sem menn eru að setja sér hér í umferðaröryggismálum. Auðvitað er forsenda þess að einhver árangur náist sú að fjármagn fylgi.

Þetta er auðvitað samfélaginu dýrt. Hvert einasta umferðarslys er samfélaginu mjög dýrt. Það er dýrt heilbrigðiskerfinu, fyrir utan allar þær hörmungar og sorgir sem það hefur í för með sér fyrir þá sem í því lenda. Þetta er því vissulega verðugur málaflokkur sem ber að huga að.

Hv. formaður allshn. gerði hér að umtalsefni gatnamót Miklubrautar og Kringlumýrarbrautar og taldi aðalástæðu þess að umferðaróhöppum hefði ekki fækkað meira að þar væru ekki komin mislæg gatnamót. Hún kenndi öllum öðrum en sjálfri sér þar um og sínum félögum. Þegar maður les í gegnum athugasemdir frá Vegagerðinni og Línuhönnun um áhættustaði eða svarta bletti í borginni og á höfuðborgarsvæðinu í umferðinni kemur í ljós að ýmsir staðir eru mun verri, þar sem fleiri óhöpp og fleiri slys verða en á þeim stað sem hv. formaður allshn. nefndi í ræðu sinni. Í þessari skýrslu sem ég vitnaði til áðan segir t.d. að gatnamót Kringlumýrarbrautar og Bústaðavegar væru einn mesti vandræðagemsinn meðal hnútpunktanna í kerfinu. Þar er þriðji fjölfarnasti hnútpunkturinn með flest óhöpp og næstflest slys. Engu að síður eru gatnamótin mislæg og stór hluti umferðarinnar fer undir brúna án ,,konflikta`` við aðra umferð. Þetta er beint upp úr þessari skýrslu.

Mislægu gatnamótin virðast ekki bjarga öllu í þessum málum. Það er hægt að koma að þessu á ýmsan annan hátt.

Vissulega stendur til að koma á mislægum gatnamótum Kringlumýrarbrautar og Miklubrautar þar sem allnokkur slysahætta er og þar er einn af verri stöðum í borginni eða á höfuðborgarsvæðinu. Aftur á móti hafa alltaf verið deilur um hvort þarna eigi að vera mislæg gatnamót. Það kom m.a. fram á fundi með Vegagerðinni í síðustu viku að til væru þeir sem legðust gegn því að þarna kæmu mislæg gatnamót, að m.a. legðust rekstraraðilar í Kringlunni gegn því. Það ber auðvitað alltaf að hafa ýmsa þættir í huga.

Vegagerðin talar um það í þessari skýrslu að ástæða sé til að huga að mörgum þáttum hvað varðar umferðaróhöpp og slys á höfuðborgarsvæðinu og leggur áherslu á að samræma þurfi gagnavinnslu um umferðaróhöpp og slys, þ.e. að mikilvægt sé að menn vinni gögnin á sambærilegan hátt þannig að hægt sé að bera þau saman og vinna með þau saman. Það þarf koma inn í slíka vinnu og ég legg til að í þeirri vinnu sem fer í gang um þessi mál verði þessar tillögur skoðaðar. Ég geri ráð fyrir að Vegagerðin geri það.

Síðan er mikið lagt upp úr því að Vegagerðin vinni vel með sveitarfélögunum og safni saman öllum gögnum um umferðaróhöpp og slys á höfuðborgarsvæðinu. Þeir benda líka á það hér að hægt sé að gera ýmislegt og ná ýmiss konar árangri í að fækka slysum með minni háttar aðgerðum sem þurfi ekki að kosta mikið. Þeir telja hér upp t.d. að hægt er að lagfæra að- og afreinar. Það er hægt að setja upp girðingar sem hindra umferð gangandi þar sem við á. Það er auðvitað hægt að gera víða í borginni. Víða er stórhættulegt þar sem gangandi vegfarendur þurfa að fara yfir miklar umferðaræðar, t.d. Kringlumýrarbrautina og á fleiri stöðum. Síðan nefna þeir að hægt sé að loka gatnamótum eða takmarka beygjustrauma og svo að endurskoða stillingu á umferðarljósum, t.d. verja vinstri beygjur. Það kom einmitt fram á fundinum hjá Vegagerðinni að hún teldi að hægt væri að fækka umferðarslysum með því að stilla betur saman umferðarljós því ekki væri nógu vel að því staðið. Þarna er því þáttur sem ber að huga að. Og síðan þarf að vanda betur skilti og merkingar.

Herra forseti. Áður en ég lýk máli mínu sem ég hóf vegna þessarar umræðu um ástandið á höfuðborgarsvæðinu vil ég að lokum minnast aðeins á Sundabrautina. Hún hefur verið nokkuð til umræðu hér og eru menn ekki alveg á einu máli um hvaða leið skuli farin. Það getur varðað miklu í umferðaröryggismálum hvor leiðin verður valin. Til dæmis má nefna að ef leiðin sem samgrh. hefur dálítið verið hlynntur verður valin, þ.e. að leiða umferðina yfir Sundabrautina og inn á Miklubraut, þá má búast við mun fleiri slysum og aukinni umferð í borginni. En verði aftur á móti farið eftir tillögum bæði meiri og minni hluta borgarstjórnar eins og þeir eru skipaðir í dag --- og þar eru menn sammála bæði í meiri og minni hluta --- að fara yfir Kleppsvíkina og láta umferðina ganga niður í bæ, þá mun það hafa í för með sér minni slysahættu en ella. Ég hvet til þess, herra forseti, að menn íhugi það þegar þeir fara að huga að umferðaröryggi hvernig þeir skipa akbrautum í framtíðinni inn í borgina.

Annars ætla ég nú ekki að vitna frekar í þessa skýrslu þó full ástæða sé til þess í þessari umræðu. Ég læt nægja að vísa til hennar í sambandi við þá vinnu sem nú fer í hönd.