Umferðarlög

Föstudaginn 19. apríl 2002, kl. 18:10:47 (7948)

2002-04-19 18:10:47# 127. lþ. 123.22 fundur 652. mál: #A umferðarlög# (Umferðarstofa o.fl.) frv. 83/2002, GÖ
[prenta uppsett í dálka] 123. fundur, 127. lþ.

[18:10]

Guðrún Ögmundsdóttir:

Virðulegur forseti. Hér er til 2. umr. frv. til laga um breyting á umferðarlögum, nr. 50 30. mars 1987, með síðari breytingum.

Eins og fram hefur komið undirrita ég þetta nál. með fyrirvara.

Segja má að í frv. sé um að ræða tvö til þrjú mál. Annars vegar breyting varðandi ýmislegt um ökuréttindin og hins vegar spurning um að setja á laggirnar Umferðarstofu auk þess sem gert er ráð fyrir breytingum varðandi Skráningarstofuna hf.

Fyrirvari minn markaðist af því að mér finnst hafa verið unnið of hratt. Mér fyndist að vinna ætti betur í þessu máli og að við hefðum fremur átt að klára það næsta haust, vinna betur úr hlutverki Umferðarstofunnar og ekki síður varðandi Skráningarstofuna. Ég á ekki við umræðuna um hvort hún sé hlutafélag eða ekki hlutafélag. Að flytja Skráningarstofuna hf., sem hefur verið hlutafélag í 100% eigu ríkisins, undir Umferðarstofuna finnst mér ekki rétt vegna þess að Skráningarstofan er ekki bara með skráningu á þessum málum. Hún sér um gagnagrunn um lögreglumál, þ.e. Schengen og SIRENE. Mér hefði fundist afar mikilvægt að sú stofnun yrði styrkt til algjörs sjálfstæðis. Ég setti fyrirvara m.a. út af því. Auðvitað var ekki nægjanlega að gert, t.d. í að fjalla um skoðun ríkislögreglustjóra þó að fulltrúi þaðan hafi komið á fund nefndarinnar.

Hjá nefndinni var ákveðin sú breyting að kalla þetta Umferðarstofu, enda afar mikilvægt að jákvæður tónn sé í heiti slíkrar stofnunar og það gefi til kynna hún sé með jafnjákvæðum formerkjum og Umferðarráð, sem almenningur þekkir afar vel til. Það er mjög mikilvægt að halda því til haga.

Ég hefði gjarnan viljað láta vinna málið betur. Því miður varð það nú ekki og ég vona að það valdi ekki stórslysum. Nefndinni bárust nokkrar umsagnir og við fengum tölvupóst út af málinu, sérstaklega út af Skráningarstofunni. Með því er snúið til baka með ákveðinn hluta hlutafélagavæðingar þó fyrirtækið hafi verið í eigu ríkisins. Upp hafa komið spurningar um hvort ekki ætti að gera Skráningarstofuna enn sjálfstæðari og hún gæti verið með fleiri verkefni en hún er með núna. Hins vegar kom fram að málið tengdist húsnæðinu sem Skráningarstofan er í, þar sem búið er að byggja sérstaklega utan um þá starfsemi, þ.e. að Umferðarstofa fari inn í það húsnæði.

Í nefndinni fóru fram afar góðar og jákvæðar umræður, það verður líka að segjast alveg eins og er. Þar komu náttúrlega allir helstu sérfræðingar í umferðarmálum, umferðaröryggismálum. Kannski má segja sem svo að með Umferðarstofu náist í raun betri samhæfing en hingað til sem væri til hins betra.

Annað sem snerti málið hér á undan var líka rætt, þ.e. spurningin um rannsókn mála. Við þyrftum að gefa rannsóknarnefnd umferðarslysa meiri gaum en gert hefur verið, gæta þess að til sé næg sérfræðiþekking á því sviði og reyna að efla hana sem allra mest. Þetta tengist áætlunum um fækkun slysa og meiri skilvirkni í kerfinu.

Af því Skráningarstofan sinnir fleiri verkefnum en þeim sem lúta beint að umferðarmálunum er spurning um hvort hún ætti ekki bara að vera sérstofnun áfram þó að hún yrði í sama húsi og Umferðastofa. Hún væri þá óháð Umferðarstofunni. Það hefur verið rætt um að tölvumiðstöð dómsmrn. gangi inn í þennan grunn og eins og ég nefndi áðan sér stofnunin um Schengen og SIRENE. Ég sé í sjálfu sér ekki að það það hafi neitt með Umferðarstofu að gera.