Nýr stofnsamningur Fríverslunarsamtaka Evrópu

Laugardaginn 20. apríl 2002, kl. 10:02:51 (7963)

2002-04-20 10:02:51# 127. lþ. 124.22 fundur 672. mál: #A nýr stofnsamningur Fríverslunarsamtaka Evrópu# (breyting ýmissa laga) frv. 76/2002, Frsm. SAÞ (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 124. fundur, 127. lþ.

[10:02]

Frsm. utanrmn. (Sigríður A. Þórðardóttir):

Herra forseti. Ég mæli fyrir nál. um frv. til laga um breytingu á ýmsum lögum vegna nýs stofnsamnings Fríverslunarsamtaka Evrópu, frá utanrmn.

Nýr stofnsamningur Fríverslunarsamtaka Evrópu var undirritaður í Vaduz í Liechtenstein 21. júní 2001 og veitti Alþingi ríkisstjórninni heimild til að fullgilda hann með þingsályktun 10. apríl sl. Fullgilding samningsins kallar á lagabreytingar hér á landi og miðar frumvarpið að breytingum á innlendri löggjöf sem fjallar um vöruviðskipti, þjónustuviðskipti, fjárfestingar og rétt til stofnsetningar en markmið lagabreytinganna er fyrst og fremst að veita svissneskum ríkisborgurum og lögaðilum rétt til samræmis við EES-borgara þar sem það leiðir af nýjum stofnsamningi EFTA.

Við athugun nefndarinnar á málinu kom í ljós að 22., 24. og 25. gr. frumvarpsins ganga lengra en fullgilding nýs Fríverslunarsamnings Evrópu krefst og leggur nefndin til að þeim ákvæðum verði breytt. Jafnframt hefur komið í ljós að í frumvarpið vantar breytingar á fjölmörgum ákvæðum laga sem eru á málefnasviði iðnaðar- og viðskiptaráðuneytis og leggur nefndin því til að þeim ákvæðum verði bætt við. Þá er lögð til breyting á gildistökuákvæði og að lokum eru lagðar til nokkrar lagfæringar á frumvarpinu en þar er ekki um efnisbreytingu að ræða.

Nefndin vekur athygli á að í 1. gr. frumvarpsins er breytt lögum nr. 45/1965, um eftirlit með útlendingum. Þau lög munu falla úr gildi 1. janúar 2003 við gildistöku nýrra laga um útlendinga ef samþykkt verða á þessu þingi og þarf þá að gera samsvarandi breytingu á þeim.

Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með breytingum sem lagðar eru til í sérstöku þingskjali og gerð er grein fyrir hér að framan.

Utanrmn. er einróma í afstöðu sinni til málsins.