Umferðarlög

Föstudaginn 19. apríl 2002, kl. 18:55:22 (7954)

2002-04-19 18:55:22# 127. lþ. 123.22 fundur 652. mál: #A umferðarlög# (Umferðarstofa o.fl.) frv. 83/2002, GÁS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 123. fundur, 127. lþ.

[18:55]

Guðmundur Árni Stefánsson (andsvar):

Herra forseti. Ég er ekki með gildandi lög fyrir framan mig. Ég hlýt hins vegar að trúa hv. þm. þegar hún segir þetta. En ég spyr þá: Af hverju er orðalag með þessum hætti? Af hverju er þá ekki sambærilegt orðalag og sagt hér í e-lið: Umferðaröryggisgjald, sbr. 115. gr. gildandi laga? Ég spyr: Hlýtur þá ekki að gefa augaleið að lagatextunum hafi verið breytt á einhvern hátt, þ.e. þessari 2. mgr. 9. gr., frá gildandi 115. gr.? Það gefur augaleið. Þarna hlýtur að vera um einhverja breytingu að ræða ella væri bara hrein tilvísun til 115. gr. gildandi laga. Ég ætla að fletta þessu upp sjálfur. Ég geri það á eftir.

Herra forseti. Ég er búinn að hlýða á þessa umræðu hér frá upphafi til enda og ég hef ævinlega og alltaf verið að bíða eftir þessum hagkvæmnisrökum. Hvar sparast peningar við sameiningu þessara tveggja stofnana? Ég spyr enn og aftur: Hvað kosta þessar stofnanir núna hvor um sig? Hversu margir vinna þar og hvað mun hin nýja stofa kosta þegar hún tekur til starfa? Þetta eru ósköp einfaldar og skýrar spurningar sem áttu auðvitað að liggja fyrir í greinargerð með frv. En þær gera það því miður ekki. Ég spyr, herra forseti: Þorir hv. þm. að ganga lengra en fjárlagskrifstofa fjmrn. sem segir að kannski sé hægt að vona að einhver hagræðing náist en menn viti bara ekki nákvæmlega hvernig það verði og hversu mikil, ef þá einhver?