Stefnumótun um aukið umferðaröryggi

Föstudaginn 19. apríl 2002, kl. 17:49:34 (7940)

2002-04-19 17:49:34# 127. lþ. 123.21 fundur 599. mál: #A stefnumótun um aukið umferðaröryggi# þál. 14/127, LB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 123. fundur, 127. lþ.

[17:49]

Lúðvík Bergvinsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Tilefni þess að ég bar spurninguna upp er sú að ef maður lítur á bls. 11 og skoðar þar fjölda látinna virðist manni við fyrstu sýn að því miður hafi markmiðið að því er varðar dauðaslys ekki náðst, ekki hafi orðið fækkun á þeim, og það er kannski það sem átt er við þegar talað er um að meginmarkmiðin hafi náðst en eitthvað hafi staðið út af. Það eru kannski þau slys sem við vildum fyrst og fremst koma í veg fyrir og það er vegna þeirra sem við viljum byggja umferðarmannvirki okkar þannig að við getum vænst þess að dauðaslysum fækki til mikilla muna. Það eru þau slys sem skilja eftir stærstu sárin, það eru þau slys sem við höfum mestar áhyggjur af.

Það var kannski þetta sem ég vildi spyrja hæstv. ráðherra um og spyrja hana þá hvort tekist hafi á þessum árum að fækka dauðaslysum miðað við þau ár sem á undan voru. Það kemur í raun og veru ekkert fram um þetta í umfjöllun um árangur. Ég spyr hæstv. ráðherra hvort þessi ályktun sem ég dreg af myndum í umferðaröryggisskýrslunni sé rétt.