Stefnumótun um aukið umferðaröryggi

Föstudaginn 19. apríl 2002, kl. 17:47:36 (7939)

2002-04-19 17:47:36# 127. lþ. 123.21 fundur 599. mál: #A stefnumótun um aukið umferðaröryggi# þál. 14/127, dómsmrh.
[prenta uppsett í dálka] 123. fundur, 127. lþ.

[17:47]

Dómsmálaráðherra (Sólveig Pétursdóttir):

Herra forseti. Ég held að það sé rétt aðferð að nota orð eins og að ,,meginmarkmið hafi náðst`` þegar við ræðum stefnumótun í umferðaröryggismálum eins og þá áætlun sem var í gildi frá 1997. Auðvitað voru mjög mörg atriði talin upp í þeirri áætlun. Rétt eins og um umferðaröryggisáætlunina 2002--2012 sem liggur nú til umræðu í þinginu voru vafalaust deildar meiningar þar um ýmis atriði, eða sem ekki þótti ástæða til að framkvæma. Meginmarkmiðið var hins vegar að fækka slysum í umferðinni. Það er það sem átt er við.

Ég vil leyfa mér að vísa til inngangsorða minna í þessari nýju skýrslu þar sem segir, með leyfi virðulegs forseta:

,,Með umferðaröryggisáætlun sem gekk í gildi árið 1997 var sett markmið um að færri en 200 mundu slasast alvarlega eða látast í umferðinni á ári fyrir lok viðmiðunartímabilsins. Meðaltal síðustu fjögurra ára þar á undan var 278 látnir eða alvarlega slasaðir. Í stuttu máli náðist þetta markmið á árinu 2001 þrátt fyrir að veruleg aukning hafi orðið á bifreiðaeign og þar með magni umferðar í landinu. Ég tel að þessi þróun bendi óneitanlega til þess að árangur hafi náðst eins og að var stefnt og það megi rekja til ýmissa þátta, svo sem aukins eftirlits lögreglu, hertra viðurlaga, en sektir voru hækkaðar verulega á liðnu sumri, bættrar ökukennslu, áróðurs, aukinnar vitundar meðal almennings og síðast en ekki síst til þess að unnið var eftir skýrri framtíðarsýn.``