Nýr stofnsamningur Fríverslunarsamtaka Evrópu

Laugardaginn 20. apríl 2002, kl. 10:22:53 (7970)

2002-04-20 10:22:53# 127. lþ. 124.22 fundur 672. mál: #A nýr stofnsamningur Fríverslunarsamtaka Evrópu# (breyting ýmissa laga) frv. 76/2002, SJS
[prenta uppsett í dálka] 124. fundur, 127. lþ.

[10:22]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Segja má að þetta frv. sé fylgifrv. með samningi þeim um endurskoðun stofnsamnings Fríverslunarsamtaka Evrópu sem jafnframt er til umfjöllunar á þessu þingi, þykkt og mikið plagg, þar sem hinum gamla Stokkhólmssamningi sem staðið hafði óbreyttur um 40 ára skeið er breytt og hann í raun og veru endursaminn. Hinn nýi samningur er kenndur við borgina Vaduz í Liechtenstein og meginefnisáhrifin eru þau að uppfæra samninginn til nútímans og taka inn í hann fjölmörg svið sem ekki var tekið á í gamla samningnum en hafa öðlast vaxandi gildi í viðskiptum og samskiptum þjóða á undanförnum áratugum. Þar má nefna sérstaklega ýmiss konar þjónustu, viðskipti og fjárfestingar og aðra slíka hluti, en gamli samningurinn var fyrst og fremst sniðinn að hefðbundnum fríverslunarhugmyndum með vörur eins og þær voru á þeim tíma þegar hann var gerður fyrir meira en 40 árum.

Efnisáhrif samningsins eru kannski ekki mikil þannig að þessi pappírsvinna öll hvað Ísland snertir er svo sem talsverð fyrirhöfn utan um lítið mál en það er þó engu að síður þannig að sjálfgefið er að Sviss sem aðili að EFTA öðlist þau réttindi sem leiðir af hinum nýja stofnsamningi EFTA. Og í reynd er það nú það sem í langflestum tilvikum er verið að gera í þeim tiltölulega flóknu og óskiljanlegu textum sem eru bæði í frv. og síðan í brtt., þar sem oftast kemur fyrir að í staðinn fyrir orðin ,,Evrópska efnahagssvæðið`` koma ,,og samkvæmt stofnsamningi Fríverslunarsamtaka Evrópu``. Það sem þá gerist ósköp einfaldlega er að Sviss bætist við þau þrjú ríki sem fyrir eru og felast á bak við þessa fögru yfirskrift ,,Evrópska efnahagssvæðið``. Þar er átt við á mannamáli Ísland, Noreg og Liechtenstein, og þegar vitnað er síðan til stofnsamnings Fríverslunarsamtaka Evrópu þá bætist Sviss við. Vonandi má þetta verða mönnum til einhverrar einföldunar á að skilja þá latínu sem hér er.

Síðan verð ég að segja um þennan stofnsamning almennt að hann hefur gildi kannski aðallega af tveimur ástæðum, þ.e. vegna þess að hann markar leikreglurnar innbyrðis milli þessara ríkja, Íslands, Noregs, Liechtensteins og Sviss, og hann er síðan sá grundvöllur sem fríverslunarsamningar út á við við þriðju ríki eru byggðir á. Það hefur smátt og smátt orðið meginhlutverk EFTA, eða þar sem EFTA hefur verið sýnilegast og virkast á undanförnum árum, að hafa með höndum fríverslunarsamninga EFTA-ríkjanna út á við við önnur ríki.

Fróðlegt er að velta því aðeins upp, herra forseti, vegna orðaskipta sem fóru fram áðan að slíka fríverslunarsamninga geta EFTA-ríkin gert og getur Ísland gert fyrir sitt leyti af því að við erum ekki aðilar að Evrópusambandinu. Það er ástæðan fyrir því að við sem hluti af EFTA, annars vegar sameiginlega í gegnum EFTA, hins vegar með bókunum og tvíhliða samningum sem oft hafa tengst gerð fríverslunarsamninga í gegnum EFTA, t.d. bókanir um viðskipti með landbúnaðarvörur eða vörur sjávarútvegsins, höfum þetta samningafrelsi enn þó að við séum aðilar að Evrópska efnahagssvæðinu vegna þess að við höfum ekki verið innlimuð í Evópusambandið. En það yrði búið með það frá fyrsta degi ef við gengjum í Evrópusambandið og það finnst mér að hv. þm. Össur Skarphéðinsson ætti að hafa í huga. Þá kæmu til með að gilda hin almennu viðskiptakjör og tollakjör Evrópusambandsins út á við, þar á meðal tollmúrar sem í vissum tilvikum mundu rísa upp gagnvart viðskiptum með sjávarfang. Það eru því eins og stundum áður margar hliðar á þessu máli og alls ekkert einfalt að halda því fram að viðskiptahagsmunum okkar sé sjálfkrafa betur borgið með aðild að Evrópusambandinu að þessu leytinu til heldur en einmitt með þeirri stöðu sem við höfum í dag. Nú eru í undirbúningi viðskiptasamningar við ýmis Asíulönd þar sem eru miklir markaðir fyrir sjávarfang og ýmsir telja að framtíðin gæti legið ekki síst á því sviði.

Vegna þess að EES-samningurinn var aðeins gerður að umtalsefni þá vil ég segja að mér fannst í raun og veru ekkert vera mjög flókið að meta hinn viðskiptalega þátt hans og ekki hafa verið það síðan. Það er alveg hægt að fara yfir það og reikna út ef menn vilja hvað megi reikna með að hafi verið áætlaðir ávinningar Íslands af þeim tollaniðurfellingum eða lækkunum sem fengust með EES-samningnum. Þar hafa menn haft mikla tilhneigingu til að ýkja ávinning Íslands stórkostlega og það mætti jafnvel ætla að menn hafi ekki áttað sig á því hvaða viðskiptakjör Ísland hafði áður en EES-samningurinn komst í gildi en þau voru í öllum aðalatriðum mjög góð. Bókun 6 tryggði Íslendingum að langmestu leyti tollfrjálsan eða tiltölulega tollalágan aðgang fyrir mikilvægustu framleiðsluvörur sínar.

