Umferðarlög

Föstudaginn 19. apríl 2002, kl. 17:54:30 (7943)

2002-04-19 17:54:30# 127. lþ. 123.22 fundur 652. mál: #A umferðarlög# (Umferðarstofa o.fl.) frv. 83/2002, Frsm. ÞKG (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 123. fundur, 127. lþ.

[17:54]

Frsm. allshn. (Þorgerður K. Gunnarsdóttir):

Herra forseti. Ég mæli fyrir nál. um frv. til laga um breyting á umferðarlögum, nr. 50/1987.

Við fjölluðum vel um þetta mál í nefndinni og fengum marga gesti til okkar út af þessu máli sérstaklega.

Með frv. eru í fyrsta lagi lagðar til breytingar á ákvæðum umferðarlaga sem fjalla um stjórnsýslu bifreiðamála. Með þeim skal komið á heildstæðu skipulagi á stjórnsýslu umferðarmála með því að sameina verkefni Skráningarstofunnar hf. og Umferðarráðs og ýmis verkefni dómsmrn. og fela þau einni stofnun sem fái heitið Umferðarstofnun. Til að tryggja markvissari framkvæmd umferðaröryggismála er talið nauðsynlegt að sameina á einum stað málefni ökutækja, umferðarfræðslu og umferðaröryggis og önnur verkefni sem tengjast ökutækjum og umferð. Í öðru lagi lúta breytingarnar að ákvæðum laganna um skilyrði fyrir útgáfu fullnaðarskírteinis og að komið verði á svokölluðu akstursmati með það að markmiði að auka kröfur til ungra ökumanna.

Nefndin ræddi sérstaklega skilyrði frv. um að umsækjandi fullnaðarskírteinis mætti ekki hafa fengið punkta í punktakerfinu vegna umferðarlagabrota í eitt ár samfellt. Við veltum fyrir okkur ákvæðinu í frv. þar sem segir í 1. gr., með leyfi forseta:

,,Fullnaðarskírteini til þess sem hefur bráðabirgðaskírteini má gefa út, enda fullnægi hlutaðeigandi eftirtöldum skilyrðum:

a. hafi haft bráðabirgðaskírteini samfellt í eitt ár, farið í akstursmat og fengið að því loknu umsögn ökukennara um árangur þar sem mælt verði með útgáfu fullnaðarskírteinis,

b. hafi ekki í eitt ár samfellt fengið punkta í punktakerfi vegna umferðarlagabrota eða á sama tíma verið án ökuréttar vegna sviptingar.``

Við viljum sérstaklega taka fram að hér er átt við að umsækjandi megi ekki hafa fengið punkta fyrir umferðarlagabrot á undangengnum 12 mánuðum þannig að það verði samfelldir 12 mánuðir fyrir umsókn um fullnaðarskírteini. Nefndin ræddi einnig nokkuð um hver hvatningin væri varðandi það að fá þetta fullnaðarskírteini. Hún felst í rauninni í því að handhafi fullnaðarskírteinis má fá fleiri punkta án þess að verða sviptur ökuréttindum. Ég heyrði í fréttum frá Umferðarráði í dag að ungur ökumaður sem hafði fengið skírteinið fyrir þremur dögum var sviptur því í dag á grundvelli þess að hann hafði, að mig minnir, farið tvisvar yfir á rauðu ljósi og síðan verið tekinn fyrir hraðakstur. Þegar á heildina er litið hvetjum við unga ökumenn til að brjóta ekki af sér, virða umferðarreglurnar, hugsa um umferðaröryggið, að það skipti máli fyrir þá sem eru almennt í umferðinni og ekki síður fyrir þá sjálfa. Þetta finnst mér afskaplega mikilvægt og ég tel að nefndin sé sama sinnis. Við viljum frekar reyna að nálgast þessa hluti á jákvæðan hátt, hvetja ungt fólk til betri hegðunar.

Þá fjallaði nefndin um Umferðarstofnun. Nefndin telur að stofnun hennar feli í sér einfalt og skilvirkt stjórnsýslukerfi umferðarmála sem er nauðsynlegt fyrir markvissa framkvæmd á því sviði auk þess sem því fylgi hagkvæmt og öruggt rekstrarlegt umhverfi fyrir tölvukerfi sem eru á ábyrgð dómsmrn. eins og þau sem heyra undir Schengen-samninginn og fleira.

