Umferðarlög

Föstudaginn 19. apríl 2002, kl. 19:02:55 (7958)

2002-04-19 19:02:55# 127. lþ. 123.22 fundur 652. mál: #A umferðarlög# (Umferðarstofa o.fl.) frv. 83/2002, GÁS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 123. fundur, 127. lþ.

[19:02]

Guðmundur Árni Stefánsson (andsvar):

Herra forseti. Ég skil vel að það svíði undan sannleikanum. Sannleikanum verður hver sárreiðastur. Þannig er í pottinn búið að á síðustu sjö árum hafa útgjöld ríkissjóðs hækkað um helming, og ég spyr: Hvaðan koma þeir fjármunir? Þeir koma auðvitað úr vösum skattgreiðenda þessa lands, koma auðvitað frá landsmönnum, frá alþýðufólki landsins til sjávar og sveita.

Herra forseti. Hv. þm. Guðjón Guðmundsson er vanur því að vera maður orða sinna og hann veit auðvitað miklu betur þegar hann heldur fram þeirri skröksögu að Samfylkingin hafi verið með tillögur um milljarða kr. útgjaldaauka við fjárlagagerð því að á sama tíma var Samfylkingin með tillögur til lækkunar á útgjöldum. Raunar fylgdu þeirri sögu sérstakar tekjur vegna sjávarútvegs.

Samfylkingin skilaði meiri afgangi í ríkissjóð í sínum tillögum á síðasta fjárlagaári, í desember sl., heldur en ríkisstjórnin. Sá var sannleikur málsins. Enda hafði hæstv. ríkisstjórn hreinlega gefist upp á því ætlunarverki sínu, og hér runnu svoleiðis milljónatugirnir, hundruð millj. og milljarðarnir út eins og hendi væri veifað og eins og mönnum væri hreinlega borgað fyrir það.

Auðvitað skil ég býsna vel, herra forseti, að Sjálfstfl. sé ekkert allt of stoltur af því þegar hann lítur til baka og sér í hendi sér að útgjöld ríkissjóðs hafa stóraukist ár frá ári. Ríkisstarfsmönnum hefur fjölgað og það gefur auðvitað augaleið að þessa peninga þarf að sækja eitthvað og þeir eru sóttir í vasa almennings í formi skatta og matarholu á borð við þjónustugjöld og sértekjur ríkissjóðs.