Ég hef aldrei dregið dul á það að síðan komu til sögunnar ákveðnar viðbótarniðurfellingar þannig að viðskiptakjör okkar með sjávarvörur og aðrar útflutningsvörur inn á markaði Evrópusambandsríkjanna bötnuðu við gerð EES-samningsins, það er alveg á hreinu, en það var bara á þeim afmörkuðu sviðum þar sem ekki hafði verið fríverslun fyrir. En það gilti um langmikilvægustu framleiðsluvörur okkar eins og frosnar afurðir og saltfisk þangað til tollfrjálsa kvótanum var náð, sem oftast var fullnægjandi.

Síðan hefur gleymst að það náðist einmitt ekki full fríverslun með allar vörur og það skýtur upp kollinum núna þegar umræðan fer í gang um stækkun Evrópusambandsins og úr gildi falla fríverslunarsamningar okkar við Austur-Evrópulönd, þau lenda þá undir tolla- og viðskiptakjarareglur Evrópusambandsins sem í sumum tilvikum að óbreyttu mundi þýða versnandi viðskiptakjör fyrir okkur. Eftir stóðu því ákveðnir tollar, ekki háir að vísu en oft á bilinu 5-- 6% og upp í 15% á ákveðnum vöruflokkum, sem mundu vakna upp í þessu tilviki gagnvart löndum eins og Póllandi, Eystrasaltsríkjunum o.s.frv. þegar þau verða aðilar og ef ekki tekst að leysa það mál sem er ósköp einfaldlega viðskiptalegt úrlausnarefni. Menn hafa rætt þar um aðallega tvær leiðir, þ.e. að reyna að ná fram varanlegri fríverslun með skírskotun til þess að viðskiptakjör eigi ekki að versna við breytingar af því tagi að Evrópusambandið stækki eða, sem væri að vísu lakari kostur, að taka þetta inn með hækkun á tollfrjálsum kvótum o.s.frv. og hafa þá til viðmiðunar svonefna jafnvirðissamninga, að viðskiptakjörin í verðmætum talið versnuðu ekki. Þá er viðmiðunin þau viðskipti, sá útflutningur sem við höfum haft til þessara landa og þá mundum við auðvitað gjalda þess í vissum tilvikum að við höfum ekki verið stórtæk í útflutningi t.d. til Póllands.

[10:30]

Ég er þeirrar skoðunar að eðlilegast sé að ræða málið eins og það liggur fyrir, herra forseti, um viðskiptakjör samningsins um Evrópska efnahagssvæðið, hann er til staðar og það þarf ekkert að deila um það. Það er hægt að fara nákvæmlega yfir hvaða breytingar urðu á tollum. Hins vegar er engin ástæða til að reyna að umskrifa söguna örfáum árum eftir að hún hefur skapast að í raun hafi orðið óskaplegar grundvallarbreytingar sem hafi gjörbreytt efnahagslegu umhverfi Íslands með þessum samningi. Það er bara ekki rétt. Það er bara óskaplega einfaldlega ekki svo.

Það er alveg hægt að mæla þessi áhrif. Þau eru tiltekin og munum þá líka eftir því að þetta kom ekki ókeypis. Fyrir þetta greiðum við í fyrsta lagi greiðslur okkar í sjóðina, þróunarsjóðina. Í öðru lagi gáfum við veiðiheimildir á móti og í þriðja lagi má auðvitað gjaldfæra debetmegin þá ókosti samningsins sem menn hafa hér m.a. verið að ræða og eru líka til staðar.

Ég held að menn viðurkenni vissa ókosti. Meira að segja hv. þm. Össur Skarphéðinsson var að tala um sálarkvalir sínar þegar hann hefði stundum þurft að standa að því að innleiða hér alls konar tilskipanir og fáranlegt regluverk sem í raun er út í hött að vafrast með á Íslandi, hvort það er sporbreidd járnbrautarteina eða eitthvað annað álíka gáfulegt sem varðar hinn daglega veruleika á Íslandi ekki mikið. Það var hér ákaflega fyndið þingmál fyrr á árum sem var ættað frá Brussel, um hálfleiðara, sem þingmenn gerðu sér mjög að skemmtiefni hér á kvöldfundum fyrir nokkrum árum.

Að síðustu, herra forseti, tek ég undir það sem hv. þm. Össur Skarphéðinsson kom reyndar líka aðeins inn á, að ekki hefur nú verið vandað sérstaklega til vinnunnar við undirbúning þessarar lögfestingar af hálfu ráðuneytanna sem lögðu þarna í púkk. Það er auðvitað heldur dapurlegt fyrir iðn.- og viðskn. að standa frammi fyrir því að hafa gleymt sínum eigin lögum í hverju tilvikinu á fætur öðru. Það er alveg merkilegt að þeir séu svona ryðgaðir orðnir í iðn.- og viðskn., t.d. í lögunum um viðskiptabanka og sparisjóði og lögunum um aðrar lánastofnanir, að þeir bara gleymdu að þau væru til og hér vantaði algjörlega inn í frv. ákvæði sem auðvitað hefði þurft til að lögtaka breytingarnar í þeim lögum og taka það sem það snýst um, taka Sviss inn með hinum EFTA-ríkjunum sem þar voru fyrir. Þarna hefði náttúrlega mátt vanda betur til verka, herra forseti.