Þegar leitað var á sínum tíma, ef við förum aðeins aftur í söguna, árið 1990, var reynt að efla samstöðu um að koma tæknilegri framkvæmd Bifreiðaskoðunar í gott horf. Þegar hún var send til Skráningarstofunnar var forsendan ekki einkavæðing í sjálfu sér heldur að tækni einkamarkaðarins mundi leysa þetta, og hefur í rauninni sá hluti verið til mikillar fyrirmyndar.

Hvað hefur gerst síðan, frá árinu 1990? Við erum búin að fá stjórnsýslulög, upplýsingalög, persónuverndarlög og höfum gerst aðilar að Schengen-svæðinu.

Þegar maður skoðar hlutverk Skráningarstofunnar hf. sér maður að stjórnsýsluverkefnin sem þar eru framkvæmd eiga eðli málsins samkvæmt ekki að vera hjá hlutafélagi eins og Skráningarstofan hf. er en þegar á heildina er litið eru samlegðaráhrif Umferðarráðs og Skráningarstofunnar hf. mikil. Aðalástæðan fyrir þessu er að verið er að flytja hið stjórnsýslulega hlutverk Skráningarstofunnar hf. til Umferðarstofnunar.

Svo ég víki að því sem kom m.a. fram hjá fulltrúum Skráningarstofunnar hf. og var rætt í allshn. --- af hverju tökum við ekki bara þennan stjórnsýsluhluta og skiljum tölvukerfið eftir? Hluti af tölvukerfinu er Schengen-skuldbindingar okkar þar sem er lögreglukerfi og fleira þannig að það er getur verið viðkvæmt að skilja þetta eftir, og sumir telja að það samræmist ekki þeim skuldbindingum sem við höfum tekist á herðar í gegnum Schengen-samninginn, að skilja þetta eftir hjá einkaaðila.

[18:00]

Varðandi þetta atriði vil ég benda hv. þingmönnum á það sem stendur í ákvæði til bráðabirgða, með leyfi forseta:

,,Dómsmálaráðherra skipar verkefnisstjórn sem hefur það hlutverk að undirbúa stofnun Umferðarstofu og annast tilfærslu verkefna frá Umferðarráði og Skráningarstofunni hf. til Umferðarstofu.``

Einmitt þetta atriði ber verkefnisstjórninni að skoða, hvort flytja eigi allan pakkann yfir frá Skráningarstofunni til Umferðarstofnunar, eða Umferðarstofu eins og ég kem síðar að að er tillaga allshn., eða einungis hluta starfseminnar. En það eru sjónarmið sem stangast á eins og ég gat um, herra forseti. Það er ekkert óeðlilegt við að smíði og hönnun lögreglukerfanna sjálfra sé hjá einkaaðilum en varslan, eftirlitið, umfangið og starfsemin eiga að vera hjá hinu opinbera, þ.e. hjá lögreglunni, m.a. þessi umfangsmiklu verkefni sem heyra undir Schengen sem oft eru viðkvæmu mál.

Við í nefndinni leggjum til að frv. verði samþykkt með breytingum sem gerð er tillaga um á sérstöku þingskjali. Í fyrsta lagi leggur nefndin til að heiti Umferðarstofnunar verði breytt í Umferðarstofu. Þá telur nefndin rétt að svipting ökukennararéttinda verði á vegum ríkislögreglustjóra og hann veiti jafnframt löggildingu til ökukennslu því þannig sé tryggt að allar upplýsingar verði á einni hendi og afgreiðsla samræmd.

Félag ökukennara telur rétt að hafa þetta hjá ríkislögreglustjóra og að ekki eigi að færa þetta út í lögregluembættin. Að mörgu leyti getur nefndin fallist á þau sjónarmið þ.e. að þetta sé hjá ríkislögreglustjóra, þ.e. ákvörðun um annaðhvort löggildingu eða sviptingu ökukennararéttinda, enda megi þá kæra úrskurðinn til æðra stjórnvalds, þ.e. dómsmrn. Í dag hafa ökukennarar í raun eingöngu dómstólaleiðina þegar dómsmrn. hefur ákveðið, eins og ég segi, ýmist löggildingu eða sviptingu. Ég tel þetta æskilega breytingu. Að lokum leggur allshn. til að gildistaka laganna verði 1. október 2002.