Nýr stofnsamningur Fríverslunarsamtaka Evrópu

Laugardaginn 20. apríl 2002, kl. 10:14:14 (7966)

2002-04-20 10:14:14# 127. lþ. 124.22 fundur 672. mál: #A nýr stofnsamningur Fríverslunarsamtaka Evrópu# (breyting ýmissa laga) frv. 76/2002, ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 124. fundur, 127. lþ.

[10:14]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Herra forseti. Aðeins örstutt athugasemd vegna ummæla hv. þm. Össurar Skarphéðinssonar. Ég er ekki í hópi þeirra sem telja að EES-samningurinn hafi orðið okkur til góðs að því marki sem hv. þm. og hans flokkur þrástaglast á. Hins vegar er þessi samningur veruleiki og þá eigum við að sjálfsögðu að gera hið besta úr honum. Íslendingar hafa ekki sömu stöðu til þess að semja um tvíhliða aðkomu að Evrópussambandinu og þeir höfðu áður en þessi samningur var gerður. Þess vegna hef ég ekki verið á því máli að segja honum upp heldur vil að við gerum hið besta úr honum því að sjálfsögðu er sitthvað þar nýtilegt og hefur orðið okkur til góðs.

Varðandi raforkumálin finnst hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni það hafa verið hin besta ráðstöfun, ef ég skildi hann rétt, að samþykkja þær breytingar sem tilskipun Evrópusambandsins um raforkugeirann gerir ráð fyrir og þvinga stór og smá raforkufyrirtæki og stofnanir á borð við Orkubú Vestfjarða til þess að umbylta rekstrarfyrirkomulagi sínu. Ég hef rætt þetta við starfsmenn orkubúsins. Þeim finnst þetta öllum út í hött og til mikillar óþurftar og þar á bæ hafa menn spurt sig hvaða hagsmunum sé verið að þjóna því þetta sé ekki neytendum í hag nema síður sé, starfseminni alls ekki, heldur fjötur um fót. Og menn spyrja: Hvers vegna í ósköpunum á að þvinga okkur til að fara að þessari miðstýringaráráttu Evrópusambandsins að þessu leyti? Það vekur furðu mína að hv. þm. Össur Skarphéðinsson skuli leggja blessun sína yfir þetta að því leyti sem hann gerði hér áðan.