Nýr stofnsamningur Fríverslunarsamtaka Evrópu

Laugardaginn 20. apríl 2002, kl. 10:05:13 (7964)

2002-04-20 10:05:13# 127. lþ. 124.22 fundur 672. mál: #A nýr stofnsamningur Fríverslunarsamtaka Evrópu# (breyting ýmissa laga) frv. 76/2002, ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 124. fundur, 127. lþ.

[10:05]

Ögmundur Jónasson:

Herra forseti. Það er ekki nauðsynlegt að orðlengja mikið um það frv. sem hér er til umræðu að öðru leyti en því að vekja athygli þingheims á því hve mikilvægt það er fyrir okkur að halda vöku okkar þegar við fáum til umfjöllunar lög og þingsályktanir sem snerta hið Evrópska efnahagssvæði. Hér hefur komið í ljós að þinginu og embættiskerfinu hefur yfirsést í nokkrum efnum og við erum af þeim sökum að gera breytingartillögur. --- Jú, þinginu, hv. þm. Sigríður Anna Þórðardóttir. Þinginu hefur yfirsést vegna þess að endanlega er þingið ábyrgt fyrir þeim lögum sem hér eru samþykkt að sjálfsögðu. Það dugir ekki að setja ábyrgðina á embættiskerfið sem að sjálfsögðu á að þjóna þinginu og upplýsa okkur.

En það er ekki þetta sem ég vildi fyrst og fremst ræða heldur hitt, þ.e. að minnast þess að iðulega erum við samþykkja hér frv. og þáltill. sem hafa mjög afdrifaríkar afleiðingar í samfélagi okkar. Fyrir nokkrum missirum var samþykkt hér þáltill. um eins konar stefnuyfirlýsingu Íslendinga sem tók á aðskiljanlegum málum sem snerta hið Evrópska efnahagssvæði. Það hefur staðið upp á okkur að samþykkja lög og reglugerðir frá hinu Evrópska efnahagssvæði og stundum hefur það dregist verulega. Það hefur verið ráðin bót á þessu með því að þingið samþykkir þá eins konar viljayfirlýsingu um hvað það hyggist lögfesta á komandi mánuðum.

Í einni slíkri þáltill. sem þingið samþykkti var samþykkt að umbylta íslenska orkugeiranum í þá veru sem Evrópa eða Evrópusambandið hafði ákveðið. Þá samþykkti þingið að við mundum lögfesta að á komandi sumri mundum við gera öllum orkufyrirtækjum í landinu að aðgreina framleiðsluhluta fyrirtækjanna og síðan dreifingar- og söluhlutana hins vegar. Með þessu móti er Evrópusambandið að búa í haginn fyrir markaðsvæðingu raforkugeirans og þá á hið sama að gilda um raforkuframleiðslu í Evrópu og á Vestfjörðum og reyndar hvar sem er innan hins Evrópska efnahagssvæðis.

Ég tel að þarna hefðu Íslendingar átt að leita undanþágu. Ég er nokkuð sannfærður um að okkur hefði tekist að fá samþykkta undanþágu við þessu ákvæði. Það voru einvörðungu þingmenn Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs sem vöktu athygli á þessu og við héldum uppi umræðu um þetta mál við lítinn fögnuð í þinginu. Menn spurðu hvað þetta ætti eiginlega að þýða, þetta væri þáltill., eins konar almenn viljayfirlýsing og menn ættu að snúa sér að gagnlegri verkefnum en að karpa um slíkt.

En með þessari ákvörðun, með þessari samþykkt vorum við að skuldbinda okkur í þessum efnum og hefðum betur hugað nánar að því sem við vorum að gera því ég hef orðið var við það bæði innan stjórnarandstöðu og einnig innan stjórnarmeirihlutans að þarna hefðum við betur farið öðruvísi að. Þetta, herra forseti, vildi ég nefna í tilefni þessa frv. sem fjallar um breytingar sem þinginu og embættismannakerfinu yfirsást á sínum tíma.